Skipaútgerð ríkisins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 12:27:55 (6646)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Mál það sem hér er til umræðu hefur nú verið þó nokkuð rætt í þjóðfélaginu þennan vetur og ég hygg að menn kunni nokkuð glögg skil á efnisatriðum þess. Ég vil segja um þá brtt. sem hér liggur fyrir frá minni hluta samgn. að mér þykir í henni vera ákveðinn sáttatónn, viðleitni til að nálgast sjónarmið hæstv. ráðherra og ég legg að hæstv. ráðherra að skoða þessar brtt. með allri velvild og íhuga hvort hann geti ekki fallist á þær.
    Ég vil segja vegna þess að málið er mér skylt að því leyti að ég sit í stjórnarnefnd og við gildistöku laganna mundi ég að sjálfsögðu missa mitt stjórnarsæti, að það er ekki það sem skiptir mig neinu máli í þessu sambandi og ég er í sjálfu sér alveg reiðubúinn til þess ef ráðherra óskar að víkja úr stjórn þannig að mönnum sé ljóst að ég ræði ekki málið út frá þeim forsendum.
    Það er framtíðin sem er áhyggjuefni manna varðandi þetta mál. Við vitum hvað við höfum haft, en það er nokkuð óljóst hvað framtíðin ber í skauti sér. Þar erum við að hugsa um tiltekna hagsmuni sem eru hagsmunir dreifbýlisins, þjónusta við hinar fámennu byggðir landsins og það verð sem fólkið þarf að greiða fyrir þá þjónustu. Ég og fleiri höfum um það nokkrar efasemdir og óttumst að svo kunni að fara þegar fram líða stundir að þjónustan muni versna á allnokkrum stöðum á landinu og jafnvel að verðið muni hækka einnig. Þetta hefur að hluta til þegar komið fram hvað varðar versnandi þjónustu eins og ég rakti í ræðu minni við 1. umr. málsins þar sem ég dró fram reglubundnar áætlunarsiglingar skipafélaganna tveggja, Eimskipafélags Íslands og Samskipa hf., eins og ég fékk upplýsingar um hjá þessum tveimur skipafélögum. Af þeim upplýsingum var ljóst að nokkrir staðir eiga nú þegar verulega í vök að verjast hvað varðar reglubundna þjónustu til þeirra á sjó.
    Á Vestfjörðum eru það einkum þrír staðir sem ég hef verulegar áhyggjur af. Það eru Bíldudalur, Suðureyri og Norðurfjörður. Þar vil ég taka fram að enn eru reglubundnar siglingar á Norðurfjörð, en ekki á tveggja vikna fresti eins og áður var heldur þriggja vikna fresti, og ég rakti í mínu máli við 1. umr. málsins að í þeim upplýsingum sem ég gaf þá skilgreindi ég reglubundnar siglingar sem væru þannig að það væri viðkoma eigi sjaldnar en einu sinni á tveggja vikna fresti.
    Á hinum tveimur stöðunum, Suðureyri við Súgandafjörð og Bíldudal, eru ekki reglubundnar áætlunarsiglingar heldur koma skipafélög þar inn þegar þeim þykir það borga sig, þegar þau hafa einhvern þann flutning sem þau telja feng í að sækja. Það er ég í sjálfu sér ekki að gagnrýna félögin fyrir. Þau hafa engar kvaðir á sér af hálfu ríkisvaldsins um þjónustu og eðlilega hljóta hlutafélög sem eru rekin í þeim tilgangi að veita eigendum sínum arð af sínu fé að haga sínum rekstri þannig að ekki verði halli af honum. Á Austfjörðum voru staðir sem einnig höfðu misst reglubundnar áætlunarsiglingar, en hafa nú í staðinn óreglubundnar siglingar. Þangað er komið þegar menn hafa þann farm að sækja sem þeir telja borga sig að ná í. Það voru staðir eins og Stöðvarfjörður og Breiðdalsvík.

    Auðvitað verða stjórnvöld og Alþingi að gangast við skyldum sínum við þjóðina alla án tillits til búsetu og gera ráðstafanir til að tryggja ákveðið þjónustustig og tryggja að menn þurfi ekki að greiða yfirmáta hátt verð fyrir þá þjónustu. Það er fyllilega réttlætanlegt að hið opinbera hlutist til um þessi málefni til að tryggja þessa hagsmuni. Það hefur verið gert í þessum málaflokki og það er gert í samgöngumálum og reyndar öðrum málaflokkum og það mun verða áfram gert. Ég nefni sem dæmi í samgöngumálum að auðvitað eru fjárframlög ríkisins til vegamála ekkert annað en byggð á þeirri hugsun að menn telja það skyldu stjórnvalda að veita íbúum landsins án tillits til búsetu einhverja tiltekna, viðunandi þjónustu. Og ég minni á að framlög til vegamála nema á ári hverju mörgum milljörðum kr. og ég hygg að þær séu fáar raddirnar sem halda því fram að því fé sé illa varið. Þvert á móti eru hinar raddirnar fleiri, sérstaklega í röðum stjórnarandstöðunnar, þó að ekki sé það einskorðað við hana, að menn eigi að gera betur í þessum efnum og menn gagnrýna og mótmæla niðurskurði sem fyrirhugaður er á þessu ári af framlagi til vegamála.
