Skipaútgerð ríkisins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 11:21:18 (6637)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Þegar þetta mál var hér til umræðu fyrsta sinni gerði ég við það ýmsar athugasemdir og undir það mál tóku ýmsir þingmenn, m.a. hv. 4. þm. Reykv. Eyjólfur Konráð Jónsson. Það er ljóst að saga þessa máls í meðförum hæstv. samgrh. er með hreinum endemum og allir muna þegar hæstv. ráðherra varð uppvís að því að hafa upplýst þingið ranglega um gang málsins og þarf ekki að endurtaka þá sögu. En við það tækifæri, þegar það var ljóst, sagði hv. 4. þm. Reykv., Eyjólfur Konráð Jónsson, með leyfi hæstv. forseta, hér á fundi 20. jan. sl.: ,,Þessi umræða og þetta mál í heild er orðið heldur dapurlegt. Ég get satt að segja naumast tekið þátt í umræðum við hæstv. ráðherra um þetta mál. Mér ofbýður.``
    Þær upplýsingar sem voru gefnar í fjölmiðlum það kvöld reyndust reyndar allar ósannar þegar til kom. Þau skip sem sagt var að væri verið að semja um voru ekki seld heldur önnur skip. Félagið tók ms. Esju á leigu, hið nýja félag Samskip, og jafnframt ms. Heklu.
    Í umræðunum um daginn kom fram að þetta fyrirtæki, Skipaútgerð ríkisins, sem veitt hafði verið um hálfur milljarður króna á árinu 1991 úr sjóðum íslenska ríkisins, virðist hafa verið sett á útsölu fyrir nokkra tugi milljóna og ég efast um að allt það fé sem veitt var til fyrirtækisins á síðasta ári hefði verið veitt ef menn hefðu gert sér ljóst að síðan færi fyrirtækið á uppboð. Og svo dæmi sé tekið seldist Askja fyrir 71 milljón.
    Við vitum öll hvað hér er á ferðinni. Það er satt að segja sérkennilegt að hér urðu nokkur orðaskipti í nótt og hæstv. ráðherra lagði á það mikla áherslu að taka þetta mál á dagskrá. Það vildi svo til að frændi hans, þingforsetinn, var sama sinnis. Sjálfsagt líka frændinn sem kom á fund nefndarinnar og mælti með samþykkt frumvarpsins.
    Það er satt að segja með hreinum ólíkindum hvernig ráðskast er með eignir okkar allra, safnað í þennan eilífðarinnar sjóð sem nú á stjórna öllu í þessu landi, líka gegnum bankana, þeim sjóði sem við höfum verið að berjast fyrir síðustu daga. Allt á þetta að safnast á sömu hendurnar og hvert ósannindaþvaðrið á annað ofan borið fyrir hv. þingheim. Allt þetta hefur verið sagt áður og ég skal ekki þreyta hæstv. forseta með frekari umræðum um það.
    Ég tel að brtt. hv. þm. Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur, 6. þm. Vestf., og annarra þingmanna sé til bóta. Það er sjálfsagt að eitthvað af þessu fé renni til fólksins í landinu, sem fyrir sölu þessara eigna kemur, og það er líka til bóta að lögin taki ekki gildi fyrr en 31. des. 1992 vegna þess að það er afar sérkennileg atburðarás, eins og ég benti á í fyrri ræðum, að fyrirtæki sem enn á eftir að selja verulegar eignir er ekkert búið að gera upp. ,,Enn eru óseldar eignir Skipaútgerðarinnar``, segir í greinargerð, með leyfi hæstv. forseta, ,,vöruskemma fyrirtækisins á Grófarbakka, hlutabréf og hluti skrifstofubúnaðar og ýmislegt fleira``, hlutabréf og annað slíkt.
    Það er auðvitað sérkennilegt að það liggi þessi lifandis ósköp á að leggja félagið formlega niður á meðan ekki er búið að ganga frá eignum þess og enn sérkennilegra er ákvæði til bráðabirgða sem fylgir frumvarpinu þar sem segir:
    ,,Ráðherra er heimilt að fresta því að leggja niður þær stöður sem nauðsyn krefur í tengslum við lokauppgjör Skipaútgerðar ríkisins.``
    Ég hlýt að spyrja og vildi heyra álit fyrrv. hæstv. fjmrh. á því: Ef fyrirtæki í eigu ríkisins er lagt niður er þá ekki eðlilegt að fjmrn. og starfsmenn þess gangi frá fyrirtækinu? Í umboði hvers eru þeir menn að vinna sem eiga að vinna í fyrirtæki sem búið er að leggja niður með lögum? Ég skil ekki hvers vegna félagið var ekki gert upp og síðan borið fram frumvarp um að lög um Skipaútgerð ríkisins falli brott. Ég held að það sé afar sérkennilegt að samþykkja þau lög á meðan um er að ræða verulegar eignir félagsins sem eftir er að ganga frá. Og ég átta mig ekki alveg á því hjá hverjum þeir menn vinna sem enn eru í störfum hjá fyrirtæki sem hefur verið aflagt með lögum. Ég tel þess vegna til mikilla bóta að það sé þá ákveðið hvenær þessi lög taki gildi. Ég bið menn að taka eftir að það stendur hér að ráðherra sé heimilt að fresta. Það segir ekkert um að fresta þangað til hvenær. Ég spyr: Hversu lengi á að fresta því að segja upp starfsfólki hjá fyrirtæki sem búið er að leggja niður með lögum?
    Ég skal ekki taka meiri tíma í þetta mál. Þingtíðindi taka af allan vafa um hvernig að því var staðið og það er hvorki hæstv. ráðherra né Alþingi til sóma.