Verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

145. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 00:03:00 (6621)

     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég hef fallist á það eða öllu heldur þegið það, sem virðulegur forseti Alþingis bauð mér hér áðan, að mæla fyrir þessu frv. sem hefur beðið þess alllengi að komast á dagskrá og ég mun nýta mér þetta tækifæri þar sem ekki er víst að önnur gefist á þessu þingi til að koma þessu máli þann rekspöl áleiðis að fyrir því sé mælt.
    Þetta er 383. mál þingsins og á þskj. 625. Það væri að vísu æskilegt og ekki nema maklegt að hæstv. viðskrh. yrði nú vakinn af værum svefni, sem ég veit að við getum vel unnt honum, en engu að síður væri ekki nema eðlilegt að honum yrði gert aðvart um það að hér sé tekið til við að ræða þessi mál, samkeppnislög og lög um viðskiptahætti, og ég veit að hv. 17. þm. Reykv., sem er formaður þingflokks Alþfl., tjáði mér að það væri ekkert að því að hæstv. viðskrh. yrði kallaður til samkundunnar, Alþingis. En eitthvað er mönnum engu að síður viðkvæmt mál að hrófla við svefni ráðherranna eins og sást á afgreiðslu forseta um beiðni um að þeir mættu til að sinna þingskyldum og vera viðstaddir umræðu um næsta dagskrármál á undan. En ég vil engu að síður og sérstaklega með tilliti til þess að hæstv. viðskrh. mælti fyrir sínu frv. til samkeppnislaga á dögunum að mér fjarstöddum, þó svo að um það hefði verið samkomulag gert að þessi tvö mál fylgdust að, gjarnan nýta þetta tækifæri og mæla þó í litlu sé fyrir frv. sem ég er 1. flm. að á þskj. 383, jafnvel þó svo kunni að fara að umræðunni verði svo frestað, eins og mér býður í grun, fylgjast þessi mál þrátt fyrir allt að og deila örlögum í þeim efnum.
    Ég mun reyna að gera í örstuttu máli grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frv., sem við erum flm. að fjórir þingmenn Alþb., og vildi láta þess getið í upphafi að okkar frv. var lagt fram allnokkru fyrr en frv. hæstv. viðskrh. og með því sýnum við að mínu mati og okkar flm. ákveðið frumkvæði í þessu máli sem mikið hefur verið um rætt á undanförnum árum en enn þá miklu minna að gert þar sem er að taka

með einhverjum hætti á löngu úreltri löggjöf okkar landsmanna um viðskiptahætti og samkeppnismál.
    Það er óhjákvæmilegt, herra forseti, að ég leiðist út í að bera lítilllega saman þessi frumvörp um leið og ég mæli fyrir málinu. Svo náskylt er efni þeirra og fjalla reyndar bæði um sama mál, þ.e. að koma inn í íslenska löggjöf nútímalegum samkeppnisreglum. Og þá byrja ég eðlilega á 1. gr. frv. og þar skilur strax í nokkru að þessi tvö frumvörp því að það er lagt til í því frv. sem ég mæli fyrir að það bætist við lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti nýr stafliður í markmiðsgrein laganna þar sem tilgangur þeirra er skilgreindur, markmið og gildissvið og má af því nokkuð ráða hvaða hugsun liggur að baki lagasetningunni, hvaða markmiðum lögunum er ætlað að þjóna. En 1. gr. hljóðar svo:
    ,,Við 1. gr. laganna skal bætast nýr stafliður [stafliður c] er orðast svo:
    ,,Vinna gegn því að einstaklingar eða fyrirtæki, samtök eða samsteypur fyrirtækja komist í, viðhaldi eða hagnýti sér hvers konar yfirburða- eða einokunaraðstöðu á markaði sem hér eftir nefnist einu nafni markaðsráðandi aðstaða í lögum þessum. Með markaði er átt við markað fyrir vörur og þjónustu á landinu öllu eða í einstökum landshlutum eftir nánari skilgreiningu í reglugerð.``
    Svo ég fari aftur í samanburðinn, þá er sambærileg 1. gr. í frv. hæstv. viðskrh. að mínu mat heldur rýr að vöxtum. Þar segir ósköp einfaldlega, með leyfi forseta, og ég leyfi mér að fara yfir í 486. þingmál á þskj. 749:
    ,,Lög þessi hafa það markmið að vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins og efla virka samkeppni í viðskiptum með því að:
    a) vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,
    b) vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum.``
