Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

147. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 22:33:00 (6726)

     Ólafur Þ. Þórðarson (frh.) :
    Herra forseti. Mér skilst að hæstv. forsrh. hafi vikið nokkrum orðum að minni ræðumennsku varðandi þessa skýrslu. Ég hef því verið að hugleiða hvernig sá texti verður þegar hann segir frá lokum þeirrar ræðumennsku. Það er mjög trúlegt að það verði eitthvað á þann veg að ég hafi hafið ræðu mína í svartasta skammdeginu en lokið henni þegar nótt tók að birta um vorið. Og auðvitað fer það svo eftir því hversu mikið hann leggur upp úr því að sannleikurinn komi í ljós hvort hann bætir einhverju fleiru við. En hvað um það. Við erum þolinmóðir, þessir þingmenn í stjórnarandstöðunni, og vitum að bíðendur hafa byr en bráðir andróðra.
    Ég lít svo á að það sé rétt að byrja á að víkja að þeirri kveðju sem formaður stjórnar bankaráðs Seðlabankans sendi Byggðastofnun í hálftíma ræðu sem hann flutti þegar ársskýrsla bankans var kynnt. Það verður að taka fram fyrst að Seðlabankinn hefur aldrei áður átt svo merkilegan formann að hann fengi hálftíma til að flytja þar ræðu sína. Það segir sitt um hvað sum embætti geta vaxið að mannvirðingu eftir því hverjir gegna.
    Þar var vikið að störfum Byggðastofnunar og minni heimabyggð, Súgandafirði. Það var fagnað yfir því að tvö myndarleg fiskvinnslufyrirtæki á Vestfjörðum hefðu komið þar inn í atvinnurekstur án þess að

hin dauða hönd sjóðakerfisins kæmi þar nema mjög lítillega nærri. Ekki veit ég hvers vegna hv. 1. þm. Vestf. var send þessi kveðja á sínum tíma á aðalfundi Seðlabankans. Sannleikurinn er samt sá og það vita þeir sem komu nálægt því máli að án sjóðakerfisins, án Byggðastofnunar hefði það ekki orðið að veruleika. Og merkilegt má það vera ef þeir menn sem þannig tala eiga mikið erindi upp í ræðustól undir þeim kringumstæðum þegar Seðlabankinn heldur sína ársskýrslu og leita sér ekki betur upplýsinga um það sem raunverulega gerðist og er að gerast hjá hinum ýmsu stofnunum ríkisins heldur leggja meira upp úr því að koma áróðri áleiðis, ófrægingaráróðri um störf stofnana, m.a. Byggðastofnunar.
    Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á þessu. Og vissulega sakna ég þess að hv. 1. þm. Vestf. er ekki viðstaddur. En ég hef trú á því að hann mundi bera þeim staðreyndum vitni að Byggðastofnun hefur unnið mikið verk og gott í því að stuðla að því að fyrirtæki vinni saman. Meira að segja er það svo að sá maður sem þannig talaði á fundi Seðlabankans þarf stutt að rekja sínar ættir til manna sem þekktu sjóðakerfið. Það skyldi þó aldrei vera að það sé verið að reyna að klóra yfir eitthvað með svona yfirlýsingum? En hvað um það. Kveðjan var send.
    Hitt er svo annað mál að umsvifin í atvinnulífinu við Súgandafjörð hjá því fyrirtæki sem nú starfar þar miðað við fyrirtækið sem starfaði áður, þó að nafnið sé það sama, hafa í heild minnkað verulega. Sem betur fer hefur sókn smábáta komið þar á móti til góðs að nokkru leyti.
    Annað atriði, sem ég tel að rétt sé að þingheimur hugleiði því að það hefur örugglega haft veruleg áhrif á þróun sögunnar, var þegar himnasendingin fór á vitlausan stað. Það er spauglaust þegar slíkt gerist. Himnasendingin, sem beðið var fyrir í barnslegri einlægni á sínum tíma, hafnaði nefnilega eftir því sem heimildir greina hjá kaupfélagsstjóranum. Og það er ekki skrýtið þegar slík mistök hafa orðið í boðsendingu að menn annaðhvort tapi trúnni eða fyllist öfund í garð þeirra manna sem komið hafa nálægt samvinnuhreyfingunni. Ekki veit ég hvort bæði hefur gerst, en annað sýnist mér að örugglega hafi gerst.
