Skattskylda innlánsstofnana

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 15:18:00 (6805)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Ég vona, hæstv. forseti, að menn telji það til bóta að ég veiti andsvör og reyni þá að svara því sem til mín er beint. Í fyrsta lagi vil ég segja það að frv. kann að hafa verið ekki nægilega vel unnið í upphafi en ég vil þakka hv. nefnd sérstaklega fyrir að hafa tekið þátt í að vinna frv. í þann búning sem það er nú. Það er að mínu viti afskaplega gott frv. úr þeim efnivið sem ég tók við þegar ég kom í fjmrn. og þakka jafnframt forvera mínum fyrir það sem hann lagði til málanna þá.
    Í öðru lagi vil ég segja að mál sjávarútvegsins hafa að sjálfsögðu verið til umræðu í ríkisstjórninni og eru ávallt til umræðu annað slagið þegar ástæða er til. Ég minni á að fyrr á þessu ári eða um áramótin var ákveðið að atvinnutryggingardeild Byggðasjóðs framlengdi sín lán, jafnframt Fiskveiðasjóður og nú síðast er verið að vinna að því að Verðjöfnunarsjóði verði deilt út eftir ákveðnum reglum. Sú aðgerð ein mun styrkja stöðu Fiskveiðasjóðs verulega. Auðvitað er vandinn fyrir hendi í sjávarútveginum en það sem við erum að fást við hér er að samræma skattareglur eins og ég hef margoft tekið fram. Ég tel að aðgerðirnar varðandi Verðjöfnunarsjóðinn séu þær sem skipta sköpum fyrir sjávarútveginn, a.m.k. á næstu missirum.
    Vegna yfirlýsingar framkvæmdastjóra Fiskveiðasjóðs vil ég eingöngu segja að það sem eftir honum er haft er ekki rökstutt. Ég hef heyrt þetta áður. Nákvæmlega sama orðalag var notað við afgreiðslu lánsfjárlaganna þegar rætt var um ríkisábyrgð á sjóðnum. Ég hef engar aðstæður til að dæma um hvort þetta er rétt eða rangt en ég bendi á að það er nákvæmlega sama staða uppi hjá sjóðnum nú og var hjá ríkisbönkunum þegar skattlagning þeirra var ákveðin, hvorki verri né betri. Staða Fiskveiðasjóðs er ákaflega góð.