    Það má nefna málaflokk eins og menntunarmál og heilbrigðismál. Þar hafa þjóðin, þingið og stjórnvöld skilgreint það sem sitt hlutverk að bjóða upp á og fullnægja ákveðinni þjónustuþörf fyrir því sem næst sama verð án tillits til búsetu. Hér er ekki um að ræða eitthvert afmarkað svið, að styrkja sjóflutninga. Þetta er þáttur í hinni sameiginlegu stefnu, sem allir flokkar fram til þessa hafa verið sammála um, að þjóðin öll skiptir okkur máli. Ég hygg að ég megi segja líka að allir stjórnmálaflokkar hafi verið sammála um að fólkið í dreifðustu byggðunum, á smæstu stöðunum skiptir okkur líka máli og að okkur beri sérstaklega að huga að hagsmunum þess þegar menn útdeila fé úr ríkissjóði.
    Vissulega hefur í vetur orðið veruleg stefnubreyting á þessari almennu hugsun um rétt þjóðarinnar til tiltekinnar þjónustu. Við höfum kynnst því í sölum Alþingis í ýmsum frumvörpum sem síðar hafa orðið að lögum, eins og ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992 og breytingar á reglugerð um almannatryggingalög svo að ég nefni dæmi sem eru nærtæk. Sú stefna og þær aðgerðir sem hafa verið framkvæmdar í þessu tiltekna máli, sjóflutninga, eru í raun og veru angi af þessari sömu stefnubreytingu sem núverandi stjórnvöld ryðja hér fram, þó ekki að öllu leyti, það vil ég taka skýrt fram, vegna þess að ég hygg að það hafi allir verið sammála um að breyta rekstrarfyrirkomulagi Skipaútgerðar ríkisins og býsna margir voru á þeirri skoðun að menn ættu að feta sig áfram og leitast við að koma þessum ríkisrekstri af höndum sér, en gera það skref fyrir skref vegna þess að menn vildu ekki tefla í tvísýnu hagsmunum þeirra sem menn bera sérstaklega fyrir brjósti og þetta skipafélag hefur alveg sérstakar skyldur við. Að því leytinu hefur sú breyting sem hæstv. ráðherra hefur lagt áherslu á að verði á þessu fyrirkomulagi ekki verið í þeim anda sem ég var að geta um áðan í öðrum málaflokkum, en er í þeim anda að leggja fyrirtækið niður án þess að setja neinar tryggingar fyrir þá sem veikast standa hvað þetta varðar. Það tel ég afar alvarlegt, virðulegi forseti, og geri mjög harðan ágreining um þá stefnu. Ég vil brýna hæstv. ráðherra, af því að ég veit að hann er landsbyggðarþingmaður og ég trúi ekki öðru en hann hljóti að hafa sterkar taugar til fólksins sem býr úti á landi, til þess að taka upp ákveðnar tryggingar í þessu máli þannig að menn hlaupi ekki frá því í lausu lofti og láti skeika að sköpuðu hvar menn lenda.
    Tillögur til úrbóta í þá veru sem ég er að tala koma fram í brtt. minni hlutans þar sem lagt er til að ráðherra verði veitt heimild til að leysa vanda þeirra byggðarlaga sem missa nauðsynlega þjónustu við sölu á eignum Skipaútgerðar ríkisins. Það er nákvæmlega þessi andi sem ég vil taka undir og ég hef áréttað og verið þeirrar skoðunar að fyrst það er niðurstaðan og stefna stjórnvalda að leggja fyrirtækið niður sem allra fyrst, og er reyndar að mestu lokið, þá eigi menn að gera þjónustusamninga við önnur skipafélög til að tryggja hagsmuni tiltekinna staða. Það er ákaflega fljótlegt að sjá hvaða staðir það eru og það mun skýrast þegar fram líður á árið eða fram á næsta vetur að það muni gerast, sem ég spái, að skipafélögin tvö, sem reka nú nokkuð harða samkeppni um þá flutninga sem Skipaútgerðin áður hafði, munu draga úr sinni þjónustu, munu fækka þeim skipum sem þau eru með í strandsiglingum og eðlilega munu þá enn fleiri staðir en nú er missa relgubundna þjónustu eða þurfa að búa við lakari kost, annaðhvort varðandi skipakomur eða verð fyrir flutninginn. Því tel ég afar brýnt að hv. Alþingi samþykki þær brtt. sem lagðar eru til í áliti minni hlutans. Ég held að ef svo yrði gert gæti ég sjálfur samvisku minnar vegna verið í bili sæmilega sáttur við þá niðurstöðu. Ég teldi þá að ég hefði bærilegar tryggingar fyrir því að þeir sem höllustum fæti standa verði ekki settir á kaldan klaka og að stjórnvöld sýni því fólki það lífsviðhorf sem stundum vill bregða við í þjóðfélagsumræðu í dag að skýtur upp kollinum sem er eitthvað í þá veru að hver eigi að hjálpa sér sjálfur og hinir sem undir verða verði að eiga sig. Þetta er viðhorf sem ég veit að hv. 1. þm. Vestf. t.d. er ákaflega andsnúinn og ég hygg að svo megi segja um fleiri þingmenn í öllum flokkum.
