Skattskylda innlánsstofnana

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 10:12:32 (6854)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (frh.) :
    Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu þá höfum við fulltrúar minni hlutans í efh.- og viðskn. lagt til að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Við teljum að mál þetta sé ekki nægilega vel undirbúið og það muni jafnframt hafa í för með sér ýmsar þær afleiðingar sem eru mjög óheppilegar fyrir atvinnulíf okkar og stangast í veigamiklum atriðum á við það sem ríkisstjórnin hefur verið að lýsa yfir að undanförnu. Ég vil t.d. benda á það að ríkisstjórnin lýsti því yfir við lausn kjarasamninga að hún mundi hafa frumkvæði, eins og segir, með leyfi forseta, í öðrum lið yfirlýsingar hennar þar sem stendur: ,,Ríkisstjórnin mun hafa frumkvæði að lækkun vaxta eins og nánar er gerð grein fyrir hér á eftir.``
    Nú liggur það fyrir að þessi breyting mun að sjálfsögðu valda vaxtahækkun. Það hefur þegar verið tilkynnt af einum fjárfestingarlánasjóði, sem mun verða fyrir þessari skattlagningu, að hann muni þegar að þessu loknu þurfa að breyta sínum vöxtum. Við fáum ekki betur séð en það stangist á við þessa yfirlýsingu. Þar á jafnframt í hlut fjárfestingarlánasjóður sem þjónar fyrst og fremst undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum, og við fáum ekki séð að þessi atvinnugrein fái með nokkru móti staðið undir slíkum útgjaldaauka. Það er jafnframt ætlun ríkisstjórnarinnar að lina þjáningar þessarar atvinnugreinar með því að greiða út úr Verðjöfnunarsjóði en ef fyrst og fremst á að gera það til þess að viðkomandi atvinnugrein geti greitt meira til ríkissjóðs þá er þar illa farið. Það hefur verið á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að skattleggja sjávarútveginn sérstaklega og það er gert ráð fyrir verulegri skattlagningu á hann á þessu hausti, eða 525 millj. kr. Hér bætast við tæpar 300 millj. sem verður að telja mjög alvarlegt í þessari stöðu.
    Það hefur jafnframt komið fram í viðtali við forstjóra Fiskveiðisjóðs sem birtist nýlega í Morgunblaðinu, en hann sagði þar, með leyfi forseta:
    ,,Veruleg breyting á högum sjóðsins og stöðu, svo sem með gagngerri breytingu laga, geti haft áhrif á núgildandi lánasamning milli Fiskveiðasjóðs og erlendra lánastofnana. Hætta er á að viðeigandi ákvæði lánasamnings verði notuð til gjaldfellingar lána til að fá þau greidd upp.`` --- Síðan er þar bætt við, með leyfi forseta: ,,Ekki er heldur neinn vafi á því að erfiðara getur reynst fyrir Fiskveiðasjóð að afla nýrra lána á erlendum markaði nema með lakari kjörum en fengist hafa til þessa.``
    Það er sem sagt ekki nóg með það að þessi stofnlánasjóður verði að hækka vexti vegna þessarar aðgerðar ríkisstjórnarinnar heldur er jafnframt hætta á því að erlendir aðilar segi upp lánum sínum með þeim afleiðingum að sjóðurinn þurfi að taka dýrari lán en hann býr við fyrir. Þannig er ekki eingöngu verið að hækka vexti á sjávarútveginum sem slíkum, heldur þjóðarbúinu í heild ef til þessa kemur. Það er ekki skynsamlegt að ganga fram í máli sem þessu með bundið fyrir bæði augun vitandi lítið um það hvaða afleiðingar löggjöfin hefur í för með sér.
    Það er jafnframt rétt að taka fram að við þurfum nú mjög á því að halda í okkar atvinnulífi að styðja við bakið á nýjungum, efla atvinnulífið og auka verðmætasköpunina. Með því að leggja skatta á fjárfestingarlánasjóðina við þessar aðstæður mun það að sjálfsögðu verða til þess að draga úr þeim þróttinn og gera þeim ókleift að lána til nýrra verkefna eða styðja við bakið á margvíslegri rannsóknastarfsemi eins og þeir gera í dag.
    Það er jafnframt allmikil óvissa um framtíð bankakerfisins og fjárfestingarlánasjóðanna. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún hyggist breyta ríkisbönkunum í hlutafélög án þess að frv. um það hafi komið fram á Alþingi. Meiri hluti efh.- og viðskn. hefur sagt frá því í nál. fyrr á þessum vetri að þá hafi verið stigið fyrsta skrefið til þess að breyta

fjárfestingarlánasjóðunum í hlutafélög. Það er því að mínu mati mjög óheppilegt að stíga þetta skref án þess að fyrir liggi hvað eigi að gera að öðru leyti. Fiskveiðasjóður er að öllu leyti í eigu ríkisins og það hefur komið fram með skýrum hætti af hans hálfu að með þessu sé verið að leggja eignarskatt á eignir hans en ef hann væri t.d. hlutafélag í eigu ríkisins væri eignarskatturinn nánast enginn því hlutaféð yrði ekki skattskylt. Og eins og allir vita þá er nú ekki farið að ganga svo langt að ríkissjóður sé farinn að skattleggja sjálfan sig í mjög miklum mæli þó að þetta sé eiginlega dæmi um það þegar ríkissjóður er að nokkru leyti að skattleggja sjálfan sig. Ég er ekki þar með að segja að slík skref hafi aldrei verið stigin áður. Það var t.d. fundið upp á því að skattleggja Seðlabankann fyrir allmörgum árum. En tilfærsla á fjármagni úr Seðlabankanum í formi skattheimtu yfir í Arnarhvol, skipti ekki sköpum fyrir efnahagslíf þjóðarinnar og með sama hætti skiptir það ekki sköpum fyrir efnahagslíf þjóðarinnar þótt peningar séu teknir úr Fiskveiðasjóði sem er í eign ríkisins og yfir í ríkiskassann í fjmrn. Það sem skiptir þar meginmáli er að staða ríkissjóðs verður að nafninu til aðeins betri. Staða Fiskveiðasjóðs verður verri. Hann mun þurfa að innheimta þessi gjöld af viðskiptavinum sínum, af sjávarútveginum til atvinnuuppbyggingar í landinu. Hver verður afleiðing þess? Afleiðingin verður væntanlega sú að draga þróttinn úr þessari atvinnugrein og stuðla að minni verðmætasköpun í samfélaginu. Ef það er tilgangurinn með þessu máli, sem ég held að sé alls ekki, þá hafa menn náð árangri. En tilgangurinn er sagður vera sá að jafna aðstöðu milli þeirra sem lána fjármagn í samfélaginu.