     Nú segi ég þetta ekki vegna þess að mér sýnist að það sé neitt athugavert við það gagnvart mannlegu eðli. En hitt er svo út af fyrir sig spurning í ljósi vaxandi þroska með aldrinum hvort menn endurskoði fyrri afstöðu í þessum efnum og efist kannski um það, sem áður þótti svo auðsætt, að þessi sending, blessað tyggigúmmíið, hafi e.t.v. aldrei komið af himnum. Það er aftur á móti sú mikla endurskoðun hugans sem þyrfti að fara fram vegna þess að fyrst þeir í Sovétríkjunum fóru út í endurskoðun með góðum árangri er ekki víst nema það sé einnig hagstætt fyrir hæstv. forsrh. að fara í vissa sögulega endurskoðun til að skipuleggja betur þá samfélagssýn sem hann horfir til.
    Ég hygg að sú skýrsla sem hann talaði fyrir hér, skýrsla Byggðastofnunar, sem inniheldur ýmislegt sem þar hefur verið árvisst, sé að því leyti sérstæð að þar er drepið á bls. 18 á stöðu sjávarútvegsins í Evrópu. Þar er vikið að því að sá ferski fiskur sem berst að landi á mörkuðunum í Bretlandi og Þýskalandi sé fyrst og fremst frá Íslandi. Hann er að mjög óverulegum hluta frá Noregi. Og það sem merkilegra er í þessu sambandi: Það virðast engin teikn á lofti vera í þá veru að Evrópubandalagið nái nokkurri vitrænni stjórn á sínum fiskveiðum. Ástæðan er sú að fiskifræðingunum er uppálagt að gera tillögur um fiskveiðar út frá opinberum gögnum um veiðarnar. En engum er ljósara en fiskifræðingum sjálfum að opinberu gögnin um veiðarnar eru alrangar, skýrslurnar sem koma frá Spáni um það sem þeir hafa veitt, skýrslurnar sem koma frá Frakklandi og Portúgal sömuleiðis. Það er ekki af illgirni við þessar þjóðir sem ég tel upp þessi nöfn heldur hitt að það er staðreynd að skýrslurnar sem koma frá þessum aðilum eru hreint ekki martækar varðandi veiðarnar. Fiskifræðingunum er aftur á móti uppálagt að standa þannig að málum að eftir þessum tölum sé farið. Niðurstaðan er sú að þeirra tillögur eru ekki marktækar. Og merkilegt var það þegar einn Þjóðverji sagði við okkur fulltrúa Byggðastofnunar í Þýskalandi að við hefðum fiskveiðistefnu sem væri til fyrirmyndar og hann átti við, svo maður sleppi nú öllum glettum sem þar urðu í sambandi við þetta, fiskveiðistefnu sem hefði tekist að verja fiskstofnana miklu betur en tekist hefði í Evrópu. Það var það sem hann öfundaði okkur af. Og einmitt vegna þess að þetta blasir við sem staðreynd hlýtur maður að skilja betur það sem stendur í skýrslunni, að það er mjög margþættur stuðningur við fiskvinnsluna í Evrópu. Stuðningurinn við hana er vegna þess að þeir eru ákveðnir í því að ná óunnu hráefni inn á þennan markað ef nokkur kostur er.
    Ég held að þó að við höfum tollfríðindi, fengjum tollfríðindi með EES eins og menn eru hér að tala um, getum við ekki keppt við fyrirtæki sem eru þannig upp byggð að það eru kannski 40--60% af stofnfénu sem fór í þau sem eru styrkir og eru þannig upp byggð að ef þau fækka mönnum á atvinnuleysisskrá leiði það til þess að þau fái greitt 85% af launakostnaðinum fyrsta árið og svo færi þetta fallandi niður á næstu fimm árum, þ.e. ef það eru ný fyrirtæki sem taka menn út af atvinnuleysisskrá. Það er þetta sem er hin mikla alvara í viðskiptunum við Evrópu. Þeir hafa peninga sem þeir nota frá öðrum greinum til þess að veita þetta fjármagn til þeirra svæða þar sem sjávarútvegsvinnslan fer fram og eru í reynd að berjast við atvinnuleysið.