    Af þessum breytingum hefur ýmislegt leitt sem er ekki allt jafnánægjulegt þó svo menn hafi vitað að mundu verða afleiðingar af breytingunni sem yrðu erfiðar. Þar vil ég nefna það sem ég geymdi mér í 1. umr. málsins, atvinnuástand þeirra starfsmanna sem áður störfuðu hjá Skipaútgerð ríkisins. Það voru eins og þingheimi er eflaust kunnugt tæplega 100 manns þar í störfum þegar skipafélagið var í fullum rekstri á sl. hausti. Síðan hefur megninu af því fólki verið sagt upp störfum að undanteknum nokkrum mönnum sem ljúka við pappírslegan frágang á málum fyrirtækisins og einni skipsáhöfn, sem er á launaskrá hjá fyrirtækinu, á Heklu sem er á leigu hjá Samskipum. 1. apríl sl. var ástand mála þannig að hvorki fleiri né færri en 54 fyrrum starfsmenn Skipaútgerðar ríkisins voru án atvinnu, 54 af 100 voru án atvinnu.

Af þeim voru tíu sem voru við það að komast eða komnir á eftirlaunaaldur þannig að ef þeir eru dregnir frá þessari tölu þá voru atvinnulausir 44 eða tæplega helmingur starfsmanna fyrirtækisins var án atvinnu 1. apríl sl. Þessar upplýsingar eru fróðlegar, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra hafði nokkur stór orð uppi um það og bæði góð orð og heit gagnvart starfsmönnum að hann mundi beita sér fyrir því að starfsfólki yrði útveguð vinna eftir því sem ráðuneytinu gæti dugað öll til. Mér er hins vegar ekki kunnugt um að ráðuneytið hafi í raun haft neina viðleitni eða tilburði uppi til þess að aðstoða starfsmenn við að fá vinnu annars staðar. Mér er ekki kunnugt um það. Ég ætla ekki að segja að svo hafi ekki verið, en mér er ekki kunnugt um það og vildi því gjarnan að hæstv. ráðherra greindi frá þætti ráðuneytisins í þessu máli.
    Eitthvað hefur úr ræst frá 1. apríl. Ég reyndi að afla mér upplýsinga fyrir skömmu. Það er að vísu orðið nokkuð erfitt af skiljanlegum ástæðum, en eftir því sem ég komst næst voru án atvinnu 30 starfsmenn Skipaútgerðar ríkisins og það er tæplega þriðjungur allra starfsmanna sem ekki hefur fengið vinnu í stað þeirrar vinnu sem þeir misstu eða eru að missa. Mér finnst það nokkurt ábyrgðarleysi ef hæstv. samgrh. eða ráðuneyti hans hefur ekki uppi nokkuð alvarlega viðleitni til að útvega þessu fólki störf eða aðstoða það eftir föngum.
