Landgræðslulög

145. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 01:13:14 (6633)

     Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég leyfi mér að flytja hér frv. til laga um breytingu á landgræðslulögum, nr. 17 frá 24. apríl 1965. Frv. þetta er einfalt í smíð, aðeins tvær greinar og með leyfi forseta hyggst ég lesa þær:
    ,,1. gr. 12. gr. laganna orðast svo: Þegar land, sem Landgræðsla ríkisins hefur tekið til græðslu með samkomulagi, sbr. 7. gr., er svo vel gróið að dómi landgræðslustjóra að eigi er nauðsyn frekari aðgerða frá hendi Landgræðslunnar skal afhenda það aftur eigendum. Landgræðslustjóri setur reglur um meðferð landsins.
    Ef eigandi eða leigutaki vill fá landið fyrr en landgræðslustjóri telur hæfilegt eða vill ekki sætta sig við reglur landgræðslustjóra um meðferð landsins getur eigandi eða leigjandi áfrýjað til landbrh. sem sker úr málinu að fengu áliti Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og sérfræðinga Búnaðarfélags Íslands.
    Aldrei skal þó halda landi fyrir landeiganda lengur en í 30 ár, enda skuldbindi landeigandi sig til að viðhalda og bæta það gróðurfar sem þá er á landinu.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Ég ætla aðeins að segja örfá orð um markmið þessarar lagasetningar. Við höfum á

Alþingi Íslendinga verið að færa í sundur framkvæmdarvald og dómsvald. Það er liður í því að tryggja eðlilegt réttaröryggi í landinu. Þegar þessi lög voru samin á sínum tíma var þetta samtvinnað á þann veg að Landgræðslan sá um uppgræðsluna. Hún var eftirlitsaðili með sjálfri sér og einnig dómari yfir því hvort landinu skyldi skilað.
    Nú veit ég að menn vilja virða eignarrétt. Sá sem skrifaði undir að afhenda Landgræðslunni land í góðri trú, vildi sem sagt að landið yrði grætt, gerir að sjálfsögðu ráð fyrir því að það sé farið að landgræðslulögum, samin áætlun um græðslu landsins og að því verði svo skilað eins og sá upprunalegi samningur gerði ráð fyrir.
    Hitt er svo staðreynd að þar sem mikill skeljasandur er í tengslum við sjávarfjöru er e.t.v. hægt að segja sem svo að land verði aldrei að fullu gróið. Það er þess vegna hægt að standa að þeirri kenningu að þar sem landið er ekki að fullu gróið, þá beri ekki að skila því. En ef sú kenning er notuð er í reynd verið að hirða land af eiganda án þess að nokkurt gjald komi fyrir og án þess að í upprunalega samningnum hafi nokkurn tíma verið gert ráð fyrir slíkum hlutum. Þá er verið að fara á bak við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.
    Ég hef ekki hugsað mér að flytja hér langt mál. Ég tel að hér sé um svo sjálfsagt mál að ræða að þess gerist ekki þörf. Ég vil, með leyfi forseta, óska eftir því að þetta mál fari að lokinni þessari umræðu til 2. umr. og hv. landbn.