    Ég held líka að sá fiskur sem þeir fá frá Alaska, ufsinn, og frá Nýja-Sjálandi, sem hér er minnst á, þessar fisktegundir standist ekki gæðasamanburð við þann fisk sem við höfum að bjóða. Þess vegna verð ég að segja það eins og er að ég held að okkar styrkleiki í viðskiptunum við Evrópu hljóti að liggja í því að auka sókn okkar inn á aðra markaði þannig að þeir verði eilíflega að leita á ef þeir vilja ná héðan meiri fiski, þeir verði virkilega að leita eftir honum. Ef þú ert með þunga markaðssókn inn í ákveðið land er e.t.v. hægt að segja að seljandinn borgi tollinn. En ef það er öfugt, ef það er kaupandinn sem sækir fast að fá

keypta vöru af einhverju landi, er það kaupandinn sem verður að borga toll ef viðkomandi land hefur sett tollmúr utan um sig. Ég held þess vegna að þetta sé eitt af því sem við verðum að hugleiða varðandi byggðamálin þegar menn koma að því að glíma við þau mál út frá því sjónarhorni, sem sumir hafa verið að tala um, að við sækjum eitthvert gull í greipar nýlenduþjóðanna ef við fáum einhvern tollafslátt þar frekar en orðið er. Mér sýnist að þar séu stór ljón í veginum og skynsamlegra að snúa sér að öðrum svæðum.
    Ég vil víkja örlítið að rekstrarskilyrðum atvinnulífsins vegna þess að það hlýtur að vera aðalatriðið í umræðum um byggðamál og byggðaskýrslu þar af leiðandi. Hér kemur fram að Byggðastofnun tapaði yfir 10% af eigin fé á seinasta ári. En hver voru rekstrarskilyrðin sem við erum að stefna í? Hvað þýðir það fyrir stofnun eins og Byggðastofnun, sem er yfirleitt með veðin aftast, ef menn telja sig ekki þurfa að tryggja grundvallaratvinnuvegunum hallalaus rekstrarskilyrði? Ég ætla ekki, herra forseti, að fara að lesa hér langa töflu en, með leyfi forseta, vil ég lesa hér upp úr Þjóðarbúskapnum, framvindan 1991 og horfur 1992, þar sem sagt er um botnfiskvinnslu. Þar stendur á bls. 14:
    Frysting. Hagnaður af frystingu 1990 var 3%. Hún var 2% 1991 og hún varð mínus 8% í janúar 1992.
    Söltun. Hún var með halla 1990, 3,5%. Hallinn fer í 6% 1991 og hann fer í 8,5% 1992.
    Frystiskipin aftur á móti halda hagnaði þessi ár öll. 10,2% 1990, 15% hagnaður er 1991 og 11,5% 1992.
    Þetta segir að þróunin er sú með öllu óbreyttu að menn forða sér á handahlaupum á haf út. Ef það væri algerlega jafnt af Alþingis hálfu búið að þessum greinum sætu frystitogararnir uppi með tvær skyldur. Annars vegar sömu kröfu um aðbúnað og hollustuhætti og sömu kröfur um öryggi á vinnustöðum. Svo er ekki. Alþingi hefur sett miklar kröfur á frystihúsin, en maður spyr: Er það e.t.v. rétt að nokkuð vanti á að vökulögin séu virt á frystitogurunum í dag? Það er alvarlegt mál ef það er ekki og athyglisvert hvað slys á fiskiflotanum hafa aukist.
    Ég held að það sé rétt engu að síður að geta þess að í þeim tölum sem ég las upp hafa greiðslur í Verðjöfnunarsjóð verið dregnar frá. Ég get ekki látið hjá líða í þessu sambandi að geta þess að í helstu niðurstöðum í sama riti á bls. 5 segja þeir, með leyfi forseta:
    ,,Tvöfalt meiri halli varð í viðskiptum við útlönd á árinu 1991 en árið áður. Þetta stafaði einkum af slaka í hagstjórn í aðdraganda kosninganna til Alþingis í apríl í fyrra. Reiknað er með að viðskiptahallinn minnki á þessu ári, fari úr tæplega 19 milljörðum kr. í um 15 milljarða kr. Samkvæmt þessu verður hallinn 3,9% af landframleiðslu á þessu ári samanborið við 4,9% í fyrra.``
    Það er kannski rétt að geta þess að Flugleiðir munu fjárfesta á um tveimur árum yfir 17 milljarða. Og það er inni í hallanum við útlönd.
