Lánasjóður íslenskra námsmanna

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:16:39 (6662)


     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Það hafa staðið miklar deilur um 6. gr. frv. og því hefur verið haldið fram að hún muni draga úr möguleikum manna til að stunda nám sitt með eðlilegum hætti. Við atkvæðagreiðslu um greinina við 2. umr. sat ég hjá. Ég vil að það komi fram að sú vinna sem hefur farið fram af hálfu þingsins á þessu frv. hefur leitt til fjölmargra breytinga sem allar hafa verið til verulegra bóta frá hinni upphaflegu gerð frv. Ég hef í samstarfi við aðra stjórnarliða stutt þær breytingar, staðið að þeim og ég mun þess vegna þrátt fyrir 6. gr. ekki skorast undan því samkomulagi sem gert var við þá vinnu. Ég ítreka það hins vegar að leiði reynslan í ljós að 6. gr. hindri menn í að stunda nám sitt með eðlilegum hætti, þá áskil ég mér allan rétt til að eiga þátt að breytingum á því ákvæði í framtíðinni, enda sýnist mér nú að það sé að skapast vilji til þess innan stjórnarliðsins, jafnvel innan Sjálfstfl. Ég segi því, virðulegi forseti, að þessu sinni já.