Áhrif samnings um Evrópska efnahagssvæðið á innflutning búvara

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 17:07:00 (6830)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Fyrst út af fyrirspurn hv. 1. þm. Norðurl. v. Ákveðið hefur verið að hafa samband við Sláturfélag Suðurlands og aðra sláturleyfishafa vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í sölumálum dilkakjöts. Ég vil segja það almennt um þær umræður sem hér hafa farið fram að þannig var ástandið, þegar þessi ríkisstjórn var mynduð, að ekki hafði verið mætt á þeim fundum þar sem fjallað var um landbúnaðarmál í þeim samningaviðræðum sem fram fóru milli EFTA og Evrópubandalagsins. Vegna þeirrar framkomu fyrri ríkisstjórnar var engum sérstökum fyrirvörum komið fram varðandi einstakar landbúnaðarvörur. Þegar þessi umræða mátti sér stað í maí sl. stóðu þeir sömu menn, fulltrúar síðustu ríkisstjórnar, upp á Alþingi og töluðu mikið um að það ætti að opna allar gáttir fyrir Smjörva, Létt og laggott og öðrum slíkum vörum. Á þeim fundi, sem ég vitnaði áðan til, hinn 4. des. sl., náðist það fram að undanþágan fyrir Ísland náði yfir ís, Smjörva og Létt og laggott að fullu. Það hefur í för með sér að Ísland má halda tollum og innflutningstakmörkunum og/eða banni á þessum vörum. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Þetta lá ekki ljóst fyrir þegar ríkisstjórnin var mynduð og einmitt á þeim tíma voru menn mjög uggandi um að þarna hefði opnast mikið bil.
    Ég vil í öðru lagi taka það fram að innan GATT lá tilboð fyrir frá síðustu ríkisstjórn um að það ætti að leyfa frjálsan innflutning á öllum tegundum landbúnaðarvara. Sú heimild hefur verið túlkuð þannig að hún ætti að taka til 1--5% af innflutningnum eftir því hver hefur túlkað þau ummæli. Það liggur því alveg ljóst fyrir að þar var opnað fyrir innflutning á öllum tegundum landbúnaðarvara af síðustu ríkisstjórn.
    Ég ítreka það sem fram kom hjá hæstv. iðnrh. að Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra hefur komið fram skilningi okkar Íslendinga í sambandi við þá bókun sem hér hefur verið talað um. Það liggur ljóst fyrir og hefur komið fram ítrekað í viðræðum hans við landbrn. Það liggur líka ljóst fyrir um þær vörur sem raunverulegt innflutningsbann hefur verið á, eins og jógúrt og smjörlíki, að við höfum fullan rétt til að leggja á þær verðjöfnunargjald sem er auðvitað staðfest í þeim viðræðum sem við höfum átt innan GATT.