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég hafði bundið vonir við það að þegar loksins liti dagsins ljós hér á Alþingi nýtt frv. til laga um viðskiptahætti og samkeppnismál yrði markmiðssetning þeirra laga öllu myndarlegri en þetta. Og ég skil satt best að segja ekki í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið í þjóðfélaginu og mér skilst einnig í Alþfl. um að þessari löggjöf yrði sérstaklega stefnt gegn hringamyndun og óeðlilegri samþjöppun valds í íslensku viðskiptalífi, að markmiðsgrein og gildissviðsgrein þeirra laga skuli ekki vera ítarlegri en hér ber raun vitni. Hér er ekki einu orði minnst á hringamyndun eða samsteypur eða samruna fyrirtækja og ekki með nokkrum hætti skilgreint hvernig lögin skuli tengjast því viðfangsefni sínu að hindra þessa samþjöppun valds eða viðskiptaáhrifa í landinu. Að sjálfsögðu er komið inn á þau mál aftar í lögunum og vikið að því með tilteknum, almennum hætti hvernig að þeim hlutum skuli staðið og unnið af hinni nýju samkeppnisstofnun sem svo skal kallast, en ég tel það strax í byrjun stóran galla á frv. hæstv. viðskrh. að í markmiðsgrein laganna er ekki komið inn á þessa þætti. Ég tel að þarna sé nauðsynlegt að kveða mjög skýrt að orði um hlutverk samkeppnisstofnunar eða, eins og ég hef kosið að kalla það eða við flm. þessa frv., Verðlags- og samkeppnisstofnunar með vísan til þess að stofnunin á þrátt fyrir allt enn sem fyrr að gegna tilteknu hlutverki á sviði verðlags, að eðlilegt sé að skilgreina strax markmið hennar. Það skýrist af samhengi hlutanna að það frv. sem ég mæli fyrir er að því leyti frábrugðið samkeppnislagafrv. hæstv. viðskrh. að hér er sett upp breyting á gildandi lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, en í tilviki hæstv. viðskrh. er um nýjan lagabálk að ræða sem fellir úr gildi eldri ákvæði gildandi laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti.
    Í 2. gr. frv. er vikið að nafnbreytingunni sem lögð er til af okkar hálfu, að í stað verðlagsráðs og Verðlagsstofnunar sem svo heitir að gildandi lögum komi verðlags- og samkeppnisráð og Verðlags- og samkeppnisstofnun. Sú leið hefur verið valin í frv. hæstv. viðskrh. að kalla þetta Samkeppnisstofnun og löggjöfina samkeppnislög og má segja að þar sé bita munur en ekki fjár á. Bæði frumvörpin ganga út á hið sama, að lyfta upp eða hefja upp samkeppnisþátt lagasetningarinnar og draga athyglina að honum. En í okkar tilviki er eftir sem áður gert ráð fyrir því að verðlagsþættinum sé til haga haldið.
    Ég vil þá koma að 4. gr. frv. sem er megingrein frv. og gerir ráð fyrir því að við 14. gr. laganna komi ný grein í stað þeirrar sem fyrir er. Þar er um meginkafla samkeppnisþáttar gildandi laga að ræða og frv. gengur út frá því að þar komi ný og stórlega aukin grein til sögunnar sem taki á meginefni samkeppnisreglna frv. Greinin gerir ráð fyrir að stórlega sé aukið við hlutverk Verðlags- og samkeppnisstofnunar sem svo mundi kallast, bæði hvað snertir eftirlit með fyrirtækjum, sérstaklega þeim sem ráðandi eru á markaði eða kunna að verða ráðandi fyrir tilstilli ákveðinna aðgerða eða ákvarðana sem teknar yrðu í viðskiptum á þessu sviði. Gert er ráð fyrir því að Verðlags- og samkeppnisráð skuli sjálft skilgreina hvenær aðstaða eins aðila eða fleiri sem hafa með sér samtök eða eru tengd teljist markaðsráðandi. Hér er um mjög mikilvægt atriði að ræða því að það er alveg ljóst að skilgreining á því hvenær aðstaða fyrirtækis sé markaðsráðandi skiptir mjög miklu um framgang allrar starfsemi stofnunarinnar. Þar verð ég enn að gera athugasemdir við þá leið sem valin er í frv. hæstv. viðskrh., að mér þykja efnistökin þar ákaflega loppin, svo ekki sé meira sagt, en í raun og veru er ekkert viðurkennt af því tagi í frv. hæstv. viðskrh. sem fallið geti undir samstæður eða tengsl fyrirtækja fyrr en um svo stóran eignarhlut er að ræða eða áhrif að það jafngildi meirhlutaeign í öðru fyrirtæki. Þar verð ég aftur að segja að ég skil ekki alveg hvers vegna valin er sú leið að taka ekki tillit til þess eða viðurkenna að í reynd geta áhrif fyrirtækja leynst eða falist í mörgu fleiru í þessu sambandi en í meirihlutaeign í viðkomandi fyrirtækjum.