    En hvernig stóðu menn nú að á fyrri hluta ársins varðandi Verðjöfnunarsjóðinn? Er ekki fróðlegt að skoða það örlítið? Hvaða hagstjórn var notuð? Með leyfi forseta les ég á bls. 12 upp úr sömu bók örfá atriði:
    ,,Á árinu 1990 greiddu botnfiskgreinarnar um 550 millj. í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins sem tók til starfa í júlí það ár. Þetta var um 1% af útflutningsverðmæti botnfisks á því ári. Á árinu 1991 hækkuðu þessar greiðslur og námu hæst 5% af útflutningsverðmæti botnfisks í apríl 1991.``
    Þegar hagstjórnin var vonlaus var farið í 5% og hvað er verið að gera fyrir þessa hagstjórn í dag? Hvað er verið að gera við hana? Það er verið að nota hana núna til að greiða út, m.a. vegna þess að gengi íslensku krónunnar er því miður of hátt skráð. Með því að segja þetta er ekki verið að taka afstöðu til þess út af fyrir sig hvort sú stefna stjórnvalda að stinga sér í ölduna, reyna að hafa hér minni verðbólgu en í öðrum löndum og jafna þannig gengið á nýjan leik, gengur upp. En þegar viðskiptahallinn við útlönd er jafnmikill og hann hefur verið er gengið ekki rétt skráð. Það vita þeir sem við efnahagsmál fást.
    Ég verð líka að segja það horft á þessa hluti að sjávarútvegurinn er þess vegna líka á sama tíma e.t.v., það er ekki búið að afgreiða það mál, þvingaður til þess að greiða í reynd aukna skatta í ríkissjóð með því frv. sem liggur fyrir um skattlagningu sjóðakerfisins. Fiskveiðasjóður heldur að þar geti verið um 300 millj. að ræða. Erum við þá kannski að taka í reynd 300 millj. úr Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins til að færa þær inn í ríkissjóð? Er það það sem við vorum að flýta fyrir í kvöld?
    Ég held að Íslendingar þurfi, þó að þeir deili í stjórnmálum, að aga sinn málflutning og sinn boðskap til þjóðarinnar við það að þeir haldi sig við staðreyndir. Það er ákaflega hæpin kenning, þó að menn vilji vera hliðhollir ríkisstjórn sem tekur við, að kenna því um að kosningar setji allt á annan endann þegar séð er að í staðinn fyrir að leyfa þessum peningum nú að streyma út í þjóðfélagið og segja: Sjáið þið hvað hagvöxturinn er orðinn góður, sjáið þið hve vel hefur verið stjórnað, þá voru þeir settir í sjóð af því að menn voru ábyrgir og töldu að það yrði að hafa eitthvað af þessum fjármunum eftir ef það kæmi aftur slaki í viðskiptakjörin.
    Hins vegar fer ég ekki ofan af því að sú spá Þjóðhagsstofnunar að hér verði atvinnuleysi upp á 2 1 / 2 % er því miður alröng. Það er að biðja um að draumarnir séu í vil ráðnir að halda slíku fram. Hér blasir við hvort sem okkur líkar það betur eða verr að það er minni réttur til veiða á þessu ári en var á árinu í fyrra. Það blasir við að atvinnuleysi hefur enn verið að aukast og með aðhaldsaðgerðunum mun atvinnuleysið enn aukast. Það fer örugglega yfir 3%. Hvað fer það hátt? Ég ætla ekki að dæma það. Þeir

segja að það stefni í að út úr Atvinnuleysistryggingasjóði verði greiddar um 1.700 millj. á þessu ári. Það er talið að fyrir hvert stig í atvinnuleysi þurfi að greiða 600--700 millj. Ef við siglum nú hraðbyr, vegna þess að menn segja að það eigi að vera festa í efnahagsmálum, inn í meira atvinnuleysi blasir við að ekki til neinnar uppbyggingar aðeins til að lina ástand þeirra og erfiðleika sem lenda í atvinnuleysinu verðum við að greiða út milli 2--3 milljarða á ári í atvinnuleysistryggingabætur. Hér hafa menn nánast grátið í stólnum yfir því að á 20 ára tímabili Framsfl. hafi sjóðakerfið tapað um 12 milljörðum vegna þess að peningum var ráðstafað til að byggja upp atvinnulíf. Sumt af þeirri ráðstöfun gekk ekki upp, það er rétt. En hvað skyldum við vera fljótir að komast í 12 milljarðana með þeirri stefnu að auka hér atvinnuleysið og moka út þeim greiðslum í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð sem þurfa þá að fara því að ég vona að það detti engum heilvita manni í hug að halda að hægt sé að lækka atvinnutryggingagreiðslurnar. Það tekur ekki mörg ár að komast í 12 milljarða.