    Ég vil hins vegar benda á að það hefur komið fram með skýrum hætti af hálfu Fiskveiðasjóðs sérstaklega að hér er ekki verið að jafna aðstöðu eingöngu þótt færa megi nokkur rök fyrir því heldur verið að skapa nýja mismunun. Ég vil í því sambandi vitna til ítarlegrar greinargerðar sem hefur komið frá Fiskveiðasjóði um þetta efni. Þar segir m.a. um afstöðu sjóðsins í örstuttu máli, með leyfi forseta:
  ,,a) Um er að ræða miklar og ótímabærar álögur á sjávarútveg, sem lauslega má áætla að verði rúmlega 300 millj. kr. á ári hverju.
    b) Meginmarkmið frv. er að jafna samkeppnisstöðu lánastofnana með því að afnema skattalega mismunun. Vér teljum, að frv. leiði til nýrrar og engu minni mismununar.
    c) Vér teljum frv. óvandað og sjáum á því ýmsa tæknilega galla. Vér vekjum athygli á því, að nánast samhljóða frv. dagaði uppi á þingi fyrir þremur árum m.a. vegna tæknilegra galla.``
    Út af þessu atriði er rétt að taka fram að það hefur í nokkru verið bætt úr þessu atriði því í meðförum nefndarinnar hafa nokkur atriði verið lagfærð en alls ekki atriði sem varða þennan sjóð sérstaklega. Það hefur t.d. verið ákveðið að Lánasjóður sveitarfélaga verði ekki skattlagður og nokkrir aðrir styrktarsjóðir en það á ekki við um Fiskveiðasjóð Íslands. Síðan segir eftirfarandi um afleiðingar þessarar lagasetningar fyrir þennan tiltekna sjóð:
    ,,Aðalatriði málsins er auðvitað aukin skattheimta og hvar hún kemur niður. Það vefst að sjálfsögðu ekki fyrir neinum að hér er eingöngu og einfaldlega um að ræða aukna skattheimtu á íslenskan sjávarútveg, bæði veiðar og vinnslu.
    Verði frv. að lögum hlýtur stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands að ákveða vaxtahækkun þegar í stað.
    Sú hækkun þyrfti að vera u.þ.b. 2% á lánum með breytilega vexti ef miðað er við 4,5% raunávöxtun eigin fjár svo dæmi sé tekið. Áhrif laganna talin í krónum eru skýrð nánar í meðfylgjandi yfirliti.``
    Fram hefur komið hjá hæstv. fjmrh. að sjóðurinn þurfi ekki að hækka vexti svo mikið. Hann hafi það góða stöðu að hann geti sætt sig við það að hækka jafnvel ekki vexti, eins og ég skildi hæstv. fjmrh., hann teldi það ekkert tiltökumál þótt Fiskveiðasjóður hækkaði ekki vexti. Þá er sjóðnum að sjálfsögðu stefnt í verulegan taprekstur og ég veit að hæstv. fjmrh. skilur að það er ekki traustvekjandi gagnvart erlendum lánadrottnum að reka fyrirtæki með tapi.

    Ég veit ekki betur en það hafi verið siður hér á undanförnum árum að hækka rafmagn allverulega við erfiðar aðstæður til þess að fyrirtækið Landsvirkjun gæti komið með eðlilegum hætti fram gagnvart þeim aðilum sem hún hefur tekið lán hjá. Hvað ætli væri sagt hér í þingsölum ef skattleggja ætti fyrirtækið Landsvirkjun í dag? Halda menn að það mundi renna umræðulaust í gegnum þingið? Það er fyrirtæki með mikinn hagnað og fyrirtæki sem skiptir miklu máli fyrir þjóðarbúið. Ég á ekki von á því að hv. þm. mundu samþykkja það umræðulaust að leggja slíkan skatt á. ( Fjmrh.: Það er greiddur arður.) Arðgreiðslur eru allt annað en tekjuskattur og eignarskattur, hæstv. fjmrh., ég hélt að við þyrftum ekki að ræða það. Auðvitað getur það komið til álita að greiða arð af eigin fé Fiskveiðasjóðs. Það er allt annað mál. En fyrst farið er út í skattlagningu á annað borð spyr maður að sjálfsögðu: Um hvað á þessi samræming að vera? Hér er eingöngu talað um fjárfestingarlánasjóði. Það þykir sjálfsagt að leggja sérstakan skatt á veiðiheimildir, gefa undir fótinn með það að leggja eigi á auðlindaskatt og ég veit ekki betur en hæstv. fjmrh. hafi oft á tíðum tekið undir það. Og hér kemur hvert frv. á fætur öðru sem gerir ráð fyrir því að einstakar atvinnugreinar borgi hærri skatta. En ef það er minnst á að rafmagnsfyrirtækin og orkufyrirtækin í landinu greiði einhvern skatt rísa menn upp og segja: Aldrei, aldrei.
