Áhrif samnings um Evrópska efnahagssvæðið á innflutning búvara

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 16:42:40 (6819)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp og mér sýnist vera full þörf á. Staðreyndin er sú að hæstv. utanrrh. hefur byggt allan sinn málflutning á því og aldrei mér vitanlega nokkru sinni gert þar á nokkurn fyrirvara að vörn Íslands mundi felast í m.a. ótakmörkuðum rétti til að beita jöfnunargjöldum að fullu gagnvart þeim vörutegundum eða vöruflokkum sem opnað yrði að einhverju leyti fyrir innflutning á. Þess vegna hlýtur maður að spyrja sig að því hvernig getur það gerst þrátt fyrir þennan málflutning utanrrh. að texti af þessu tagi komist inn í samninginn og satt best að segja ótrúlegur sem hann er, sérstaklega ef enska útgáfan er tekin sem er á vissan hátt afdráttarlausari heldur en sú íslenska þýðing sem hér var farið með.
    Hæstv. landbrh. reyndi að vísu að sannfæra okkur um að í þessu fælust ekki hættur og las þarna upp nokkurn lista og nefndi m.a. vörur eins og jógúrt og smjör sem væru sérstaklega upp taldar að jöfnunargjaldið tæki ekki til og út af fyrir sig dreg ég það ekki í efa en ég náði ekki alveg röksemdafærslunni þegar kom að öðrum vöruflokkum. Mér sýndist hún vera afleit og ég held að við hljótum að gera kröfu til að þar verði skýrari svör fram reidd. Það er auðvitað ekki hægt í símskeytastíl af því tagi sem hér þarf að tíðka í svona skammri umræðu en þau svör verða að fást. Sé einhver vafi þarna á ferðum þá er það auðvitað óviðunandi. Þetta er enn einn frágangurinn í þessum málum sem er gersamlega ófullnægjandi fyrir íslenska hagsmuni ef einhver minnsti vafi er á því að við getum að fullu gagnvart öllum vörutegundum sem þarna kæmu hugsanlega til greina beitt ótakmörkuðum jöfnunargjöldum.