Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 18:14:00 (6578)


     Geir H. Haarde (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég kem upp til að þakka hv. 3. þm. Norðurl. e., Valgerði Sverrisdóttur, fyrir þann drengskap sem hún sýndi áðan með því að standa upp og staðfesta það samkomulag sem gert var í gær milli formanna þingflokka og endurtekið í dag á sama vettvangi, það samkomulag sem vitnað var til í umræðum um þingsköp af minni hálfu fyrr í dag. Hluti af því samkomulagi sem gert var í dag var að á fund menntmn. kæmi framkvæmdastjóri Lánasjóðs ísl. námsmanna einn þannig að það liggur alveg fyrir hvernig þetta mál er í pottinn búið og hvaða samkomulag hefur verið gert milli formanna þingflokka. Ég endurtek þakkir mínar til hv. þm.
    Það verður svo hver og einn að dæma fyrir sig um það sjónarspil sem upp hefur verið þyrlað í kringum þetta mál hér af öðrum hv. þm.