Háskólinn á Akureyri

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 21:45:11 (6608)



     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið hjá frsm. menntmn. hefur tekist gott samkomulag í nefndinni um afgreiðslu þessa máls, sem er frv. til nýrra laga um Háskólann á Akureyri. En eins og kunnugt er er búið að starfrækja hann um nokkurt skeið á grundvelli fyrstu laga sem samþykkt voru um þá stofnun fyrir nokkrum árum.
    Hér er um að ræða afrakstur af endurskoðun sem staðið hefur yfir um nokkurt skeið. Menntmn. hefur gert nokkrar breytingar á því frv. sem lúta að því fyrst og fremst að gefa þessum háskóla norðan lands það svipmót að um vísindalega stofnun er að ræða sem ætlunin er að geti þróast eins og fullgildur háskóli á komandi tíð. Það er kannski meginbreytingin frá þeim lögum sem í gildi voru um þennan skóla að þau settu stofnunina í nokkurt haft a.m.k. að ytra búningi hvað lögin snerti og gerðu ekki ráð fyrir því með sama hætti og hér liggur nú fyrir að þessi háskóli geti og eigi að þróast sem akademísk stofnun. Ég tel mjög þýðingarmikið að í menntmn. hefur tekist gott samkomulag um það að undirstrika þessa stefnu enn frekar en kemur fram í frv. sem vísað var til nefndarinnar.
    Þetta gerist með brtt. við 1. gr. sem er nú orðuð efnislega mjög svipað og markmiðsgreinin um Háskóla Íslands. Þetta gerist einnig með því að fella niður þátttöku heimaaðila í stjórnun skólans sem gert var ráð fyrir. Ástæðurnar fyrir því hafa verið skýrðar í nál. Ástæðan er ekki sú að við teljum ekki æskilegt að þessi skóli eigi gott samstarf við umhverfi sitt og taki tillit til þess heldur hitt að við teljum að það gefi kannski rangar hugmyndir um eðli stofnunarinnar og að hér er um landsstofnun að ræða sem allt landið á mikið undir að geti dafnað og þróast og því ekki rétt að gefa stjórn hennar staðbundinn svip eins og þarna hafði verið gert ráð fyrir.
    Þá tel ég mikilsvert að það hefur verið gerð breyting, að vísu ekki fyrirferðarmikil, á 9. gr. frv. í sambandi við heimildir til að auka við deildir skólans. Þar felur orðalag í sér að lögin gera ráð fyrir að menntmrn. heimili þar viðbætur og aukningu og í nál. er með skýrum hætti tekið undir viðbót við núv. deildir þar sem segir: ,,Nefndin styður að hið fyrsta verði stofnuð kennaradeild við skólann, en ljóst er að verulegur áhugi og stuðningur er við stofnun slíkrar deildar.`` Þetta er áhersla sem ég vona að hlustað verði á af framkvæmdarvaldi og fjárveitingarvaldi hér á Alþingi fyrr en seinna. Undirbúningur hefur farið fram um þetta efni.

    Á fund menntmn. komu sl. haust rektor og annar starfsmaður skólans og gerðu grein fyrir þessum undirbúningi. Og við skulum vona að það verði þegar á næsta ári, 1993, séð fyrir því að þessi viðbót geti átt sér stað.
    Það er vissulega álitamál hvort það á í lögum að telja upp deildir stofnana eins og háskóla. Ég hefði vel getað hugsað mér að slík upptalning lægi þar ekki fyrir heldur almenn heimild til aukningar og viðbótar. En það var þó talið rétt að viðhalda þessari upptalningu og vísa til hliðstæðra ákvæða í lögum um Háskóla Íslands m.a. þar sem deildir eru upp taldar og lagabreytingarnar munu fara fram þegar um viðbætur er að ræða. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að menntmrn. heimili slíka stofnun nýrra deilda við skólann án þess að til sérstakra lagabreytinga þurfi að koma.
    Það voru vissulega uppi efasemdaraddir á sínum tíma þegar tekin var ákvörðun um að heimila stofnun háskóla á Akureyri. Og það er vissulega ekki nýtt þegar um er að ræða sókn í þessa átt sem tengist Norðurlandi. Þetta gerðist þegar menntaskóli var þar settur á fót á sínum tíma. Þá mætti það allharðri andstöðu m.a. sunnan heiða og kannski einkum sunnan lands, efasemdum um að menn hefðu bolmagn til þess og það væri jarðvegur fyrir að setja á fót menntaskóla á Akureyri. Sagan hefur sýnt okkur og sannað að það var rétt skref á þeim tíma og um það deilir enginn lengur, enda eru nú slíkar stofnanir starfandi í öðrum landshlutum.
    Ég held að það beri sérstaka nauðsyn til þess einmitt nú að bæta stöðu þessarar stofnunar, auka svigrúm hennar og veita henni brautargengi með fjárveitingum og ástæðan er að fá atriði eru líklegri til þess að geta orðið til styrktar þessum landsfjórðungi, landsbyggðinni utan Reykjavíkur, en að gefa fræðslu- og menntastofnunum utan höfuðborgarsvæðisins svigrúm og vaxtarrými. Það er almenn aðgerð í raun sem þar er á ferðinni en sem að mínu mati er líklegri til að treysta byggð og efla bjartsýni en margt sem reynt er að grípa til með réttu til að bæta stöðu hinna dreifðu byggða í landinu.
    Margt togar í frá útlandinu og menn tala um aukin tengsl út á við, við Evrópu sérstaklega og við deilum um það og eigum eftir að takast á um það hvort gera eigi þá fasta og bindandi samninga sem munu verða lagðir hér fyrir þingið innan fárra daga. Ég ætla ekki að ræða það efni sérstaklega, en ég vil nefna það í sambandi við þetta frv. að ég held að fátt sé nauðsynlegra til mótvægis við það aðdráttarafl sem útlandið hefur, Evrópa kannski sérstaklega nú um stundir, á Íslendinga og íslenskt þjóðlíf en einmitt það að skapa og treysta nýja þróun, nýjar og þroskavænlegar miðstöðvar utan höfuðborgarsvæðis landsins. Akureyri er slík miðstöð, en hún mun eflast verulega og staðan norðan lands ef þessi stofnun fær það vaxtarými og þann byr sem vera þyrfti. Ég held að það sé vísbending og skilaboð kannski til okkar sjálfra, til þjóðarinnar, ef þar verða athafnir látnar fylgja orðum, fjármagn látið fylgja ákvörðunum til þess að þetta megi gerast, skilaboð um það að við ætlum ekki að gefast upp í þessu landi, við ætlum ekki að láta miðsóknaröflin, hvort sem það er hér gagnvart þessu stóra höfuðborgarsvæði á okkar mælikvarða eða togkraftanna frá Evrópu, verða til þess að færa byggðina á Íslandi í eitt borgríki. Við ætlum að efla menntun, rannsóknir, þróun og vísindi norður undir Dumbshafi og þar er tekin rétt ákvörðun með því að lögfesta nú þetta frv. og við skulum vona að aðgerðir fylgi á eftir.