    Ég er ekki að leggja það sérstaklega til að rafmagnsfyrirtækin og orkufyrirtækin í landinu verði skattlögð því ég geri mér grein fyrir því að skattur á þau mundi að sjálfsögðu koma fram á neytendum og yrði til þess að draga úr kaupmætti fólks og hækka rafmagn til atvinnurekstrar í landinu. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því. Með alveg sama hætti verður skattur sem þessi til þess að draga þróttinn úr atvinnulífinu í landinu. Það er sjálfsagt þegar vel gengur hjá atvinnuvegunum að leggja byrðar á þá og það er líka sjálfsagt að reyna að vinna að sem bestri samræmingu í sambandi við skattamál í landinu. En það er ekki sama hvenær það er gert. Það er ekki skynsamlegt að gera það þegar atvinnuleysi er komið yfir 3% og fer vaxandi. Þá eiga menn að staldra við og spyrja sjálfa sig: Er ekki rétt að bíða með þetta og sjá hvort ekki gengur betur í atvinnulífinu næstu mánuðina? Þurfum við ekki á því að halda að þar sé sem mest um að vera? Það gerir hæstv. ríkisstjórn ekki. Hún heldur við sitt og ákveður að þessi skattur skuli lagður á og afleiðingarnar skipti engu máli. Ég vara sérstaklega við því og vænti þess að hæstv. fjmrh. taki tillit til þess. Ég tel það alveg augljóst því ríkisstjórnin lýsir því yfir að hún muni hafa frumkvæði að því að lækka vexti, fær síðan athugasemdir frá tilteknum lánasjóði um það að aðgerðir hennar muni verða til þess að hækka vexti um 2%. Hvar er þá frumkvæðið? Hæstv. fjmrh. segir að frumkvæðið felist í því að lækka halla ríkissjóðs og með því muni vextirnir lækka. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh., auðvitað skiptir halli ríkissjóðs máli á fjármagnsmarkaðinum. En ef verið er að ná niður halla ríkissjóðs með því beinlínis að valda vaxtahækkun í tilteknum sjóðum þá held ég að það sé ljóst að áhrifin verða gagnstæð. Því hlýtur ríkisstjórnin að taka tillit til þess sem hún hefur lofað í þessu máli.
    Þó að mér hafi hér orðið tíðrætt um málefni Fiskveiðasjóðs í þessu sambandi þá er hann ekki eini sjóðurinn sem málið snertir. Það á líka við um Stofnlánadeild landbúnaðarins og Iðnlánasjóð. Það er nokkrum erfiðleikum háð að mínu mati að skattleggja Stofnlánadeild landbúnaðarins. Stofnlánadeild landbúnaðarins er dæmi um fjárfestingarlánasjóð sem hefur tvíþætt hlutverk. Annars vegar lánahlutverk og hins vegar styrktarhlutverk. Vextir Stofnlánadeildar landbúnaðarins eru lágir og þeir eru greiddir niður sameiginlega af landbúnaðinum í landinu. Nú má að sjálfsögðu um það deila hvort það sé skynsamleg ráðstöfun að greiða vexti niður með þeim hætti en það hefur verið gert. Það er jafnframt rétt að taka það fram að Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur orðið fyrir mjög miklum áföllum í sínum útlánum á undanförnum árum. Deildin lánaði verulegt fjármagn til loðdýraræktar og fiskeldis í landinu og afskriftareikningur útlána hjá Stofnlánadeildinni er hvorki meira né minna en 820 millj. í árslok 1991 eða tæp 10% af heildarútlánum deildarinnar. Í þessu sambandi verður að telja að sú heimild sem getur verið til frádráttar vegna afskrifta útlána samkvæmt lögunum um skattskyldu banka og sparisjóða sé allt of þröng fyrir fjárfestingarlánasjóðina. Sú heimild er 1%. Það er ekki gert ráð fyrir því í þeim brtt. sem fylgja afgreiðslu málsins að breyta þessu. Það er hins vegar tekið fram af fjmrn. að það

standi til og það sé verið að endurskoða ákvæði. Með skírskotun til þess að einhver vinna sé í gangi við athugun á málinu í fjmrn. sé rétt að samþykkja þetta svona þótt það sé bersýnilega allt of lágt. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni að þetta skuli vera til athugunar í fjrmn. en það mælir einmitt með því að afgreiðslu málsins sé frestað og því vísað til þeirrar ríkisstjórnar og þess ráðuneytis sem er með þetta tiltekna mál í athugun. Fjmrn. er að skoða þetta ákvæði og það er svo tengt skattlagningu fjárfestingarlánasjóðanna að það hlýtur að vera eðlilegt að það fari saman.