    Mér finnst fyrst þessi mál ber á góma rétt að minnast á hæstv. félmrh. Hvar hefur hæstv. félmrh. verið í þessu máli? Ég hef orðið var við að hæstv. félmrh. hefur látið til sín taka atvinnumál fyrrv. starfsfólks á Landakoti og er það vel og á ráðherrann lof skilið fyrir það. En ég heyrði í fjölmiðlum fyrir ekki mörgum dögum að enn væru um 30 manns atvinnulausir af þeim sem misst höfðu vinnuna á Landakoti og það var fjölmiðlamál. Það var tilefni til frétta í fjölmiðlum og viðtals við hæstv. félmrh. Það hefur enginn flutt fréttir af atvinnuleysi fyrrverandi starfsmanna Skipaútgerðar ríkisins. Það er hið gleymda fólk í þjóðfélaginu. Það fólk kemst ekki að á borði hæstv. félmrh. og ég hlýt að spyrja: Hverju sætir það? Ég vildi spyrja hæstv. forseta eftir því hvort hæstv. félmrh. er í húsinu. Ég vildi gjarnan ef svo væri fá ráðherrann til fundar og biðja hæstv. félmrh. um svör við því hvað ráðherrann hyggst gera til að hjálpa atvinnuleysingjum, fyrrv. starfsmönnum Skipaútgerðar ríkisins, til að fá vinnu. Það fólk á alveg jafnan rétt til aðstoðar og starfsfólk Landakots. Í mínum huga eru allir jafnir hvað það snertir, enda tel ég mig vera jafnaðarmann, ekki bara í orði heldur líka í verki. Ég tel mig vita með nokkurri vissu að vinstri höndinni sé það alltaf ljóst hvað sú hægri gerir. Ég er ekki alveg viss um þá sem sigla undir flaggi jafnaðarmannsins og jafnaðarstefnunnar, undir kjörorðinu: Ísland í A-flokk. Eru hagsmunir fyrrum starfsfólks Skipaútgerðar ríkisins í A-flokki, hið gleymda fólk á vinnumarkaðnum? Það er ekki nóg að segja ríkishalli, sóun og leggja fyrirtækið niður og gleyma svo fólkinu. Mér þætti fróðlegt að fá við því svör frá hæstv. félmrh., ef hann má vera að því að sinna þingstörfum, hvað ráðherrann hyggst gera til að stuðla að því að það fólk sem áður vann hjá Skipaútgerð ríkisins fái vinnu.
    Ég tek undir það hjá hæstv. félmrh. og þakka henni fyrir sköruleg viðbrögð gagnvart fyrrum starfsfólki Landakots. Þar var vel að verki staðið. ( GHelg: Hvað gerði hún?) Ja, hún vakti athygli á málinu a.m.k., meira veit ég ekki. (Gripið fram í.) Ég trúi því að ráðherrann hafi hjálpað til þó ég ekki viti. En það er mín trú því ég veit að hæstv. félmrh. hefur mikla réttlætiskennd og trúi því ekki að ráðherrann hafi setið með hendur í skauti varðandi það fólk sem missti atvinnuna á Landakoti, þær 30 konur sem enn voru atvinnulausar fyrir skömmu. En fyrir örfáum dögum fékk ég þær upplýsingar að enn væru án atvinnu um 30 manns af fyrrv. starfsmönnum Skipaútgerðar ríkisins. Það er jafnstór hópur, virðulegur forseti. Mig langar til að vita hvort hæstv. félmrh. er tilbúinn að beita sér fyrir því að þetta fólk fái vinnu.
    Hæstv. samgrh. var búinn að gefa upp heitstrengingar og góð orð til þessa starfsfólks um síðustu áramót um að hann mundi leggja því lið. Ég hef ekki orðið var við þau verk. En eins og ég gat um áðan kann að vera að svo sé og hæstv. samgrh. gerir þá grein fyrir því. En hafi svo verið er samt enn mikið verk óunnið fyrst um 30 manns búa við að hafa ekki atvinnu.
    Ég vík næst að ákveðnu máli sem lítillega hefur verið rætt í þingsölum, lítillega á drepið án þess að fjallað hafi verið um efni þess að neinu ráði vegna þess að það mál fjallar um framtíðina. Það mál eru tillögur um hvað beri að gera. Hér er ég að tala um skýrslu Endurskoðunar Akureyrar hf. sem í þingsölum hefur borið á góma af öðru tilefni. Sú skýrsla er vissulega umdeild hvað efni varðar og upplýsingar sem í henni eru og forstjóri Skipaútgerðar ríkisins gerði margar athugasemdir við tölur og fullyrðingar í þeirri skýrslu. Ég ætla ekki að fjalla um það. Ég ætla hins vegar að fjalla um niðurstöður þeirra manna sem hæstv. samgrh. réði til vinnu fyrir samgrn. til að gera fyrir sig tillögur um framtíðina, gera fyrir sig tillögur um hvað bæri að gera. Við skulum bera þessar tillögur saman við veruleikann. Í þessari skýrslu eru dregnir fram í niðurstöðukafla þrír kostir. Og þeir eru:
    1. Að breyta rekstrarskipan Skipaútgerðar ríkisins.     2. Að selja Skipaútgerð ríkisins.
    3. Að leggja fyrirtækið niður.
    Nú skulum við fara aðeins yfir hvernig þeir rökstuddu þessar tillögur og hvað lá að baki tillögum skýrsluhöfunda í hverjum þætti fyrir sig.