        En þá segja menn: En hvað með EES-samninginn? Það er ekki rætt eins og er um álverið á Keilisnesi vegna þess að það er ekki fyrirséð hvort af byggingu þess verður eða ekki á næstunni. En hvað með EES-samninginn? Það er rétt að menn spyrji. Hvert er aðalinntak hans? Það er fjórfrelsið. Það er m.a. frelsi til flutnings á fólki á milli svæða. Erum við þá að sameinast einhverju svæði þar sem atvinnuleysi er ekki til staðar? Við erum að sameinast svæði með miklu, miklu meira atvinnuleysi en er á Íslandi. Ef menn halda að þetta þýði straum Íslendinga til útlanda til að fá þar nóg störf, þá er það misskilningur. Ef þetta þýðir eitthvað, þá þýðir það að útlendingar munu streyma til landsins til að reyna að keppa við Íslendinga um þau störf sem hér eru þannig að atvinnuleysið hjá þessari þjóð mun vaxa við tiltækið. Það mun vaxa verulega við tiltækið. Þetta er alveg eins og þegar tveimur drykkjum er blandað saman, öðrum sterkum og hinum veikum. Þá verður meðaltal sem kemur út úr því. Og meðaltalið sem Íslendingar móta í þessum efnum, 250 þúsund manna þjóð, gegn þeim milljónasamfélögum sem við erum að fara að blandast, þýðir í reynd að Íslendingar munu sitja uppi með svipað atvinnuleysistig og þessar þjóðir að nokkrum árum liðnum. Því miður er mér ekki of bjart fyrir augum þegar ég horfi á þessa stöðu.
    Hv. 3. þm. Austurl. vék að stöðu landbúnaðarins í dag, sauðfjárræktarinnar. Við höfum tekið þar ákveðna stefnu. Hún er ekki sú sama og landbúnaðarstefna Evrópu. Það þýðir í reynd að við erum alfarið ófærir um að að láta íslenskan landbúnað njóta þess jafnréttis í samkeppni um markað sem eðlilegt væri. Þeir nota allt annað greiðslukerfi til stuðnings sínum landbúnaði. Ég verð þess vegna að segja það eins og er að ekki yrði nú EES til að bæta þar um í stöðunni.
    Auðvitað er það svo að vort lán býr í okkur sjálfum. Það kemur hvorki frá útlöndum né annars staðar frá. Það er ekki um annað að ræða en að standa þannig að efnahagsmálum í þessu landi að þjóðin öll sé virk í atvinnuuppbyggingunni. Það er engin lausn að segja við hluta hennar: Það eru engin störf fyrir ykkur, það er miklu betra að borga ykkur fyrir að gera ekki neitt. Ég held þess vegna að það hljóti að koma að því að það þyngist átökin á milli þeirra aðila í landinu sem vilja tryggja eðlilegt atvinnuástand og hinna sem trúa því að gjaldþrot séu liður í að hagræða í atvinnulífinu, þau séu af hinu góða, þeirra sem trúa því að atvinnuleysi sé nauðsynlegt svo að hægt sé að aga verkalýðinn, koma honum frá því að fara í verkföll, draga kjark úr leiðtogum hans, koma þeim á hnén svo að þeir hætti að biðja um meiri laun.
    Ofan á þetta allt bætist að nú virðist sá draumur, sem ég hélt að hefði siglt sinn veg í Vestfjarðaáætluninni hinni gömlu, kominn upp aftur að finna út vaxtarsvæði Íslands, vaxtarsvæðin sem við eigum að verja fé til að efla, m.a. með skatttekjum af svæðunum sem við segjum að ekki eigi að vera vaxtarsvæði. Þetta minnir óneitanlega á það sem Einar Ben. sagði: Þið viljið þeim hrasandi hrinda til falls. --- Það er ekki hægt að skilja þetta á annan veg en þann að menn vilji ýta á viss svæði. Í Vestfjarðaáætluninni var talað um að greiða flutningsstyrki frá ákveðnum svæðum inn á vaxtarsvæðin.
