Hlutafélög

145. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 00:45:00 (6622)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Hér áðan var mælt fyrir frv. um samkeppnishömlur, óréttmæta viðskiptahætti o.fl. og nú leyfi ég mér að mæla fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um hlutafélög. Þessi tvö frumvörp eru afrakstur vinnu nokkurra þingmanna Alþb. um breytingar í viðskiptalífinu sem nauðsynlegar eru til nýsköpunar í íslensku atvinnulífi sem óneitanlega á við ákveðna erfiðleika að etja um þessar mundir. Má segja að með þessum tveimur frumvörpum hafi Alþb. tekið forustu í þessum málaflokki meðal íslenskra stjórnmálaflokka. Bryddað er upp á ýmsum nýjungum í þessum tveimur frumvörpum sem rakið hefur verið hvað varðar fyrra frv. og ég vil leyfa mér að fara í gegnum þetta frv. og gera grein fyrir helstu breytingum og markmiðum frv.
    Í greinargerð er gerð nokkuð rækilega grein fyrir markmiði og tilgangi þessa frv. og vil ég, með leyfi forseta, vitna til hennar og rekja þann veg meginatriði frv., en það er svohljóðandi, með leyfi forseta, að lagðar eru til breytingar á lögum um hlutafélög sem miða að því að auka trú almennings á hlutafélögum sem fjárfestingarkosti og stuðla þannig að auknum áhrifum og aðhaldi almennings á rekstur fyrirtækja. Þá er það ekki síður nauðsynlegt að fyrirtæki geti styrkt eiginfjárstöðu sína með auknu hlutafé, en eins og kunnugt er hefur skortur á eigin fé verið eitt alvarlegasta vandamál hlutafélaga, t.d. í sjávarútvegi. Fyrirtækin hafa í of ríkum mæli fjármagnað rekstur eða fjárfestingu með lánsfé sem hefur leitt til mikils vaxtakostnaðar. Eiginfjáraukning minnkar þann kostnað, dregur úr lánsfjáreftirspurn og stuðlar þar með að almennri vaxtalækkun í þjóðfélaginu, auk þess sem vaxandi aðhald almennings og áhrif stuðla að skynsamlegri stjórnun fyrirtækja.
    Alþingi hefur með samþykkt viljayfirlýsingar í formi þáltill. um yfirtökutilboð tekið skref til að styrkja stöðu almenningshlutafélaga með því að viðskrh. er falið að semja lagafrv. sem tryggja á rétt minni hluta í hlutafélagi. Þykir flm. rétt að stíga frekari skref með því að leggja til að gerðar verði frekari kröfur en nú eru um hömlulaus viðskipti með hlutabréf, að stjórn hlutafélags verði öll kosin af sama hluthafafundi og víxlkosning þar með afnumin, að það væri víðtækari skylda en nú er að hlutafélag hafi löggiltan endurskoðanda, að stjórn hlutafélags verði gert skylt að senda hluthöfum ársreikninga og ársskýrslu stjórnar innan sex mánaða frá lokum reikningsárs og að almenningi verði heimill aðgangur frá hlutafélagaskrám að ársreikningum þeirra hlutafélaga sem leggja engar hömlur á heimild hluthafa til meðferðar á hlutabréfum.
    Ég hygg, virðulegi forseti, að þessi greinargerð lýsi í stuttu máli markmiðum þessa frv. þannig að ekki þarf miklu við það að bæta. Ég vil þó aðeins ítreka það atriði, sem fram kemur í greinargerðinni, að það er afar nauðsynlegt um þessar mundir að almenningur líti á fjárfestingu í fyrirtækjum sem valkost til að leggja sitt fé í og veiti þannig bönkum í landinu aðhald og samkeppni. Sú samkeppni við bankana, auk þess að eigið fé fyrirtækja er aukið, mun eðlilega leiða til almennrar vaxtalækkunar í þjóðfélaginu.
