Lánasjóður íslenskra námsmanna

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:20:46 (6664)


     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn er nú að takast á sínum skamma valdaferli, ef frv. þetta verður nú gert að lögum, að hrinda í framkvæmd enn einni aðförinni að velferðarkerfi því sem tekist hefur að byggja upp á undanförnum áratugum. Í þetta sinn er ráðist að námsmönnum og því dýrmæta markmiði að gera öllum kleift að stunda nám óháð efnahag og búsetu er nú fórnað. Það er dapurlegt hlutskipti nokkurra hv. þm. sem a.m.k. á hátíðarstundum vilja kenna sig við jafnaðarmennsku. Ég á þar reyndar ekki við alla hv. þm. Alþfl., þeir eru ekki allir jafnaðarmenn, en sumir þeirra eru það nú reyndar enn þá. Það er dapurlegt hlutverk þeirra ágætu manna sem telja sig jafnaðarmenn að taka nú þátt í þessari aðför íhaldsaflanna í landinu að jafnrétti þegnanna til náms.
    Virðulegi forseti. Ég er algerlega andvígur þessu frv. og segi því nei.