    Það er til að mynda þannig í breskri löggjöf á þessu sviði að það er gjarnan talið jafngilda meirihlutaeign eða algerri eign fyrirtækja að ítök annars fyrirtækis í gegnum annaðhvort eignaraðild eða stjórn

fyrirtækja séu nægjanleg til að koma í veg fyrir breytingar á samþykktum viðkomandi fyrirtækja og mjög gjarnan eru viðmiðunarmörk dregin þar sem eignarhlutur eða stjórnaraðild er nægjanleg til að hindra breytingar á samþykktum. Þess vegna er í okkar frv. valin sú leið að setja inn í 14. gr. laganna sem ákveðin viðmiðunarmörk 33% eignarhlut eða ráðandi aðstöðu í stjórn fyrirtækjanna með einhverjum öðrum hætti. Og það er sett inn sem viðmiðunarmörk fyrir ráðandi aðild í öðrum fyrirtækjum með sérstakri hliðsjón af því að reynslan sýnir að slík eignarhlutdeild eða ítök eru oft og tíðum fullnægjandi til þess að ráða framgangi mála. Sömuleiðis er skýrt tekið fram að Verðlags- og samkeppnisstofnun, þó hún skuli sjálf að öðru leyti skilgreina leikreglur í þessu sambandi, skuli jafnan viðhafa sérstakt eftirlit með fyrirtækjum ef markaðshlutdeild þeirra, eins eða fleiri sem eru í tengslum, sé 33% af framleiðslu eða sölu fyrirtækjanna af vöru eða þjónustu á einhverju sviði viðskipta, þar með talið samgangna.
    Í breskum lögum er þetta hlutfall lægra eða 25%, en þá ber að taka tillit til þess að aðstæður á íslenskum markaði eru um margt sérstakar og það var valin sú leið að hafa þetta hlutfall hér nokkru hærra með tilliti til þessu hversu sérhæfður og lítill íslenskur viðskiptamarkaður er.
    Það hafa farið fram um það allmiklar umræður að einn megintilgangur lagasetningar af þessu tagi væri sá að taka á máli sem mikið hefur verið til umræðu í íslenskum þjóðmálum á undanförnum árum og áratugum en ákaflega lítið hefur verið að gert og það er samþjöppun valds, eignarhalds og áhrifa í íslensku viðskiptalífi. Í raun og veru er það svo að ræðumaður hefði þurft að hafa með sér í stólinn bókina um kolkrabbann sem kom út í síðustu jólavertíð til að vera almennilega umræðuhæfur um þessi mál. En þess vegna vekur það nú þeim mun meiri undrun að í frv. hæstv. viðskrh. sér þess hvergi stað að sú umræða hafi haft nein umtalsverð áhrif á framsetningu málsins. Þar er til að mynda ekki að finna nein sérstök ákvæði sem tækju á núverandi stöðu þeirrar fyrirtækjasamsteypu og þess áhrifabandalags sem einu nafni gengur undir kolkrabbaheitinu í almennri umræðu. Það vekur sérstaka athygli ræðumanns af tilteknum ástæðum að það er til að mynda ekki að finna nein ákvæði sem sérstaklega taka á samgöngusviðinu í frv. hæstv. viðskrh. Þar er reyndar ekki heldur að finna nein sértæk ákvæði sem t.d. taka á bankastarfsemi, blaðaútgáfu eða öðru slíku sem venjan er í löggjöf erlendis á svipuðum toga að séu sérstaklega dregin fram. Það er almennt viðurkennt í löggjöf af þessu tagi í nágrannalöndunum að það sé ekki endilega svo að heppilegt sé eða æskilegt eða viðráðanlegt að láta ein og sömu samkeppnislögin, hringamyndunarlögin eða viðskiptareglurnar gilda um öll svið viðskipta vegna þess að þau eru mismunandi í eðli sínu og valda samþjöppun eða að fákeppnisáhrif geti verið mismunandi skaðleg eða mismunandi líkleg eftir því hvaða svið viðskipta er á ferðinni. Þannig hygg ég t.d. að flestir viðurkenni að smásöluverslun sé þannig í eðli sínu að það séu ekki miklar ástæður til þess yfirleitt að hafa stórar áhyggjur af því að