    Ég vil í þessu sambandi nefna áhættumatið hjá Fiskveiðasjóði Íslands. Fiskveiðasjóður hefur afskrifað allmikið af útlánum sínum og við skulum vona að sú útlánaafskrift dugi fyrir áföllum framtíðarinnar. Það er afar erfitt að meta það. Ef hæstv. forsrh. væri fenginn til verksins og fengi aðstoð Ríkisendurskoðunar við málið býst ég við því að þessi afskriftarreikningur mundi hækka því, eins og frægt er, þá fór hæstv. forsrh. fram á sérstaka athugun á útlánaáhættu Byggðastofnunar og Atvinnutryggingarsjóðs. Út úr því kom ný niðurstaða sem er að sjálfsögðu byggð á einhverju mati um framtíðina, mati um aflabrögð, mati um verðlag á erlendum mörkuðum. Ég er viss um að ef sams konar mat og þar var beitt væri notað hjá Fiskveiðasjóði eða Stofnlánadeildinni kæmi allt önnur útkoma út úr því og afkoma þessara sjóða yrði allt önnur en núverandi reikningar þeirra bera með sér. Ég tel því að þessi sérstaka athugun sem hæstv. forsrh. lét fara fram á tilteknum sjóðum mæli mjög með því, án þess að ég hafi verið sérstaklega hrifinn af þeim æfingum sem þar fóru fram, að þessu máli verði frestað. Einhver sambærileg skoðun eigi sér síðan stað varðandi hina fjárfestingarlánasjóðina, því m.a. vegna þeirrar áhættu sem er talin liggja í útlánum Byggðastofnunar og Atvinnutryggingarsjóðs hefur verið ákveðið að skattleggja ekki þá sjóði. Þar er um sjóði að ræða sem eru algjörlega í eigu ríkisins og niðurstaðan er sú að þar eigi engin skattlagning að fara fram.
    Ég held að megi alveg fullyrða að rekstur þessara sjóða, sérstaklega Byggðastofnunar, sé í einhverri samkeppni við aðra fjárfestingarlánasjóði í landinu. Aðili, sem tekur lán í Byggðastofnun, tekur væntanlega ekki lán annars staðar til sömu hluta og aðili, sem tekur lán í Fiskveiðasjóði, tekur ekki lán í Byggðastofnun til að gera nákvæmlega það sama. Þar er því um samkeppni að ræða þannig að alveg sömu rök gilda um Fiskveiðasjóð og aðra stofnlánasjóði. Þar að auki er frumskylda Fiskveiðasjóðs að lána til skipa og til uppbyggingar atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi með sama hætti að það er frumskylda Stofnlánadeildar landbúnaðarins að lána til uppbyggingar í sveitum landsins. Ég hef ekki orðið var við að fjárfestingarlánasjóðirnir eða bankastofnanir landsins séu sérstaklega að slást um að fá að lána í slíka uppbyggingu um þessar mundir. Ég held einmitt þvert á móti að menn dragi mjög við sig að lána til hluta sem tengjast sjávarútvegi og landbúnaði vegna þess að það er talið mjög áhættusamt.
    Ég vil jafnframt minna á að Fiskveiðasjóði Íslands er ætlað það hlutverk um þessar mundir að hjálpa til við fjárhagslega endurskipulagningu sjávarútvegsins. Hæstv. sjútvrh. hefur gefið út sérstaka reglugerð um sjóðinn þannig að hann geti sinnt því hlutverki betur og dragi þá úr því hlutverki sínu að lána til nýrra skipa og nýrra bygginga. Þetta er sjálfsagt mál vegna þess að við eigum nóg af skipum og við eigum nóg af byggingum til að vinna fisk í, en þurfum hins vegar fyrst og fremst á því að halda að hagræða í greininni og hjálpa til við fjárhagslega endurskipulagningu. Það hljóta allir að skilja að það mun koma verulega við viðkomandi stofnun að þurfa að greiða til ríkisins tæpar 300 millj. í þessu skyni ef hún á ekki að hækka vexti eins og hæstv. fjmrh. hefur látið í skína með sama hætti og það kemur að sjálfsögðu við viðkomandi atvinnugrein að þurfa að reiða þetta fé fram.
    Að vísu er rétt að Iðnlánasjóður hefur tekið jákvæðar undir þessa skattskyldu en aðrir. Iðnlánasjóður hefur skilað áliti um þetta mál þar sem eftirfarandi kemur þó fram í lokin í því áliti, með leyfi forseta:
    ,,Skattlagning fjármálastofnana er mjög flókið og viðamikið mál. Mismunandi eignar- og rekstrarform gerir málið enn þá flóknara. Við þetta bætist aukin samkeppni við erlendar lánastofnanir í kjölfar aukins frjálsræðis í alþjóðaviðskiptum.

    Þetta hlýtur að kalla á endurskoðun og samræmingu á skattlagningu íslenskra fjármálastofnana.
    Stjórn Iðnlánasjóðs er þeirrar skoðunar að löggjöf um skattlagningu fjárfestingarlánasjóða og annarra lánastofnana eigi að vera liður í þeirri heildarendurskoðun, sem nú er unnið að á löggjöf um fjármálastofnanir.``
    Ég vil í þessu sambandi spyrja --- og væri nauðsynlegt að hæstv. viðskrh. væri jafnframt viðstaddur vegna þess að ég veit ekki betur en að hæstv. viðskrh. hafi tekið að sér að vera í forsvari fyrir þeirri heildarendurskoðun sem á sér stað um löggjöf um fjármálastofnanir. ( Gripið fram í: Hann kemur ekki til þings fyrr en í ágúst). Ég veit ekki alveg hvort hv. 8. þm. Reykn. veit nægilega vel um það þótt ég sé á engan hátt að efast um orð hans, en ég vildi spyrja hæstv. forseta hvort vitað sé um viðskrh. ( Fjmrh.: 8. þm. Reykn. flutti gleðiboðskap.) ( Forseti: Samkvæmt töflu í borði forseta er hæstv. viðskrh. ekki í húsinu en forseti mun til öryggis láta kanna hvort það stenst.) Ég þakka fyrir það. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því ef hæstv. viðskrh. er ekki viðlátinn og ekki á landinu þá er engin leið að verða við minni ósk.