    Ef ég fer stuttlega yfir einstakar greinar frv., þá er í fyrsta lagi þrengdur sá kostur sem er í núgildandi lögum um að mega leggja hömlur á viðskipti með hlutabréf. Lagt er til að ef hluthafar eru 25 eða fleiri í hlutafélagi verði það skylt að hömlulaus viðskipti eigi sér stað með bréfin. Þetta ætti að stuðla að

því að menn geti litið á hlutabréfin sem eign sem þeir geti ráðstafað, selt og keypt á hlutabréfamarkaði ef mönnum þykir svo. Það atriði veitir líka stjórnendum fyrirtækja verulegt aðhald því að aðhald stjórnenda fyrirtækja er ekki aðeins með beinum hætti í gegnum stjórnarmenn heldur líka og kannski ekki síður með óbeinum hætti í gegnum framboð, eftirspurn og gengi á hlutabréfum. Ég hygg að það aðhald sé mun virkara og skilvirkara tæki en fyrrgreinda formið.
    Hertar eru kröfur um að hafa löggiltan endurskoðanda. Það er til þess að hluthafar geti örugglega treyst ársreikningum og þeim skjölum sem þar eru lögð fram. Enn fremur er lagt til, og er það nýmæli, að stjórn hlutafélags er skylt að senda ekki bara ársreikning heldur líka ársskýrslu stjórnar. Þetta ákvæði er ekki í núgildandi lögum og er hér um algert nýmæli að ræða. Þessi skylda skal uppfyllt innan sex mánaða frá lokum reikningsárs sem þýðir að hluthafar hafa allar meginupplýsingar um fyrirtækið og stöðu þess fyrir mitt ár hvert sinn. Þetta er nauðsynlegt til að auka trú almennings á hlutafélögum, að almenningurinn eigi greiðan aðgang að upplýsingum, og þetta er líka nauðsynlegt til að tryggja virkni ákvæðisins í 1. gr. um hömlulaus viðskipti með hlutabréf.
    Þá er einnig lagt til, virðulegur forseti, að skylt verði að veita almenningi aðgang að ársreikningum hlutafélaga hjá hlutafélagaskrám, þ.e. þeim hlutafélögum sem ekki leggja hömlur á meðferð hlutabréfa. En í dag er þetta lagaákvæði einungis heimildarákvæði. Í grg. um 5. gr. frv. er rakið hvernig þessu háttar erlendis, í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Bretlandi, og er þar stuðst við upplýsingar sem fram komu í greinargerð með frv. á þskj. 121 sem lagt var fram í neðri deild á 111. löggjafarþingi 1988.
    Þá er lagt til, virðulegi forseti, að þetta frv. taki gildi um nk. áramót þannig að hlutafélögum gefist ráðrúm til að breyta sínum samþykktum til samræmis við ákvæði í frv.
    Ég vil svo að lokum láta koma fram, virðulegi forseti, sem mér þótti afar ánægjulegt, að eftir að frv. hafði verið útbýtt hér á hinu háa Alþingi kom að máli við mig hv. 4. þm. Reykv., Eyjólfur Konráð Jónsson, og þakkaði fyrir frv. og færði mér að gjöf bók sem ég hafði heyrt getið um en ekki séð fyrr og er löngu uppseld, bók sem hann nefnir Alþýða og athafnalíf. Ég hef lesið þessa bók spjaldanna á milli og verð að segja að ég er ákaflega sammála hv. 4. þm. Reykv. um þau mál sem bókin fjallar um og ég vil leyfa mér að lesa stuttan kafla úr þessari bók sem mér þykir svo athyglisverður að hann eigi fullt erindi inn í umræður nú þó svo að bókin sé skrifuð fyrir allnokkru, en hún mun hafa komið út 1968. Kaflinn er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Loks er um það að ræða að koma á fót opnum hlutafélögum eða almenningshlutafélögum þar sem miklu fjármagni er safnað saman frá fjölda manna til að leysa ákveðin viðfangsefni. Þennan þátt hefur mjög skort í íslenskt athafnalíf þótt slík félög hafi verið burðarásinn í atvinnulífi flestra annarra lýðræðisþjóða.