    Byggðastofnun heyrir undir forsrh. eins og allir vita. Þar er henni ætlað samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar að vinna að áætlunarstörfum og hún á að gera uppkast að hugmyndunum um vaxtarsvæði, benda á hvaða svæði séu líkleg, spá fram í tímann um þróun. Það er e.t.v. ekki skrýtið þó að menn horfi á það sem hefur verið að gerast. Hins vegar er það svo að í stjórn þeirrar stofnunar eru sem betur fer menn sem ég trúi að séu þeirrar gerðar að þeir vilji vinna að framför landsins alls. Það var gamla stefnan sem Framsfl. mótaði þegar hann varð til og hefur haldið sig við sem sitt stefnumál síðan. Ég vil, með leyfi forseta, lesa upp það sem sett er fram sem hugsanleg spá eða markmið fyrir árin 1993--1997 um íbúaþróun í landinu:
    ,,Á árunum 1993--1997 verði íbúaþróun í landinu þannig að jafnvægi sé í búferlaflutningum gagnvart útlöndum. Búsetuþróun innan lands verði með þeim hætti að ekki verði um að ræða fólksfækkun í neinum þéttbýlisstöðum þar sem nú búa yfir 500 manns. Vöxtur mannfjölda verði yfir meðaltali á eftirtöldum svæðum: Suðurnesjum, Eyjafirði, Austur-Skaftafellssýslu og Árnessýslu. Á eftirtöldum landsvæðum verði vöxtur mannfjölda ekki minni en helmingur landsmeðaltals: Akranessvæði, Skagafjörður, Hérað og Vestmannaeyjar. Á öðrum landsvæðum er sett það markmið að draga úr fækkun sem verið hefur um helming nema í Ísafjarðarsýslum en þar er sett það markmið að íbúafjöldi standi í stað. Á öðrum svæðum landsins er gert ráð fyrir því að áfram haldi fækkun fólks í sveitum. Þeim aðgerðum sem í þessari áætlun er að finna er ætlað að ná þessum markmiðum.``
    Það verður ekki sagt annað en þeir sem vinna við áætlunargerðina hafi hlýtt fyrirmælunum, hvort

sem þeim er það ljúft eða leitt, að gefa upp hugmyndir varðandi þessa hluti. En það hafa verið að gerast ýmsir hlutir sem ekki eru kannski alveg í takt. Á Vestfjörðum hefur fjölgað í Tálknafirði og Hólmavík. Báðir staðir eru undir 500 íbúum. ( Gripið fram í: Flateyri?) Flateyri var hátt yfir 500 manns, en þar fækkaði verulega. Svo hefur smávegis sveiflast til. Það er út af fyrir sig jákvætt. En það hafa verið fleiri staðir yfir 500 manns á Vestfjörðum. Þeir voru fjórir á tímabili. Þeir eru þrír í dag. Þannig standa nú leikar.
    Ég er nefnilega ekki búinn að sjá að það gangi allt upp eftir þessu. Akureyrarsvæðið t.d. hefur haft sína framþróun byggða á því að það voru blómleg svæði í kring sem sendu stöðugt fólk inn á Akureyri. Ef þetta uppland verður ekki til staðar stenst þetta svæði ekki frekar en önnur. Það eru þess vegna miklir draumórar að gera ráð fyrir að það sé hægt að verja byggðaþróunina með því að taka upplandið frá ákveðnum svæðum, frá ákveðnum byggðakjörnum. Ég er sannfærður um að þeir sem nú trúa því að það sé hægt að reka borgríki á Íslandi án upplands eigi eftir að standa fyrir framan sömu staðreyndina, hafi þeir völd til að framkvæma þá stefnu, og menn stóðu frammi fyrir í Grikklandi til forna. Borgríkið stenst ekki. Það er höfuðatriði fyrir þetta land og það er höfuðatriði fyrir Reykjavík að gera sér grein fyrir því að það er betra fyrir hana að vera höfuðborg í blómlegu landi þar sem mörg önnur byggðarlög eru í vexti en sitja eftir sem eina borg svæðisins eða eina byggðarlagið sem hefur styrkleika. Þess vegna hlýtur það að vera kjarnaatriði að gera sér grein fyrir því að við verðum að verja til atvinnuuppbyggingar á Íslandi þeim fjármunum sem þarf til að tryggja áframhaldandi hagvöxt í landinu, til að tryggja að atvinnuleysi verði ekki til staðar nema í mjög óverulegum mæli. Við fáum þessa fjármuni trúlega ekki fram alla með frjálsum ákvörðunum einstaklinga til að leggja fé í atvinnureksturinn. Ríkisvaldið verður að mínu viti að leggja fram áhættufé í þessu skyni. Það verður að gera það.