    En kjarni málsins er sá hvað ríkisstjórnin ætlast fyrir með heildarendurskoðun og löggjöf um fjármálastofnanir. Fyrst sú heildarendurskoðun er í gangi er þá ekki skynsamlegt að láta skattlagninguna bíða og taka afstöðu um þessi mál á heildargrundvelli? Er skynsamlegt að búa til nýja mismunun án þess að vita hvað út úr því kemur og taka þá áhættu að skaða stórkostlega hagsmuni einstakra atvinnugreina? ( Forseti: Forseti vill upplýsa hv. 1. þm. Austurl. um að hæstv. viðskrh. er því miður ekki í húsinu.) Ég þakka forseta fyrir þær upplýsingar og ekkert er við því að gera, en ég þykist vita það að hæstv. fjmrh. hefur fylgst náið með vinnu hæstv. viðskrh. og ég býst við því að hann hafi upplýst ríkisstjórnina reglulega um málið þannig að ég vænti þess að það komi ekki að sök. Auðvitað er það svo að jafnvel þótt að hæstv. viðskrh. láti endurskoða alla þessa löggjöf þá heyra einstakir fjárfestingarlánasjóðir ekki undir hann því Stofnlánadeild landbúnaðarins heyrir undir landbrh. og Fiskveiðasjóður undir sjútvrh. Þar af leiðandi geta þessir hæstv. ráðherrar væntanlega upplýst hvaða framtíðarsýn þeir hafa um starfsemi þessara sjóða. Ég á von á því að bæði hæstv. landbrh. og hæstv. sjútvrh. komi hér á eftir og segi frá því hvað þeir hyggist gera til þess að bregðast við þeim áhyggjum sem koma fram af hendi stofnlánasjóðanna. Ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. hafi kynnt sér ítarlega hvað hér er á ferðinni og muni gera einhverjar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir þær afleiðingar sem þarna er rætt um og væntanlega á það sama við um hæstv. landbrh.
    Síðan segir að lokum í áliti Iðnlánasjóðs: ,,Leggjumst við því alfarið á móti því, að frv. nái fram að ganga í núverandi mynd, en teljum að nauðsyn sé að skoða mál þessi í heild með tilliti til þeirra starfsskilyrða, sem stjórnvöld ætla að búa lánastofnunum á íslenskum fjármagnsmarkaði og með hliðsjón af skattlagningu fjármálastofnana í nálægum löndum.``
    Undir þessi orð viljum við í minni hluta efh.- og viðskn. taka. Við teljum nauðsynlegt að fyrir liggi hvaða starfsskilyrði þessar lánastofnanir eiga að búa við í framtíðinni. Í því sambandi vil ég jafnframt minnast á það að nú hafa verið samþykkt lög sem gera ráð fyrir því að samkeppni erlendra og innlendra lánastofnana stóraukist. Það er liður í þeim undirbúningi sem nú fer fram í landinu vegna væntanlegrar og hugsanlegrar inngöngu Íslands í hið Evrópska efnahagssvæði, en í því samkomulagi er gert ráð fyrir því að fjármagnsflutningar á milli landa verði frjálsir. T.d. er vitað mál að ýmsar skipasmíðastöðvar erlendis hafa lagt sig mjög fram um það að lána fjármagn til bygginga á skipum. Ýmsir aðilar sem vilja selja tæknibúnað til landsins, vélar og margvísleg tæki, bjóða oft og tíðum peninga eða lán í þeim kaupsamningum. Það er afar þýðingarmikið þegar þetta mun verða að veruleika og þessi samkeppni eykst að við Íslendingar eigum öflugar fjármálastofnanir sem geti tekist á við þessar aðstæður. Þá mega menn ekki láta sér vaxa í augum þótt stofnanir eigi 4 milljarða í bókfært eigið fé eins og Fiskveiðasjóður Íslands. Það er ekki mikið eigið fé miðað við alla þá gífurlegu áhættu sem sjóðurinn stendur frammi fyrir og ég hef komið hér að áður. Allir hljóta að vera sammála því að það er mjög lítið eigið fé miðað við styrkleika þeirra erlendu fjármálastofnana sem við getum væntanlega búist við að þurfa að takast á við og vera í samkeppni við. Nú er það ekki svo að vonandi verður starfsemi sumra þessara stofnana til þess að lækka vexti á Íslandi en ég treysti því ekki um of nema fyrir séu í landinu nægilega sterkar stofnanir til þess að veita hinum erlendu aðilum fulla samkeppni og aðhald því að tilkoma erlendra fjármálastofnana á Íslandi er fyrst og fremst kostur að því er varðar hugsanlegt aðhald þeirra við innlendar lánastofnanir. En væntanlega dettur engum í hug að með því sé búist við því að hinar erlendu stofnanir muni að meira eða minna leyti yfirtaka þá starfsemi sem innlendar stofnanir reka í dag. Ég er þess fullviss að hæstv. ríkisstjórn ætlar sér ekki slík verk og því eru öll rök með því að fara sér hægt í þessu sambandi. Ekkert liggur á í þessu máli. Ekkert slys mun eiga sér stað ef þetta mál er látið liggja. Hins vegar geta orðið mörg slys ef menn afgreiða það nú á þessu þingi. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. sé ljóst að ég er andvígur því að afgreiða þetta mál. ( Fjmrh.: Það var að skýrast núna.) Mér þykir vænt um það að þetta er skýrt fyrir hæstv. fjmrh.
