Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 20:47:30 (6590)


     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það má endalaust deila um hvort Morgunblaðið eigi Sjálfstfl. eða Sjálfstfl. Morgunblaðið. Hins vegar hefur það komið fram í þessari umræðu að Sjálfstfl. tekur mark á ýmsu því sem Morgunblaðið segir og það er kannski aldrei jafnnauðsynlegt og einmitt nú að Sjálfstfl. taki mark á Morgunblaðinu. Hins vegar kom það fram í ræðu hæstv. menntmrh., og það sannast þá sem forsrh. hefur haldið fram, að menn séu sífellt að halda sömu ræðurnar, og það sannaðist best á hæstv. menntmrh. því það kom fram í 1. umr. og menn voru alveg sáttir við þær skýringar, að menn ættu ekki að deila í þessari umræðu um hvort og hverjum það væri að kenna hvernig komið væri fyrir Lánasjóði ísl. námsmanna. Það er alveg sama hvaða stjórnmálaflokkur hefur farið með málefni sjóðsins. Það hefur aldrei nokkurn tíma verið staðið við það ríkisframlag sem sjóðnum var ætlað í upphafi, hvort sem það var Sjálfstfl. eða einhverjir aðrir flokkar. Menn ætluðu ekki að deila um þetta og þetta talaði hæstv. menntmrh. um strax í upphafi.
    Hins vegar er það rétt hjá hæstv. ráðherra að Framsfl. kom í veg fyrir það ítrekað á árunum 1983--1988 að Sjálfstfl. næði til að vinna þau óheillaverk sem hann ætlaði sér og er núna að framkvæma á Lánasjóði ísl. námsmanna. Alþfl. hefur hins vegar ekki tekist það. Og eitt dæmi um þetta er að þegar Sjálfstfl. komst ekki upp með að breyta þeim grundvallarmarkmiðum sem eru í lögunum frá 1982, þá nýttu menntmrh. Sjálfstfl. sér hvað eftir annað þær heimildir sem þeir hafa til að breyta reglugerðinni um grunnframfærsluna og átta sinnum á árunum 1983--1988 var þessari sömu reglugerð breytt, 21. gr. reglugerðarinnar um framfærsluna var átta sinnum breytt. Og þegar upp var staðið hljóðaði hún í áttunda skipti nákvæmlega eins og hún hljóðaði í upphafi. Svona hringlandahátt í þessu viðkvæma máli, sem það er fyrir

námsmenn, er ekki hægt að líða. Það er þetta sem Sjálfstfl. er núna að gera. Það verður óbúandi fyrir námsmenn við þau lög sem þeir eru að troða í gegnum þingið í andstöðu við þingið að meiri hluta til og þjóðina líka.