Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 14:14:23 (6537)


     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Embætti forseta Alþingis er í því fólgið að verja Alþingi, standa vörð um Alþingi, um rétt þingmanna til að fá leyfi til að flytja sitt mál. Á þessum fundi lýsti ég því yfir og óskaði eftir upplýsingum um hvort það væri rétt að bankakerfið hefði alls ekki skuldbundið sig til að taka við fyrirgreiðslu fyrir Lánasjóð ísl. námsmanna. Því var haldið fram af hæstv. menntmrh. að ég færi með fleipur og ósannindi. Síðan stendur á fætur hv. 5. þm. Suðurl., formaður eins stærsta banka landsins, Búnaðarbanka Íslands, og upplýsir að þar hafi engar umræður farið fram varðandi þjónustu við námsmenn. ( Menntmrh.: Ég var búinn að upplýsa það í gær.) Þetta hlýðir forseti á án þess að gera nokkra athugasemd við eða leiðrétta það á nokkurn hátt að þar með hafi ég ekki farið með ósannindi. Þetta lykilatriði varðandi þær breytingar sem nú er verið að gera á Lánasjóði ísl. námsmanna á síðan að ganga hér fram af því að einhverjir þingmenn töldu líklegt að það væri hægt hér í dag að ljúka þessari umræðu á tveim tímum. Auðvitað skiptir það engu máli hvort eitthvert samkomulag var gert um einhverjar mínútur. Það sem skiptir máli er að við erum að verja íslenska námsmenn. Við erum að verja íslenskar fjölskyldur gegn því að börnin þeirra hrökklist frá námi af því að bankakerfið tekur ekki við hvaða ábyrgðarmanni sem er, enda á bankakerfið skyldum að gegna við þá sem geyma sparifé sitt í bönkum landsins að sjálfsögðu.
    Og hér hefur komið fram að enginn fundur hefur verið haldinn um þetta mál í bankaráði Búnaðarbankans og það er ærin ástæða til að við eigum kröfu á því að forstöðumenn banka landsins upplýsi hv. menntmn. og þar með Alþingi allt um hvað hefur raunverulega verið gert í þessum efnum. Ég ítreka, hæstv. forseti, beiðni okkar þingmanna og geri þá tillögu hv. 18. þm. Reykv. að minni eða tek undir þá beiðni að forseti geri nú þinghlé og í nafni okkar þingmanna óski eftir þessum upplýsingum. Og ég leyni því ekki

að ég lít það mjög alvarlegum augum ef þingforseti hafnar þeirri ósk tveggja þingmanna. Það getur varla skipt sköpum þó að menn eyði nokkrum tíma í að fá skorið úr þessu mikilvæga atriði. --- [Fundarhlé.]