    Þegar ég er að tala um slys í þessu sambandi þá á ég í fyrsta lagi við það slys að íslenskar fjármálastofnanir fengju mun verri starfsskilyrði en tilsvarandi fjármálastofnanir erlendis. Það er nefnilega ekki nóg, hæstv. fjmrh., að tala um jöfnun milli íslenskra fjármálastofnana og jafna þar í sumu en búa til nýja mismunun í öðru. Líka þarf að huga að þeim stofnunum sem koma hugsanlega hingað. Þess vegna væri slys að afgreiða þetta mál svo illa undirbúið sem það er og skiptir þá engu þótt það hafi verið undirbúið fyrir þremur árum af öðrum hæstv. fjmrh. sem sá að sér í málinu. En hæstv. núv. fjmrh. virðist vera svo hrifinn af öllum verkum fyrri fjmrh. að hann leggur sig sérstaklega fram um það að flytja þau mál sem hann kom ekki fram á Alþingi og eru þetta líka rök fyrir því að láta málið bíða því að fyrirrennari hans í embætti vitkaðist í málinu og sá að sér sem var skynsamlegt af honum. Ég vænti þess að núv. fjmrh. verði ekki minni maður á þessu sviði.
    Það væri jafnframt slys ef svo yrði dreginn þróttur úr Fiskveiðasjóði Íslands að hann gæti ekki staðið við bakið á sjávarútveginum núna í fjárhagslegri endurskipulagningu og staðið við þau loforð sem hann hefur m.a. gefið núv. ríkisstjórn í sambandi við skuldbreytingar. Það væri jafnframt mikið slys að draga þann litla þrótt og lífskraft úr atvinnulífinu sem er til staðar í dag til að reyna að byggja upp eitthvað nýtt og auka atvinnu í landinu.
    Því ætti að vera ljóst, virðulegi forseti, að þetta er dæmigert mál sem þarf vandaðri undirbúning og við hljótum í því sambandi að vitna til þess starfs sem okkur er sagt að sé í gangi af hálfu ríkisstjórnarinnar í sambandi við endurskipulagningu fjárfestingarlánasjóðanna og ég hef áður minnst á. Með þessu er ekki verið að afneita því að fjármálastofnanirnar verði skattlagðar í framtíðinni. Við erum í reynd að taka undir afstöðu Iðnlánasjóðs að það þurfi að búa fjármálastofnunum aðstöðu með hliðsjón af skattlagningu í nágrannalöndunum. Auðvitað eru ákveðin rök fyrir því að stofnanir sem þessar séu allar skattlagðar en ekki er sama hvernig það er gert alveg á sama hátt og ekki er sama hvernig er staðið að skattlagningu á orku.
    Ef hæstv. fjmrh. telur að svo mikil sé þörf á því að fá þetta fjármagn inn í ríkissjóð við þessar aðstæður, af hverju getur hann þá ekki hugsað sér það að eitthvað af þessum skatti komi þá líka frá orkufyrirtækjum? Ég er ekki að mæla sérstaklega með því að hæstv. fjmrh. búi til frv. núna í dag í þeim efnum en ef á að samræma skattlagningu í landinu almennt á öllum atvinnurekstri, hvaða nafni sem hann nefnist, þá er að sjálfsögðu ekki hægt að undanskilja þau fyrirtæki. Hins vegar veit ég að áhrifamiklir aðilar sitja við stjórnvölinn í mörgum þeirra fyrirtækja og ekki er ætlunin að hreyfa þar við neinu. Hér hefur t.d. verið ákveðið að falla frá skattlagningu á Lánasjóð sveitarfélaga sem var ætlunin að gera þegar frv. var lagt fram. Ætli það hefði ekki verið hægt að rökstyðja það betur að leggja einhvern skatt á öflugustu orkufyrirtækin í landinu í stað þess að leggja sérstaklega skatt á Lánasjóð sveitarfélaga? Engar hugmyndir voru uppi um það, menn létu sér detta í hug að skattleggja Lánasjóð sveitarfélaga. Menn létu sér detta í huga að skattleggja Hafnabótasjóð. Menn létu sér detta í hug að skattleggja Framleiðnisjóð landbúnaðarins til þess að hafa upp í þessi vandræði sem ég er ekki að gera lítið úr. En menn létu sér ekki detta í hug að leggja einhvern skatt á ríkustu orkufyrirtæki landsins enda eru sum þeirra í verulegum greiðsluerfiðleikum, ekki síst vegna bygginga sem þau hafa staðið í bæði á sviði veitingareksturs og jafnvel á sviði hótelreksturs.