    Varðandi fyrstu tillöguna, að breyta rekstrarskipan Skipaútgerðar ríkisins, er rétt, til þess að fram komi álit skýrsluhöfunda og forsendur varðandi þessa tillögu, að lesa örstuttan kafla úr þeirri greinargerð. Hann er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Ljóst er að sú stefna sem Skipaútgerð ríkisins hefur fylgt á undanförnum árum, þ.e. að halda uppi

sem umfangsmestum rekstri og reyna með þeim hætti að minnka þörf félagsins fyrir ríkisstyrki og gera það að hagkvæmu flutningafyrirtæki, hefur ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt.``
    Ég vil skjóta því inn, virðulegi forseti, að við þessa fullyrðingu hefur verið gerð athugasemd af hálfu Skipaútgerðar ríkisins og rækilega rökstudd, en ég held áfram lestrinum:
    ,,Þessi niðurstaða er staðreynd og engar breytingar á henni fyrirsjáanlegar að óbreyttu þrátt fyrir allar úttektir og áætlanir. Í ljósi þessa virðist að í stað þess að taka upp siglingar til Færeyja hefði verið eðlilegra fyrir Skipaútgerð ríkisins í kjölfar minnkandi flutninga að reyna að minnka umsvif sín og draga úr kostnaði með því að selja eitt skip og endurskipuleggja rekstur sinn í samræmi við það. Sem leið að því marki að draga úr þörf Skipaútgerðar ríkisins fyrir ríkisstyrk kemur til greina að draga verulega saman seglin og gerbreyta rekstrarfyrirkomulagi félagsins. Þar hlýtur að koma mjög til álita að tengja starfsemi félagsins við ferjur og flóabáta sem ríkið á eða styrkir í dag og mun að öllu óbreyttu styrkja áfram. Þar má nefna Breiðafjarðarferjuna Baldur, Djúpbátinn Ísafirði, Sæfara á Eyjafirði og Vestmannaeyjaferjuna Herjólf. Staðsetningu slíks fyrirtækis þarf að athuga mjög vel með tilliti til sem mestrar hagkvæmni. Til greina kemur að staðsetja það á öðrum stað en í Reykjavík. Yfirstjórn félagsins yrði í lágmarki, t.d. 2--3 menn. Félagið ætti að geta annað sjóflutningaþörf til þeirra staða sem talið er að fái ekki viðunandi þjónustu með öðrum hætti. Yfirumsjón þessara mála yrði í samgrn. Þar falla m.a. undir samræming áætlana flutningaaðila og hugsanlegir sérstakir samningar við flutningaaðila um ákveðna þjónustu við afskekktustu staðina.``
    Á þessari hugsun byggja skýrsluhöfundar fyrsta tillögukost sinn sem er að breyta rekstrarskipan fyrirtækisins. Það var kostur sem skýrsluhöfundar töldu vel koma til greina og byggðu það á þeirri hugsun að það væri skylda samfélagsins að tryggja afskekktum stöðum þjónustu. Skýrsluhöfundar, sérstakir ráðgjafar hæstv. samgrh., vinna út frá þeirri forsendu að það sé skylda samfélagsins og ríkisvaldsins að tryggja afskekktustu stöðunum tiltekna þjónustu. Því leggja þeir til þennan kost sem einn af þremur mögulegum. Þetta er afar athyglisvert.
    Annar kosturinn í tillögum greinarhöfunda var að selja fyrirtækið. Sem rökstuðning á bak við þessa tillögu segja greinarhöfundar, með leyfi forseta: ,,Skilgreina þarf lágmarksþjónustu sem ríkisstjórnin telur þurfa á einstaka staði og hugsanlegur kaupandi þarf að uppfylla. Þetta skilyrði fylgdi með í kaupunum og gilti í einhvern fyrir fram ákveðinn árafjölda. Áætla þarf þessa styrki með tilliti til núverandi stöðu.``
    Önnur tillagan af þremur sem skýrsluhöfundar draga fram er sem sé sá valkostur að selja fyrirtækið, en þá með því skilyrði að skilgreind yrði einhver ákveðin lágmarksþjónusta sem ríkisstjórnin telur þurfa á einstaka staði og að kaupandi þurfi að taka á sig þær skyldur. Annar kosturinn í tillögu skýrsluhöfunda byggir sem sé á sömu hugsun, sama viðhorfi og fyrsti kostur, að ríkisvaldið beri ákveðnar skyldur við fólk sem býr á afskekktustu stöðum landsins, að landið sé ein þjóð og það búi ein þjóð í landinu en ekki tvær eða fleiri, að menn séu jafnir. Ekki bara í orði heldur líka í verki.
    Það er alveg með ólíkindum að í þessu máli hefur ekki heyrst eitt einasta orð frá Jafnaðarmannaflokki Íslands. Hann er stikkfrí í þessu máli. Jafnaðarmannaflokki Íslands kemur þetta ekkert við. Honum kemur ekkert við sú skylda samfélagsins að tryggja öllum þegnum þess tiltekin lágmarksréttindi. Enda hefur sá flokkur gengið svo kyrfilega í björg að hann ætlar á eftir að segja já við því að henda út jafnrétti til náms. Það er mikið afrek af Alþfl. --- Jafnaðarmannaflokki Íslands sem á næsta flokksþingi hefur væntanlega ,,hf.`` á eftir. Það hlýtur að vera eðlilegt í ljósi þeirrar áherslu sem hæstv. iðnrh. og viðskrh. hefur á einkavæðingu að breyta Alþfl. í hlutafélag. Það væri kannski hægt að selja það félag með uppsöfnuðum töpum.