    En tengjum þetta örlítið betur hugmyndunum um einkavæðinguna. Hvað gerist ef íslenska ríkið selur flest sín stórfyrirtæki? Segjum að það sé ákveðin upphæð sem framtaksmenn þessa lands sem vilja leggja fé í atvinnurekstur séu reiðubúnir að leggja fram. Ef þeir fjármunir fara næsta áratuginn eða þennan áratug allir í að kaupa fyrirtæki af ríkinu verður engin framþróun. Þá fara engir peningar í uppbyggingu á atvinnulífinu. Þá verða bara eigendaskipti á vissum fyrirtækjum. Þess vegna hlýtur að vera grundvallaratriði að gera sér grein fyrir því að þessir fjármunir þurfa að fara í að skapa ný störf í landinu. Þeir þurfa að fara í það að skapa ný fyrirtæki og fleiri störf hjá fyrirtækjunum sem fyrir eru. Það hlýtur einasti maður að gera sér grein fyrir því að það gerast engir stórir eða jákvæðir hlutir uppi á Akranesi við það eitt að Akurnesingar eyði næstu 10--15 árunum í að kaupa Sementsverksmiðjuna af ríkinu. Ef aftur á móti yrði byggð önnur verksmiðja sem þeir ættu sjálfir fyrir þá upphæð og risi á Akranesi og bættist við þá atvinnustarfsemi sem þar væri, þá væru að gerast þar stórir hlutir. Það er grundvallaratriði að gera sér grein fyrir þessu vegna þess að þetta var það sem varð Thatcher að falli, hagvöxturinn í Bretlandi átti sér ekki stað eins og t.d. í Þýskalandi og á öðrum svæðum Evrópu.
    Nei, það er grundvallaratriði að mínu viti að gera sér grein fyrir því að það hefur verið hið blandaða hagkerfi sem hefur skilað okkur framþróuninni og það verður framþróun því aðeins á þessum áratug og þeim næsta ef við höldum áfram að nota blandað hagkerfi.
    Við þurfum með réttu að setja stórfé í ferðamannaþjónustuna. Við þurfum að setja stórfé í hana. Þar hefur verið gífurleg sókn. Þar eru möguleikarnir óhemjumiklir. Þar erum við að hluta til að nýta fjárfestingu sem fyrir er í landinu. Við erum að nýta vegakerfið. Við erum að nýta húsnæðið sem er til til sveita og einnig á höfuðborgarsvæðinu, húsnæði sem þessi þjóð á vegna þess að Íslendingar búa vel. Og ég er sannfærður um að með stóraukinni sókn útlendinga til landsins verður mönnum það ljóst. Þeir eru að koma, þeir hafa verið að koma. Þá verður mönnum ljóst að það verður að dreifa þeim um landið. Það þýðir ekki að senda þá alla á sömu staðina og fara í örtröð með vissar perlur í íslenskri náttúru. Við þurfum að senda þá á fleiri staði. Slíkir staðir eru m.a. til á Vestfjörðum. Til þess þurfum við að hraða uppbyggingu vegakerfisins.
    En verður skilningur á þessu? Er þetta það sem við getum búist við þegar við horfum á stefnuna í byggðamálum? Aftur staldra ég við það sem mér virðist blasa við. Það er draumurinn um að hér verði hagvöxtur í landinu með því eina móti að einstaklingarnir kaupi fyrirtækin af ríkinu. Í reynd er það svo að sumir frjálshyggjupostularnir tala um að selja þau á hálfvirði eða nánast gefa þau. Og það sem merkilegra er: Þeir hafa gert það. Hlutabréf hefur verið hægt að selja án þess að Alþingi þyrfti að samþykkja söluna og sé skoðað verð á hlutabréfum sem seld hafa verið og ríkið hefur átt kemur sú merkilega staðreynd í ljós að sumir ráðherrar á Íslandi telja réttast að gefa þessa hluti. (Gripið fram í.) Nei, þeir eru að sjálfsögðu vandlátir. Þeir leggja mat á hverjir eigi að fá slíkar gjafir.
