Atvinnuleysistryggingar

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 12:06:32 (6774)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það voru allir sammála því í hv. heilbr.- og trn. að það ber að fá þetta mál samþykkt hér á þinginu enda er ég ekki að tefja fyrir því á nokkurn hátt. Ég hafði þennan fyrirvara í umræðunni fyrst og fremst til þess að vekja athygli á stöðu sjóðsins. Ég skrifaði það niður á fundi heilbr.- og trn. í gær að þeir fulltrúar sem þar mættu telja að það vantaði 480--500 millj. kr. Þá var gengið út frá því 1% atvinnuleysi þýddi 450--500 millj. kr. á ári. Við spurðum þá nánar um það en fengum hins vegar ekki alveg skýr svör. Nú hef ég heyrt hærri tölur en þær og hef heyrt að 1% atvinnuleysi þýði 600--700 millj. kr. Það væri fróðlegt að fá upplýst hjá hæstv. fjmrh. hvort það hefur verið reiknað út hvað þetta þýðir. Ég vil spyrja hann að því hvort hann geti upplýst þingið um það. Hins vegar þegar ég áætlaði að þessi útgjöld yrðu 800 millj. þá gekk ég út frá þeirri upphæð sem þeir fulltrúar, sem mættu til fundar við nefndina, gerðu ráð fyrir að 1% kostaði.
    Ég geri mér alveg grein fyrir því, hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson, að um er að ræða spá um atvinnuleysi. Það er hins vegar staðfest að atvinnuleysi núna er 3%. En spáin er að það muni a.m.k. verða 3% og við verðum auðvitað að taka eitthvert mark á þeim spám sem opinberar stofnanir láta okkur hafa í hendur til þess að við getum brugðist við miðað við þær aðstæður sem hugsanlega munu skapast og ég var ekkert að láta að því liggja, síður en svo, að þetta væru staðreyndirnar. Það eru hins vegar staðreynd að atvinnuleysi núna er 3%.