    Þriðji valkosturinn sem skýrsluhöfundar draga fram er að leggja fyrirtækið niður, en rétt eins í hinum tveimur kostunum er ekki svo einfalt í augum skýrsluhöfunda að menn loki sjoppunni, slái slagbrandinum fyrir og segi ,,lok, lok og læs`` heldur telja þeir að ríkisvaldið beri ákveðnar skyldur, það beri skyldur í málinu, að einhver annar þurfi að koma til til að taka að sér þjónustuna, tryggja þjónustuna og ríkisvaldinu beri að koma því við að einhver taki það að sér.
    Hér segir undir þessum kafla skýrslunnar, með leyfi forseta: ,,Skipaútgerð ríkisins verði lögð niður og strandflutningaþjónusta ríkisins fælist eingöngu í rekstri þeirra staðbundnu skipa sem rekin eru í dag. Einnig þyrfti að koma til einhver þjónusta á Austfjörðum sem væri bundin milli staða með aðsetur t.d. á Norðfirði.``
    Í þessum kafla kemur greinilega fram það álit skýrsluhöfunda að ríkið geti ekki hlaupið frá verkunum heldur verði að tryggja hagsmuni þeirra sem búa við ótryggustu stöðuna í þessum efnum. Að vísu kemur þarna fyrir hugtak sem ég á dálítið erfitt með að skilja, ,,staðbundin skip``. Ég hef ekki heyrt það fyrr í málinu --- og hef þó verið nokkuð til sjós og enn meira til lands --- að menn töluðu um staðbundin skip. Einu staðbundnu skipin sem ég þekki eru á kambnum í Bolungarvík og eru með fúin kjölinn og komast ekki á sjó. Mér lýst illa á að þau skip verði notuð til sjóflutninga.
    Vitna ég enn til þessarar umræddu skýrslu og gríp aftur niður í þriðja tillögukafla skýrslunnar sem heitir ,,Að leggja fyrirtækið niður`` og vil, með leyfi forseta, fá að lesa upp þessi orð:
    ,,Skipaútgerð ríkisins hefur um langan tíma þjónað ýmsum stöðum á landsbyggðinni og þessir staðir eru að einhverju leyti háðir henni um flutningaþjónustu. Ljóst er að breyting á þeirri þjónustu getur valdið ýmsum erfiðleikum á viðkomandi stöðum ef aðgerðin gengur of hratt fyrir sig. Það er því mikilvægt að ekki verði farið of geyst í aðgerðir sem breyta munu varanlega samgöngumálum þessara staða.``

    Þetta er alveg skýrt, virðulegi forseti. Þriðji möguleikinn sem skýrsluhöfundar draga upp byggir eins og hinir tveir á samfélagslegri kennd, skyldum samfélagsins og varað er við því að fara of geyst í sakirnar. --- Varað er sérstaklega við því að fara of geyst í sakirnar því sú breyting muni geta valdið vissum erfiðleikum á viðkomandi stöðum.
    Það er ekki að sjá að hæstv. ráðherra hafi lesið þessa skýrslu þó það liggi við að hún sé virði jafnþyngdar sinnar í gulli, svo dýr var þessi skýrsla.
    Eftir að hafa dregið upp þessa þrjá valkosti, virðulegi forseti, um framtíðina sem þessir skýrsluhöfundar sáu fyrir sér, sem voru í fyrsta lagi að breyta rekstrarskipan fyrirtækisins, í öðru lagi að selja fyrirtækið og í þriðja lagi að leggja það niður, draga þeir saman niðurstöður af sinni ályktun og koma fram með beina tillögu til ráðherra um hvað beri að gera. Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að lesa niðurlagskafla þessarar skýrslu sem greinir frá því. Hann er svo, með leyfi forseta:
    ,,Nýta þarf tímann vel á næstu mánuðum til aðgerða ef tryggja á að markmið um lækkun á ríkisframlagi nái fram að ganga. Tíminn til stefnu er skammur. Hann ber að nýta til að vinna markvisst að skipulagningu þeirra strandsiglinga sem ríkið ætlar að sinna í nánustu framtíð.`` --- Ég vil skjóta inn að þeir segja ,,markvisst að skipulagningu þeirra strandsiglinga sem ríkið ætlar að sinna í nánustu framtíð``. Það eru ekki bara strandsiglingar með Skipaútgerð ríkisins, það eru líka flóabátar og ferjur. Ég held áfram tilvitnun, virðulegi forseti:
    ,,Við þá vinnu verður að taka fullt tillit til eftirfarandi markmiða:
    1. Breyta núverandi rekstri þannig að rekstrarniðurstaða verði viðunandi.
    2. Hámarka tekjur ríkissjóðs af sölu eigna.
    3. Tryggja lágmarksþjónustu við afskekktari staði.
    Viðbúið er að á þeim stöðum á landsbyggðinni þar sem endurskipulagning strandsiglinga kemur til með að hafa mest áhrif muni gæta nokkurs ótta um samdrátt í þjónustu. Því er nauðsynlegt að gefa forráðamönnum þessara staða tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en frekari ákvarðanir eru teknar.
    Hér að framan hafa verið ræddar þrjár leiðir sem helst koma til greina. Vænlegast til árangurs er sambland af leið 1 og leið 2. Rekstrarumsvifin yrðu minnkuð verulega. Við tæki félag sem miðaði að því að þjóna þeim stöðum sem geta ekki verið án sjóflutninga. E.t.v. verður ekki hjá því komist að styrkja félagið um einhvern tíma, en stefnt yrði að afnámi þeirra styrkja sem fyrst, t.d. á ákveðnu árabili. Til greina kemur að aðstoða félagið í upphafi með því að leggja því til a.m.k. eitt skip. Rekstur félagsins yrði alfarið á höndum og ábyrgð þess, en styrkurinn yrði ákveðin fjárhæð á ári. Til þess að hrinda þessu í framkvæmd þarf að taka upp viðræður við aðila sem tilbúnir væru að gerast eigendur að væntanlegu félagi.``
    Þetta er tillaga þeirra aðila sem hæstv. samgrh. fékk sér til ráðgjafar í málinu, bað þá um að skrifa skýrslu, draga saman tölur, staðreyndir og koma fram með tillögur um hvað væri skynsamlegast að gera. Það gerðu þessir aðilar. Þeir komu fram með beinar tillögur, drógu fram þrjá kosti og síðan komu þeir fram með tillögu eins og þá sem ég var að greina frá áðan, tillögu sem gerði ráð fyrir því að fyrirtækið yrði selt og rekstrarumfangi breytt, að menn mundu finna aðila sem væru tilbúnir til að kaupa fyrirtækið. ( EgJ: Er ekki búið að afgreiða þetta?) Ég er, virðulegur þingmaður Egill Jónsson, landsbyggðarþingmaður Austfirðinga, að rekja forsögu málsins, rekja þá ráðgjöf sem hæstv. ráðherra bað um mönnum til upplýsingar, þar á meðal hv. þm. Agli Jónssyni, um það hvaða ráð hæstv. ráðherra fékk frá sínum ráðgjöfum og bið hann að bera þær saman við aðgerðirnar. Þetta er eitthvað í líkingu við kjörorð Sjálfstfl. 1983, ,,Frá orðum til athafna``, þar sem menn segja eitt og gera annað. Svo mörg eru dæmin um að Sjálfstfl. segi eitt og geri annað að ég mundi ráðleggja hv. þm. Sjálfstfl. að leggja til að taka þessi orð upp í stefnuskrá flokksins. ( ÓRG: Segjum eitt og gerum annað er næsta kjörorð.) Segjum eitt og gerum annað. Man hv. þm. Egill Jónsson hvað stendur í landsfundarsamþykkt Sjálfstfl. varðandi það mál sem á að fara að afgreiða á eftir? Þar stendur að tryggja skuli jafnrétti til náms án tillits til búsetu, efnahags eða fötlunar. Hvað stendur í frv. sem við munum greiða atkvæði um á eftir, hv. þm. Egill Jónsson? Hvar er jafnréttið? Hvar er tillitið til fötlunarinnar? Því er hent út í frv. til laga um málefni fatlaðra og sett yfir á grunnskólana án þess að tryggja nokkurt fé. Það er von að hv. þm. Egill Jónsson og flokkur hans hafi ekki notað aftur þetta slagorð, ,,Frá orðum til athafna``, svo rækilega hafa þeir rassskellt sjálfa sig með þeim áróðri. ( EgJ: Þú mátt ekki láta þetta fara í taugarnar á þér.) Virðulegi forseti, mér þykir afar gaman að eiga orðaskipti við hv. þm. Egil Jónsson.
    Þetta voru nú, virðulegi forseti, þær tillögur sem fyrir ráðherra lágu byggðar á þeirri grundvallarhugsun að menn ættu ekki að hrapa að ákvörðunum, menn ættu að feta sig út úr ríkisrekstri án þess að kasta frá sér ábyrgð samfélagsins á þeim smæstu í þjóðfélaginu.