samþjöppun valds þar eða fákeppni milli fárra fyrirtækja verði mönnum að verulegu grandi í því efni, verulegu fjörtjóni. Öðru máli gegnir t.d. um samgöngusviðið eða bankastarfsemi, tryggingastarfsemi eða blaðaútgáfu. Þess vegna er það svo að bæði í reglum t.d. Evrópubandalagsins, í breskri löggjöf, í bandarískri löggjöf eru sérstök ákvæði sem taka á þessum sviðum og auðvitað biðu menn spenntir eftir frv. hæstv. ríkisstjórnar um samkeppnislög til að sjá hvort þar yrði með einhverjum myndarlegum eða marktækum hætti tekið á þeirri stöðu sem uppi er í flutningaþjónustu og samgöngum í landinu og almennt er kennd við völd kolkrabbans. Niðurstaðan liggur fyrir og er skýr, svo er ekki. Það ber vel í veiði að hér skuli vera hæstv. forsrh. sem meðal annarra afreka í lífinu er fyrrum fundarstjóri á aðalfundum Eimskipafélags Íslands, óskabarns þjóðarinnar, og er því nærtækt að beina orðum til hans líka með tilliti til þess að hæstv. viðskrh. er sofandi að sögn. ( Gripið fram í: Viðskrh. er á Akureyri.) Ja, það er aldrei að vita nema hann sé sofandi samt. --- En í frv. því sem ég mæli fyrir, herra forseti, er þessu öðruvísi farið því að eftir nokkra umhugsun var valin sú leið að setja þar inn alveg sérstakt ákvæði sem tæki á stöðunni í samgöngumálum og það er gert í 7. gr. frv., en lagt er til að aftan við 22. gr. laganna komi ný grein og hljóði svo:
    ,,Fyrirtæki, sem telst markaðsráðandi á einu sviði samgangna, er óheimilt að verða ráðandi aðili eða eiga stærri eignarhlut en 25% í öðrum fyrirtækjum sem starfa að samgöngum.``
    Þarf auðvitað ekki að fara mörgum orðum um það hver áhrif breytingar af þessu tagi yrðu. Þau mundu með beinum hætti og þegar í stað taka á þeirri stöðu t.d. sem uppi er í íslensku samgönguumhverfi í gegnum eignaraðild Eimskipafélags Íslands að Flugleiðum hf. Fyrir því eru mörg rök og fyrir því eru ærnar ástæður að svo sé. Og ég vil leyfa mér að fara hér fáeinum orðum um það, herra forseti, hvers vegna ég tel að svo sé. Það vekur reyndar athygli mína að nefndur fundarstjóri á aðalfundum Eimskipafélags Íslands, hæstv. forsrh., strunsaði úr salnum þegar ég fór að ræða þessi mál eða hreyfa við þeim, --- nei, kemur aftur í hliðardyrum og það gleður mig að sjálfsögðu að hæstv. forsrh. lætur svo lítið að vera við þessa umræðu.
    Ég held að við þurfum að huga að því, ekki bara hvað snertir þróunina á samgöngusviðinu sem slíku, hvort svona samþjöppun valds og áhrif mismunandi flutningasviða eða samgöngusviða hvert á annað séu heppileg heldur líka hvað snertir almenna stöðu í viðskiptaumhverfinu hér, fákeppni og samþjöppun valds. Mér eru þó sérstaklega umhuguð áhrifin sem svona staða getur haft og að mínu mati hefur á þróun og uppbyggingu samgöngukerfisins í landinu í heild sinni. Ég er þeirrar skoðunar að það geti verið afar varhugavert að fyrirtæki eins og Eimskipafélag Íslands hf., með allri virðingu fyrir því og mikilvægi þess sterka félags sem sinnir hér flutningum á sjó til og frá landinu og að nokkru leyti umhverfis landið, skuli hafa jafnsterk tök í rekstri annars markaðsráðandi fyrirtækis á öðru sviði samgangna. Af því hef ég satt best

að segja miklar áhyggjur. Ég held að það sé mjög varhugaverð staða fyrir hvaða þjóð sem er og ekki síst okkur Íslendinga sem erum af landfræðilegum ástæðum ákaflega háðir samgöngum og eigum mikið undir farsælli uppbyggingu og þróun þeirra mála.