    Almenningshlutafélög eru ekki einungis mikilvæg af efnahagsástæðum heldur eru þau e.t.v. þýðingarmesti þátturinn í því þjóðfélagskerfi sem nefna mætti auðstjórn almennings eða fjárstjórn fjöldans. Er þar átt við mikilvægi þess að sem mestur hluti þjóðarauðsins dreifist meðal sem allra flestra borgara landsins, að auðlegð þjóðfélagsins safnist hvorki saman á hendur fárra einstaklinga né heldur ríkis og opinberra aðila. Þeir sem þessa stefnu aðhyllast telja þá þjóðfélagsþróun æskilegasta að valdið, sem fylgir yfirráðum yfir fjármagni, dreifist sem mest á meðal landsmanna allra. Þeir benda á hættuna sem því er samfara er fjármálavald flyst í stöðugt ríkara mæli yfir á hendur þeirra sem fyrir hafa pólitíska valdið; þá fyrst sé veruleg hætta á misnotkun valdsins.
    Samkvæmt þeim kenningum sem hér er fjallað um byggist heilbrigð lýðræðisleg þróun á því að sem allra flestir einstaklingar séu fjárhagslega sjálfstæðir; þeir eigi hlutdeild í þjóðarauðnum en séu ekki einungis leiguliðar eða starfsmenn ríkisins. Þá muni sjálfstæði manna, öryggi, þroski, ábyrgðartilfinning og lífshamingja aukast og þá muni framleiðsla og auðæfaöflun þjóðfélagsins einnig verða mest.
    Þessar kenningar hníga að því að með dreifingu auðmagnsins séu skert áhrif valdhafanna að því marki sem bæði þeim og öðrum sé heppilegast. Embættismenn og stjórnmálamenn geti þá ekki seilst lengra inn á umráðasvið einstaklingsins en góðu hófi gegnir. Til þess hafi þeir ekki þann styrk sem umráðavald, jafnt yfir fjármagni sem stjórnkerfi landsins, mundi ella veita þeim. Þannig skapist það heilbrigða jafnvægi milli hinna ýmsu valdastofnana og fólksins í landinu sem eitt sé þess megnugt að tryggja varanlegt lýðræði og trausta þjóðfélagsskipan.
    Segja má að okkur Íslendingum hafi að ýmsu leyti tekist sæmilega að feta okkur áfram til skilnings á þeim sjónarmiðum sem hér er um rætt. Þannig mun óvíða eða hvergi vera um að ræða almennari eign eigin íbúðarhúsnæðis, bændur eiga flestir bújarðir sínar, fjöldi útgerðarmanna á bátaflotann og fyrirtæki á sviði iðnaðar, verslunar og samgangna eru í ríkum mæli í eigu einstakra manna eða hlutafélaga. Allt eru þetta veigamiklir þættir í fjárstjórn fjöldans.
    En gallinn er sá að erfiðlega hefur gengið að fá alþýðu manna til að verja fjármunum sínum að nokkrum hluta til beinnar þátttöku í atvinnurekstri sem hún á þó mest undir. Fólkið hefur ekki skilið nauðsyn þess að atvinnufyrirtækin högnuðust og skiluðu eigendunum arði og meðan þannig er háttað hefur það heldur ekki verið talið arðvænlegt að festa fé sitt í atvinnurekstri.
    Þegar á móti blæs eru atvinnufyrirtækin þess vegna aflvana að mæta vandanum --- og nú er íslensku atvinnulífi vissulega ógnað. Þess vegna er ekki seinna vænna að menn geri sér glögga grein fyrir þýðingu þess að öflug atvinnufyrirtæki rísi upp og önnur séu styrkt og efld.``
    Virðulegi forseti. Þessi kafli segir meira en mörg orð og langar ræður. Ég get tekið undir það sem

fram kemur í þessum kafla bókar hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Þá, þegar þessi bók kom út 1968, voru erfiðleikar í íslensku atvinnulífi rétt eins og nú og ég hygg að menn ættu að beina sjónum sínum að þessum kosti, almenningshlutafélögum, í ríkara mæli en menn hafa gert hingað til og flétta þann valkost inn í þær lausnir sem menn verða að koma fram með á næstunni varðandi erfiðleikana í íslensku efnahagslífi.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, leggja til að þessu frv. verði vísað til hv. efh.- og viðskn. og 2. umr.