    En ég hélt að núv. ríkisstjórn væri hlynnt samkeppni. Ég hélt að hún væri hlynnt því. Það er kannski vegna þess að ég las stefnuyfirlýsinguna sem kom fram á sínum tíma. En undur og stórmerki! Ekki veit ég hvort ég fæ að tala fyrir þeirri merku skýrslu sem kom frá utanrrn. varðandi samninginn á Keflavíkurflugvelli. Það er búið að tryggja einokun mörg ár fram í tímann á afgreiðslunni þar, búið að tryggja að Keflavíkurflugvöllur, sem hefði getað skapað mörgum atvinnutækifæri með meiri fragtflutningum til og frá landinu, muni ekki gera það vegna þeirrar gjaldskrár sem þar er haldið uppi. Kannski ætti hæstv. forsrh. að lesa það sem Ríkisendurskoðun segir um þetta vegna þess að það er borin von að utanrrh. leggist í slíkan lestur.
    En hitt er þó alvarlegast af öllu að undir geislabrosi, glampandi brosi aðstoðarmanns utanrrh. í

greinarskrifum í Dagblaðinu, þar sem hann ber það á ritstjóra Dagblaðsins að hafa farið með lygi, segir þessi aðstoðarmaður einfaldlega ekki satt. Hann lætur í það skína að einhliða geti ríkið tekið þennan samning úr gildi. En það er ekki á dagskrá undir þessari umræðu. Kannski á hún að eiga sér stað og ekki einu sinni víst að forsrh. hafi vitað af því hvað utanrrh. var að gera.
    En merkilegt er það. Á sama tíma og menn loka þessum atvinnutækifærum birtist frétt í íslenska sjónvarpinu frá Bandaríkjunum þar sem kaupsýslumenn í Bandaríkjunum tala um að það þurfi að koma upp vöruflutningaflugvelli á Grænlandi. Ja, það er ekki skrýtið þó að einn flugráðsmaðurinn hafi farið til Grænlands í vetur! Það er sko ekki skrýtið. Er það ekki hámark á vitleysunni ef okkar stjórnarhættir yfir þeim flugvelli sem við nú fengum, eigum við ekki að segja á mjög þokkalegum kjörum þó ekki sé meira sagt, eru á þann veg að við leggjum mest upp úr því að koma í veg fyrir að hann verði til þess að auka þjóðartekjur Íslendinga með auknum umsvifum í flutningum?
    Ég hóf þessa ræðu, eins og kom fram í máli mínu þegar ég byrjaði í kvöld, þegar nóttin var dimm og það er farið að vora. Austurvöllur er orðinn grænn og námsmenn hafa lagt blómsveig að fótstalli Jóns Sigurðssonar. Það er kannski tímanna tákn að á sama tíma og við erum að tapa trúnni, þeir sem stjórna þessu landi, á byggðum landsins virðast menn líka vera að tapa trúnni á að það sé arðbært að mennta æskuna. En við skulum vona að það birti yfir og hæstv. forsrh. geri það sem hann gerði þegar hann var borgarstjóri í Reykjavík. Þá ferðaðist hann um borgina, hann skoðaði hana, hann kynnti sér hana. Og hans verk sjást í borginni. Þau skera sig úr því hann hefur verið aðdáandi hinna bognu lína. Það er eiginlega hin rómverska byggingarlist, ef ég kann þetta rétt, sem er þar til staðar. Og nú vona ég að hann hafi sömu vinnubrögð, að hann fari og skoði landið í sumar, hugleiði á ferð sinni hvort ekki sé þetta fagurt land, álitlegt til búsetu á fleiri stöðum en hér. Kannski rísa þá mannvirki úti á landi. Ég get vel sætt mig við það þó þau verði ekki öll með hvössum hornum ef skoðanamunurinn verður ekki meiri á milli okkar í þeim efnum. En þetta land verður að eiga forustumenn sem treysta því að það sé þess virði að byggja það því eitt ætla ég að segja að lokum:
    Það bíða erlendis milljónir manna eftir því að komast úr helsi flóttamannabúða eða frá stað eins og Hong Kong þar sem Kínverjar munu taka yfir, komast á stað þar sem þeir fá að vera við sæmilegar aðstæður. Þeir hafa m.a. spurt hvort þeir mættu koma til Íslands, m.a. milljónamæringar frá Hong Kong. Það eina sem þeir hafa sett sem skilyrði fyrir því að fjárfesta var að þeir fengju þá örugglega vegabréf og mættu setjast hér að, yrðu íslenskir ríkisborgrar. Svo merkilegt sem það er trúa þessir menn því að það sé byggilegt. Þeir aðilar sem ég minntist á leituðu eftir landi á Vestfjörðum.