    Ég held að ég þurfi í sjálfu sér ekki að taka dæmi um það sem getur gerst við svona aðstæður, en kannski er það skynsamlegt til nánari útskýringar. Eimskipafélagið er auðvitað markaðsráðandi aðili á sviði flutninga. Flutningar á sjó eru afdrifaríkir fyrir Íslendinga og fyrirtæki með jafntröllsterka stöðu í þeim efnum og Eimskipafélagið hefur er nánast sem risi meðal dverga á flutningasviðinu hjá okkur. Það hefur yfir að ráða yfirgnæfandi viðskiptahluta allra fraktflutninga til og frá landinu og sá litli angi sem út undan stendur er annars vegar aðrir sjóflutningar annarra skipafélaga, sem eru það litlir að samkvæmt öllum skilgreiningum í lögum og vinnureglum nálægra þjóða duga þeir hvergi nærri til að hafa nein umtalsverð áhrif á stöðu þess aðila, en hitt er öllu alvarlegra að aðrir flutningamöguleikar á frakt, sem eru þó í lofti, eru undir mjög sterkum áhrifum þessa sama aðila, þessa sama markaðsráðandi aðila, Eimskipafélagsins. Menn hafa spurt að því á undanförnum árum: Getur hugsast að eignarhlutur, ítök og að nokkru leyti yfirráð Eimskipafélags Íslands á Flugleiðum hf. hafi áhrif á afstöðu þess fyrirtækis, viðhorf og frammistöðu hvað fraktflutninga í lofti snertir? Þessi spurning hefur oft komið upp og það vill svo til að hún lenti nokkrum sinnum inni á borði ræðumanns í hans fyrra starfi á nokkru árabili sem samgrh. og ég hlýt að gera þá grein fyrir sjónarmiðum mínum hér að hún leitaði oft á mig, þessi spurning.
    Ég tel mjög óheppilegt að viðskiptahagsmunir fyrirtækis sem er markaðsráðandi á einu sviði og hefur yfirburðastöðu þar, drottnunarstöðu þar eins og Eimskipafélagið hefur í sjóflutningum geti blandast inn í uppbyggingu og rekstur á öðru og óskyldu sviði flutninga eins og á við um fraktflutninga í lofti í þessu tilviki. Ég tel að það sé hættulegt. Ég tel að það geti hindrað eðlilega samkeppni og innbyrðis óháða þróun mismunandi valkosta í flutningum. Þess vegna tel ég að bráðnauðsynlegt sé að setja því skorður hversu sterk tök eitt fyrirtæki á einu sviði af þessu tagi geti haft á annað. Hér eru að vísu lögð til tiltölulega ströng ákvæði og það er alveg ljóst að þetta setur því hverju því fyrirtæki sem nær markaðsráðandi stöðu á einu sviði samgangna þær skorður að það geti hvorki verið ráðandi aðili né átt stærri eignarhlut en 25% í öðrum fyrirtækjum sem starfa á sama sviði. Mín niðurstaða er sú, herra forseti, að það veiti ekki af svona ströngum ákvæðum.
    Í gildistökugrein frv. er af sérstökum ástæðum gert ráð fyrir því að um þetta ákvæði gilti annað en um frv. í heild sinni. Ef miðað væri við að lögin öðluðust þegar gildi tækju þessi ákvæði, sem lúta að samgöngusviðinu, ekki gildi fyrr en 1. jan. 1994. Þetta mundi í öllum sínum einfaldleika þýða það að fyrirtæki sem yrðu fyrir áhrifum af þessari grein hefðu þennan aðlögunartíma til að breyta þannig eignarhlutföllum sínum í öðrum fyrirtækjum að þau uppfylltu ákvæði laganna. Þetta er sú aðferð sem gjarnan er valin þegar svona staða kemur upp, að það er settur með annaðhvort bráðabirgðaákvæðum eða sérstökum gildistökuákvæðum ákveðinn aðlögunartími sem fyrirtækin hafa. Með þessum hætti yrði í því frv. sem ég er að mæla fyrir tekið beint og markvisst á þessari stöðu kolkrabbans í íslensku viðskiptalífi og í íslenskum samgöngum. Það er ekki gert í frv. hæstv. viðskrh.