    En það eru vandræði á fleiri stöðum, hæstv. fjmrh., mikil vandamál eru í íslensku atvinnulífi og ég trúi ekki öðru en að hæstv. fjmrh. taki tillit til þess og komi upp í ræðustól á eftir og skýri frá því að hann telji rétt að draga þetta frv. til baka, láta það bíða betri tíma þannig að hægt sé að skoða þessi mál öll í þeim anda sem hér hefur verið lagt til af Iðnlánasjóði, taka tillit til réttmætra athugasemda Fiskveiðasjóðs, réttmætra athugasemda Stofnlánadeildar landbúnaðarins, með sama hætti og tekið hefur verið tillit til réttmætra athugasemda frá öðrum. Það hefur verið tekið tillit til réttmætra athugasemda frá sveitarfélögunum og fallið frá því að skattleggja Lánasjóð sveitarfélaga. En það á alls ekki að taka tillit til réttmætra athugasemda frá atvinnulífinu. Hvernig má það vera? Er ríkisstjórnin með þessu að undirstrika að atvinnulífið komi henni ekki við? Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mál eru afgreidd í mikilli andstöðu við atvinnulífið og það kemur mjög á óvart að Sjálfstfl. skuli ganga sérstaklega fram í því að afgreiða löggjöf á Alþingi í andstöðu við atvinnulífið. Þetta gerðist líka fyrr í vetur þegar var verið að afgreiða frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt. Þá lagði hæstv. fjmrh. sig sérstaklega fram í því að afnema skattalega meðferð á arði sem hann hafði sérstaklega barist fyrir á Alþingi í stjórnarandstöðu og talið sér mjög til tekna að honum hafi tekist sem stjórnarandstæðingi á Alþingi að koma fram mikilvægu máli fyrir atvinnulífið. (Gripið fram í.) Það var nú í þá tíð að stjórnarandstaðan var höfð með í einstaka málum. Ég held, hv. 8. þm. Reykn., að stjórnarandstaðan hafi ekki verið höfð með í allt of mörgum málum. Ég tel skynsamlegt að hafa samstarf við stjórnarandstöðu á hverjum tíma því að svo vill til í flokkakerfi okkar að flestir flokkar hafa starfað saman, þó ekki allir, og það er reynsla af því að það geti meira að segja gerst að hæstv. núv. og fyrrv. fjmrh. sætu einn daginn saman í ríkisstjórn. Ég veit að hæstv. núv. fjmrh. getur vart til þess hugsað, en ég er ekkert viss um að hann yrði einn um að svara fyrir það. Það gæti vel verið ef hann mundi mótmæla því sérstaklega að menn gætu alveg eins verið án hans í ríkisstjórn og ýmsra annarra og sem betur fer er enginn á Íslandi svo mikilvægur að hann sé ómissandi hvort sem er í ríkisstjórn eða stjórnmálum. Það er því skynsamlegt upp á framgang mála að reyna að skapa sem mesta samstöðu. Hins vegar hefur núv. ríkisstjórn tekið upp alveg ný vinnubrögð sem hún hefur talið sér líka til tekna þannig að hæstv. fjmrh. telur sér ekki aðeins til tekna að hafa náð fram þessu tiltekna máli, sem ég gat hér um áðan, í stjórnarandstöðu. Hann telur sér sjálfsagt til tekna að hafa náð hér ýmsu fram í mikilli andstöðu við stjórnarandstöðuna og jafnvel án þess að gera tilraun til þess að ná þar saman. Alveg sama á við um ýmis nefndarstörf sem eru alltaf í gangi vegna undirbúnings mála. Það var áður fyrr alltaf til siðs að aðilar frá stjórnarandstöðu kæmu að þeim undirbúningi, eins og löggjöf um stjórn fiskveiða, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, um skattamál og ég nefni t.d. þegar tekinn var upp virðisaukaskattur. Nú er þetta algjörlega lagt af. Það kemur mér satt best að segja á óvart, hæstv. fjmrh., að þessi mál skuli vera rekin á Alþingi í svona mikilli andstöðu við atvinnulífið. Ég átti von á því að Sjálfstfl. mundi leggja sig mjög fram í núverandi ríkisstjórn um að standa vörð um hagsmuni atvinnulífsins. Ég átti von á því að þar væri viss skilningur á því að hagsmunir atvinnulífs og fólksins í landinu verða ekki aðskildir. Öflugt atvinnulíf þýðir mikla atvinnu. Öflugt atvinnulíf þýðir góðar tekjur. Öflugt atvinnulíf þýðir miklar tekjur fyrir ríkissjóð og þar af leiðandi ætti enginn af ráðherrum í ríkisstjórn að hafa betri skilning á því en fjrmrh. á hverjum tíma hversu mikilvægt öflugt atvinnulíf er. Þótt við séum vissulega með þá skipan mála að sérstakir ráðherrar hafa með að gera einstakar atvinnugreinar þá er það fyrst og fremst fjmrh. sem hefur þá yfirsýn yfir efnahagsmálin að hann á að geta dæmt mjög vel um það hvað sé efnahagsmálunum fyrir bestu og þýðingarmest fyrir efnahagsmálin á hverjum tíma. Ég geri mér alveg grein fyrir því að hæstv. fjmrh. hefur mikinn og góðan skilning á því að ríkissjóð þurfi að reka með sem minnstum halla. En þegar þessi skilningur fjmrh. er farinn að koma fram í því að draga kraftinn úr atvinnulífinu er fjmrh. landsins hættur að skilja hlutverk sitt.
    Ég átti miklu frekar von á því, hæstv. fjmrh., að Alþfl. hefði ekki sama skilning á hagsmunum atvinnulífsins. Ég var mjög hræddur um að hann mundi mjög sækja á um að það þyrfti að skattleggja atvinnulífið sérstaklega og væri e.t.v. helsta ástæðan fyrir því að hann vildi sitja í núv. ríkisstjórn enda hefur komið í ljós að Alþfl. hefur verið mikill talsmaður þess að skattleggja sjávarútveginn. Að vísu vill hann ekki að skattleggja landbúnaðinn svo mikið vegna þess að það er ekkert að skattleggja, hann hefur hreinlega viljað leggja hann niður. Því miður er svo komið fyrir íslenskum landbúnaði að hann er í þeirri varnarstöðu að þangað er ekki mikla peninga að sækja og það sama má segja um sjávarútveginn. En Alþfl. virðist ekki skilja að jafnvel þótt engir peningar séu fyrir hendi þá skuli þeir samt sóttir. Formaður Alþfl. tekur upp á því að fara með einhverjar reiknikúnstir um það að fiskveiðiheimildir Íslendinga séu 100 milljarða virði og ekkert annað sé að gera en að ná í þessa peninga til sjávarútvegsins. Þessu heldur hæstv. utanrrh. fram, jafnvel þótt hann hafi lært hagfræði og ætti að skilja að svona lagað fær ekki staðist.
