Skipaútgerð ríkisins

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 12:58:35 (6785)

     Jón Helgason (andsvar) :
    Herra forseti. Það er alger misskilningur ef hæstv. samgrh. hefur skilið orð mín þannig að ég sé út af fyrir sig á móti því að Samskip séu búin að taka yfir þessa þjónustu og kaupa eitthvað af skipum, eitt skip mun vera til. Þvert á móti lögðum við þingmenn Framsfl. fram frv. um að Skipaútgerðinni yrði breytt í hlutafélag og þegar í stað farið að selja það að einhverjum hluta a.m.k. en ég sagði að ég teldi að slík leið hefði verið hagkvæmari fyrir ríkið jafnvel þó að hún leiddi til sömu niðurstöðu, þ.e. sameinast öðru fyrirtæki eins og Samskipum. Það er þveröfugt við að sem ráðherra var að halda fram, að ég væri andvígur því. En ég vitnaði í tölurnar sem komu fram hjá hv. 5. þm. Vestf. um það hvað hefði tapast vegna þess að vinnubrögð voru ekki nógu góð án þess að ég væri að tefja tímann með því að endurtaka það frekar.