    Ég held að ég láti það duga tímans vegna og aðstæðna og af ýmsum ástæðum að segja þetta um þetta ákvæði sérstaklega, en ég er reiðubúinn og fús til þess að ræða það frekar hvenær sem óskað er eftir.
    Einu atriði enn, herra forseti, hafði ég hugsað mér að hreyfa hér, en þá háir mér nokkur skortur á krötum sem að vísu er sjaldgæfur sjúkdómur í mínu tilviki því að ég lýsi yfirleitt ekki eftir þeim meira en þörf krefur. En ég hefði gjarnan viljað að það væri a.m.k. einn áheyrandi úr Alþfl. viðstaddur þegar ég ræði það lítillega sem vantar algerlega í frv. hæstv. viðskrh. en mun hafa orðið nokkurt umræðuefni í Alþfl., að nauðsynlegt væri að setja ný samkeppnislög áður en hæstv. viðskrh. gæti flutt frv. sitt um einkavæðingu bankastarfseminnar í landinu. Það er spurning, herra forseti, hvort t.d. þingflokksformaður Alþfl. er í húsi og gæti látið svo lítið að koma í þingsalinn og hann gæti haft neftóbakspontuna með sér og haft það huggulegt í salnum rétt á meðan hann hlýðir á þetta. Ég tala nú ekki um ef hæstv. félmrh. væri einhvers staðar nærstaddur. En okkur hefur borist það, þingmönnum, í gegnum fjölmiðla og fréttir að hæstv. félmrh. hafi spornað gegn því að hæstv. viðskrh. flytti sitt frv. um einkavæðingu bankanna, m.a. með vísan til þess að fyrst yrði að setja löggjöf um samkeppnismál. Það var og. Og af þeim sökum m.a. las ég vandlega ákvæði frv. hæstv. viðskrh. og beið eftir því að finna þau sértæku ákvæði sem fjölluðu um samkeppni, eignarhald og valddreifingu í bankamálum og varð þeim mun meira undrandi þegar ég áttaði mig á því að frv. hæstv. viðskrh. tekur ekki í neinu, ekki í einu einasta atriði á þessu máli sérstaklega. Þar er ekki að finna nein sértæk ákvæði, hv. 17. þm. Reykv., sem taka á bankastarfsemi, eignarhaldi, valddreifingu eða samkeppnisreglum á sviði bankastarfsemi af neinu tagi. Þess vegna er mér spurn: Hvaða rök voru þá fyrir því að bíða eftir frv. hæstv. viðskrh. eða lagasetningu af þessu tagi með að leyfa hæstv. viðskrh. að leggja fram nýjasta óskabarn sitt á sviði einkavæðingar, bankafrv.?
    Ég veit að hv. 17. þm. Reykv. er ágætlega að sér um bresk málefni og mun hafa stúderað í því landi fyrr á öldinni og er þess vegna sæmilega kunnugur löggjöf þarlendra um það mál. Í bresku samkeppnislögunum, reyndar í báðum þeim meginlagabálkum sem fjalla um samkeppnis- og viðskiptamál í Bretlandi, The Companies Act og Fair Trading Act, er að finna sértæk ákvæði sem taka ti bankastarfseminnar, reyndar ýmis fleiri sértæk ákvæði sem taka til blaðaútgáfu og samgangna og slíkra hluta. En ég er sérstaklega að ræða um bankaþáttinn. ( Gripið fram í: Það má lagfæra eitthvað hjá Íhaldsflokknum.) Það er út af fyrir sig rétt, sem hér er getið í frammíkalli, að það má hugsa sér að bæta svona löggjöf og m.a. þess vegna er ég nú að ræða þetta að kannski rennur ljósið upp fyrir mönnum. En ég verð að hryggja hv. 17. þm. Reykv. með því, sem ég veit að er mikill stuðningsmaður viðskrh. og vill honum vel, að þarna hefur honum skjöplast mjög. Þarna er bókstaflega um grútmáttlausa löggjöf að ræða, jafnmáttlausa og hún getur verið. Og það er sorglegt og dapurlegt. ( ÖS: Þetta kemur mér á óvart.) Já, ég trúi því að þetta komi hv. 17. þm. Reykv. á óvart, en þó er það þannig að það verður að segjast að reynsla fleiri en Breta er blendin af einkavæðingu. Og af því að það er talsvert orðið til umræðu nú í breskum stjórnmálum hvernig einkavæðingin hafi lukkast svona holt og bolt hjá frú Thatcher og Co. er það svo að Bretar, sem hefur oft lánast að læra af reynslunni í bland við sína íhaldssemi, hafa m.a. áttað sig á því að einkavæðing er engin allsherjarpatentlausn sem á við alls staðar og um allt án umhugsunar. Þeir hafa áttað sig t.d. á því að einkavæðing fákeppnisstarfsemi, einokunarstarfsemi, einkavæðing í félagslegri þjónustu er svona og svona. Jafnvel heiðvirðir breskir íhaldsmenn, sanntrúaðir, sem aldrei hafa annað kosið, eru menn til að viðurkenna að þeir hafi jafnvel farið offari í þessum efnum og lent í ógöngum.