    Ég vil líka nefna eitt sem fram kemur og ég las upp áðan. Þar var sagt að stjórnvöld ættu að miða verk sín við að hámarka tekjur ríkissjóðs af sölu eigna. Það væri fróðlegt við síðara tækifæri, virðulegi forseti, að fara dálítið yfir hvernig mönnum hefur gengið að selja eignir og fyrir hvaða verð, athuga hvort menn hafi farið að því ráði að hámarka sölu eigna.
    Eitt af því sem menn geta gert til að spilla fyrir verðgildi eigna er að taka ákvarðanir sem rýra trú væntanlegra kaupenda á gildi þeirra þannig að það má segja að það verði gengisfelling á þeirri eign sem menn ætla að selja. Við munum að hæstv. ráðherra tók þá ákvörðun snemma í haust að hætt skyldi siglingum til Færeyja með þeim rökum að þær væru reknar með tapi. Væru þau rök sönn er ákvörðunin ákaflega vel skiljanleg því það hlýtur að vera skylda hæstv. ráðherra að koma í veg fyrir að menn sói eignum ríkissjóðs í þjónustu sem er ekki lögbundin þjónusta fyrirtækisins. Skyldi það hafa verið svo að þessi þjónusta hafi verið rekin með tapi? Gæti það ekki verið að þeir sem voru að stjórna þessu fyrirtæki hafi ætíð verið að leita allra leiða til þess að ná sér í fé til að minnka þá þörf sem fyrir hendi hefur verið fyrir fé úr ríkissjóði? Ákvörðun um að taka upp siglingar til Færeyja var tekin með það í huga að menn hefðu af þessu tekjur sem mundu gagnast hjá ríkissjóði síðar meir. En það er ekki örgrannt um að eitt skipafélag hér ekkert langt undan hafi látið þessar siglingar fara dálítið í taugarnar á sér.
    Þegar ég fór að sjá inn í þann fargjaldaflutningaheim sem ríkir á þessari siglingaleið fór ég að skilja hvers vegna. Það er oft betra að færri viti en fleiri. Það er nefnilega þannig með siglingar á milli Íslands og annarra landa að þar eru fargjaldataxtarnir þannig að það væri fyllsta ástæða fyrir hæstv. samgrh. að hafa forgöngu um að taka það til rækilegrar skoðunar eða gera það, sem stæði nú stefnu flokksins nær, stuðla að aukinni samkeppni. Það er þjóðráð þegar menn telja fargjöldin vera of há að stuðla að aukinni samkeppni. Það var kannski það sem þeir sem hugsuðu sér að kaupa Skipaútgerð ríkisins ætluðu að gera. Þeir ætluðu ekki eingöngu að binda sig við að vera með siglingar á ströndinni heldur höfðu menn hug á því að sigla milli landa. Þeir sem að þessu stóðu höfðu bæði sambönd og mannskap sem var fær um að geta sett upp öflugt skipafélag í þessu skyni.
    En það er til sú skepna, sem hér hefur stundum verið nefnd og kölluð kolkrabbinn, sem ekki lét sér þetta vel líka og vann að því að koma í veg fyrir þetta. Ekki veit ég um þátt hæstv. samgrh. í því, en það hafa aðrir orðið til þess að draga fram sínar skoðanir á því.
    Við vorum fyrir örfáum dögum að fá sundurliðun yfir Færeyjasiglingarnar á síðasta ári. Þegar það bætist við þau skjöl sem við fengum í enduðum nóvember á sl. ári frá Ríkisendurskoðun, sem staðfesti að Færeyjasiglingarnar voru reknar með hagnaði, var það ýmislegt annað sem hæstv. samgrh. hélt fram, m.a. að flutningamagnið hefði minnkað svo mikið að það væri ekki forsvaranlegt að halda því áfram. Hér er ég með yfirlit yfir flutningamagn mánuð fyrir mánuð á siglingaleiðinni á milli Íslands og Færeyja. Það var ekki fyrr en í nóvember og desember sem flutningarnir detta niður þegar öllum var ljóst að hverju stefndi um framtíð þessa fyrirtækis. Þessar siglingar voru ábatasamar fyrir fyrirtækið og því hagkvæmar fyrir ríkissjóð. Sú ákvörðun að fyrirskipa að þeim skuli hætt rýrði söluverð eignanna og vann því gegn 2. tölulið í niðurlagi skýrsluhöfunda um að hámarka tekjur ríkissjóðs af sölu eigna. Það var mikið skynsamlegra að selja fyrirtækið í fullum rekstri með öll sambönd en að brjóta niður og selja svo.
    Nú vil ég, virðulegur forseti, koma að því máli sem e.t.v. þykir hvað mestum tíðindum sæta. Ég er tilbúinn til þess, forseti, af því ég á nokkurt mál eftir enn að gera kaflaskil á ræðu minni nú ef forseti vill.