Afkoma landbúnaðarins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 16:16:43 (6686)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á málefnum landbúnaðarins nú. Ég geri mér fyllilega ljóst hvers vegna hann gerir það. Hann gerir það vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar í málefnum bænda. Hann gerir það vegna þess að menn hafa látið tímann líða og það heldur áfram að halla undan í sveitum landsins. Öllum þeim sem tóku þátt í kosningabaráttunni á sl. vori kom saman um að það ætti jafnvel að gera betur við bændur en í búvörusamningnum stóð. En hvað hefur verið gert? Tekjur bænda hafa verið skertar meira. Hv. stjórnarliðar hafa einmitt tekið þátt í því. Þeir hafa ekkert sett í fjárlög og engar fyrirætlanir verið með uppi um að spýta einhverju lífi í atvinnulífið í sveitum. Það sem hefði þurft að fylgja þeim aðgerðum sem eiga að tengjast búvörusamningnum eru fyrst og fremst ný atvinnutækifæri í sveitum. Það ættu að vera núna í burðarliðnum aðgerðir sem mundu auka atvinnu um sveitir landsins. Ef menn mæta á fundum hjá bændum og bændafólki úti um allt land er það efst í huga fólksins þar að bæta samgöngur til að auka möguleikana á nýjum atvinnutækifærum. Þar ber öllum saman um að betri samgöngur séu hornsteinninn. Þetta mál ræddum við ítrekað í samgn. í vetur. Við vorum að reyna að fá menn til að taka þátt í því að auka fjármagn til samgöngumála á þessum forsendum m.a. Það var ekki á það hlustað.