    Þeim mun meiri ástæða er til þess fyrir okkur Íslendinga, sem erum svo lánssamir að hafa fyrir okkur reynslu annarra þjóða í þessum efnum, að vera ekki að ana í ógöngur eins og t.d. í einkavæðingu í bankakerfinu. Hvaða vit er í því á hinum þrönga íslenska markaði að fara með einhverjum glannaskap í þeim efnum? Hefði maður þá ekki átt von á því að viðskrh. væri með í sínu frv. sérstök öryggisákvæði sem varða bankastarfsemina til að tryggja samkeppni ef út í einkavæðinguna væri farið á því sviði til að hindra valdasamþjöppun og fákeppni á þeim markaði? Svarið er því miður nei. Ekki er stafkrók um það að finna í frv. Það er e.t.v. ástæða þess að mér er tjáð í nýjustu fréttum að þetta bankaeinkavæðingarfrv. muni alls ekki líta dagisns ljós á þessu þingi. Það hafi verið kistulagt við virðulega athöfn í þingflokki Alþfl. í gær. Ekki veit ég hver kastaði rekunum eða fór með útfararorðin, hvort sálmurinn um blómið hafi verið sunginn, en alla vega voru mér bornar þessar fréttir. (Gripið fram í.) Já, að vísu ber vel í veiði að það er guðlærður maður í þingflokki Alþfl. og hefur þess vegna örugglega verið fylgt öllum settum reglum kristilegrar útfarar þegar bankafrv. hæstv. viðskrh. var jarðsungið í gær.
    En þannig er það nú að því miður verð ég að hryggja hv. þingheim með því að þessu frv. hæstv. viðskrh. er ákaflega áfátt í ýmsum greinum og þar á meðal að þessu leyti. Ég er þeirrar skoðunar að í nýjum íslenskum samkeppnislögum, sem ég vil gjarnan standa að og stuðla að að sett verði t.d. á næsta þingi, eigi að vera sértæk ákvæði um bankastarfsemi. Í öðru lagi vildi ég gjarnan sjá í því sértæk ákvæði um blaðaútgáfu og fjölmiðlaheiminn, um samgöngusviðið og jafnvel um tiltekna þætti verslunar í landinu því það er þannig því miður að á Íslandi er verslun bundin svo sérstaklega okkar fámenni og strjálbýli að ástæða geti verið til þess að setja alveg sérstök ákvæði um hluta hennar í samkeppnislöggjöf. Og ég veit að ég á stuðning hv. 17. þm. Reykv. vísan í því efni.
    Herra forseti. Auðvitað hafði ég hugsað mér að hafa um þetta talsvert ítarlegra mál þegar ég mælti fyrir þessu frv. til laga um réttarfarsbætur í samkeppnismálum sem ég lagði óneitanlega þó nokkra vinnu í að semja fyrr á þinginu og er að finna í þessu myndarlega þskj., 625, en með tilliti til þess að ég bind ekki lengur, satt best að segja, þó að ég sé óforbetranlegur bjartsýnismaður, miklar vonir við að þetta verði að lögum, þá gefst kannski betri tími til að mæla rækilegar fyrir þessu síðar og vinna úr málinu. Ég vona að sumarið verði notað til að taka þessi frumvörp bæði, sem ég hef hér nokkuð gert að umtalsefni, frv. okkar þingmanna Alþb., til úrbóta á þessu sviði, og sömuleiðis frv. hæstv. viðskrh., og vinna þau saman þannig að úr þeim líti dagsins ljós eitt fullþroska og myndarlegt frv. um ný verðlags- og samkeppnislög sem sett verði á vetri komanda sem lög á Alþingi Íslendinga. Það er löngu tímabært og mjög verðugt verkefni að leggja í það vinnu. Ég er sem sagt tilbúinn til að leggja mitt af mörkum í þeim efnum og ég tel reyndar að við höfum nú þegar gert það, þingmenn Alþb., með því að ríða á vaðið með þessum frumvarpsflutningi og taka um það forustu hér á hinu háa Alþingi að við þessum málum væri hreyft. Til þess að ásættanleg niðurstaða, eins og nú er ákaflega í tísku að segja, fáist í þessum málum þarf að taka mun fastar á ýmsum hlutum en gert er í frv. hæstv. viðskrh. Það er því miður grútloppið. Heyrir hv. 17. þm. Reykv.? Það er því miður grútloppið í ákveðnum greinum, þetta frv. hæstv. viðskrh., og það er engu líkara en maðurinn hafi verið með belgvettlinga við að semja þetta, svo loppið er það. Og hv. 17. þm. Reykv. tekur undir þetta í frammíkalli, segir það vera allt rétt sem hér er sagt og fagna ég því.
    Það sem sérstaklega vantar eru þau atriði sem ég hef nefnt á sviði bankastarfsemi, samgangna, fjölmiðlunar og verslunar, en það vantar líka, og ég ætla að gera það að mínum síðustu orðum hér, með öllu að taka á samþjöppun valds í gegnum samsteypur fyrirtækja, tengsl fyrirtækja og hringamyndun í landinu og er með ólíkindum að það skuli vera lagt fram frv. með þessum stóra ágalla. Ég hlýt að spyrja að því, svarið kemur þá síðar: Var þetta frv. hæstv. viðskrh. ritskoðað? Var það sent niður á ónefnda kontóra í nágrenninu og ritskoðað áður en það var lagt fram? Það er engu líkara. Það er engu líkara en ákveðin öfl í landinu hafi fengið að ritskoða frv. hæstv. viðskrh. og tína út úr því óþægilegu atriðin þannig að öruggt væri að það mundi ekki hrófla við stöðu þeirra sem helst þyrfti í þjóðfélaginu. (Gripið fram í.) Svo gerilsneytt er það í raun og veru, hv. frammíkallandi, gagnvart þessari stöðu. Það er barnalegt að menn skuli t.d. ekki taka á samsteypum fyrirtækja, hversu víðfeðmar sem þær eru í landinu, fyrr en um meirihlutareignaraðild er að ræða í hverju tilviki. T.d. yrði þetta samkvæmt orðanna hljóðan í frv. þannig að það væri

ekki fyrr en Eimskipafélag Íslands, United Steamship Company, eignaðist 51. prósentið í Flugleiðum sem frv. hefði áhrif. Þó að Eimskip yki núna á næstu árum eignarhlut sinn í Flugleiðum upp í 49%, þá mundi ekkert breytast. Þó svo að forstjóri Eimskip sé stjórnarformaður Flugleiða, fyrirtækið eigi þrjá af níu stjórnarmönnum, fyrirtækið eigi nógu stóran eignarhlut til að hindra breytingar á stofnsamþykktum Flugleiða breytist ekki neitt samkvæmt frv. hæstv. viðskrh. af því að skilgreiningar í frv. eru svo máttlausar að þær fella þennan hring ekki undir fyrirtækjasamsteypu eins og sagt er í 4. gr. frv.
    Ég hygg, herra forseti, að ég þurfi ekki að hafa um það fleiri orð eða rökstyðja það frekar að frv. okkar þingmanna Alþb. tekur frv. hæstv. viðskrh. mikið fram í þessum efnum eins og fleirum og er að mínu mati algerlega nauðsynlegt að þau ákvæði í okkar frv. sem eru betur útfærð, ganga lengra og taka fastar á þessum hlutum verði höfð að leiðarljósi þegar frv. hæstv. viðskrh. verður endurunnið í sumar. Vonandi lítur dagsins ljós á næsta hausti nýtt og myndarlegra frv. um þessi mál hvort sem það verður hæstv. núv. viðskrh. sem flytur það, en flugufregnir hafa flogið fyrir um að það sé ekki endilega víst að hann gisti það embætti að haustnóttum.
    ( Forseti: Á ekki að vísa frv. til nefndar?) Jú, herra forseti, það er rétt. Nú láðist mér að geta þess að að sjálfsögðu gengur þetta frv. til þeirrar nefndar, efh.- og viðskn., sem fer með þessi mál og að lokinni þessari umræðu, hvenær það verður eða hvort tekst að ljúka henni á þessu þingi, þá legg ég til, eins og sagt er að lokinni umræðu, að frv. yrði vísað til efh.- og viðskn.