    Þetta frv., sem hér er verið að mæla fyrir af hálfu hæstv. fjmrh., er því þessu marki brennt. Það er tilraun til þess að láta atvinnulífið borga meira til sameiginlegra þarfa án þess að nokkur skilningur komi fram á því að einmitt með því að lofa atvinnulífinu að njóta sín munu tekjur ríkissjóðs aukast. Það hafa sumir nefnt þess konar hagfræði hægri stefnu. Ég er ósammála því. Ég tel þetta vera stefnu sem byggir á reynslu aldanna í gegnum tímann, að mikilvægasta leiðin til þess að geta lagt til sameiginlegra mála, hjálpa til að því er varðar félagsleg mál, haldið uppi öflugu menntakerfi og velferðarkerfi, sé að við eigum okkur öflugt atvinnulíf. Ekkert getur stuðlað betur að því en að halda uppi góðri heilbrigðisþjónustu en öflugt atvinnulíf og ekkert getur stuðlað betur að því að halda uppi góðu og öflugu menntakerfi en öflugt atvinnulíf. Ekkert getur skapað betur velferð þjóðar en öflugt atvinnulíf.
    Ég er viss um að forustumenn Sjálfstfl. hafa oft og tíðum skilið þetta og ég veit vel að t.d. hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur ríkan skilning á þessari hagfræði. En hvernig í ósköpunum má það vera, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, að þessi sannindi eru um það bil að gleymast í Sjálfstfl.? Hvað hefur komið fyrir? Hvernig má það vera að Sjálfstfl. skuli eiga sér fjmrh. sem leggur sig fram um að draga máttinn úr atvinnulífinu? Hvernig má vera að Sjálfstfl. eigi sér forsrh. sem segir að atvinnulífið verði bara að sjá um sig sjálft? Hvernig má það vera að Sjálfstfl. á sér forsrh. sem segir: Ja, fyrirtækin fara þá bara á hausinn og það verða ný byggð í staðinn?
    Voru menn orðnir svona samtvinnaðir rekstrinum hjá Reykjavíkurborg sem hefur nánast gengið, ekki eingöngu út á það að reka samfélagslega þjónustu heldur margvísleg fyrirtæki á öllum sviðum, að menn skilji ekki lengur þarfir atvinnulífsins? Var Sjálfstfl. í reynd kominn út í sósíalíska stefnu á sviði atvinnumála? Jafnvel þótt að þeim hafi tekist að klóra eitthvað yfir það með því að selja Bæjarútgerðina á sínum tíma. En ekkert annað hefur gerst á þeim bæ. Það hafa verið byggð upp veitingahús á vegum borgarinnar, keypt hótel á vegum borgarinnar, reknar steypustöðvar --- og guð má vita hvað --- á vegum allra þessara stofnana. Hafa menn villst af leið og sett síðan upp ríkisstjórn sem tekur undir með Alþfl. að atvinnulífið skipti ekki miklu máli? Það sé alveg hægt að reka húsbréfakerfi og margs konar kerfi án þess að hafa öflugt atvinnulíf? Þetta er með ólíkindum. En því miður virðist það vera staðreynd sem ekki verður vikist undan og við teljum það vera hlutskipti okkar á Alþingi, hæstv. fjmrh., að fara með rök gegn þeirri stefnu og gera tilraun til að tala um fyrir mönnum. Ég veit að það þykir leiðingjarnt af hálfu ráðherranna, enda eru þeir ekki sérstaklega að hlusta á þetta þó ég haldi að þeir hefðu að einhverju leyti gott af því. Er leitt til þess að vita að þeir skuli ekki hafa þolinmæði til þess að hlusta á það sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa í þessu máli en setja bara hausinn undir sig og segja sem svo: Þetta mál skal fara í gegn hvað svo sem það kostar þótt þeir séu að segja eitthvað hjá Fiskveiðasjóði að þetta muni valda sjávarútveginum vandræðum. Það verður bara að hafa það, segir ríkisstjórnin. Þó það geti orðið til þess að einhverjum lánasamningum verði sagt upp og sjóðurinn þurfi að taka dýrari lán --- ja, það

verður bara að hafa það. Þó að afskriftarreglur útlána séu allt of þröngar sem geti leitt til mjög óréttmætrar skattheimtu --- ja, það verður bara að hafa það.
    Við erum ekki tilbúin til þess, hæstv. fjmrh., að standa að málinu með þessum hætti og þar af leiðandi hljótum við að leggja á það áherslu gagnvart hæstv. fjmrh. að hann endurskoði afstöðu sína í þessu máli. Við teljum að málflutningur hæstv. fjmrh. á Alþingi hafi verið með þeim hætti að það megi eygja nokkra von til þess að hann breyti um skoðun. Við teljum að málflutningur flokks hans hafi jafnframt verið þannig í gegnum tíðina að það sé til þess fallið að við eygjum nokkra von. Við viljum ekki trúa því að þetta sé allt saman gleymt og menn vilja ekki sjá hversu mikilvægt það er að atvinnulífið fái að njóta sín. Við höfum jafnframt tekið eftir því að um þessar mundir er í gangi starf á vegum ríkisstjórnarinnar til þess að efla atvinnulífið, eins og segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar nú frá því að gengið var frá kjarasamningum. En næst á eftir loforðinu um að hafa frumkvæði, eins og það heitir, að lækkun vaxta, þá stendur eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta, í þriðja lið:
    ,,Fulltrúar ASÍ og vinnuveitenda hafa kynnt ríkisstjórninni athuganir sínar og tillögur í atvinnumálum. Í ljósi þess að alvarlega horfir nú í atvinnumálum landsmanna er ríkisstjórnin reiðubúin að ganga til samstarfs um atvinnumál við ASÍ og vinnuveitendur og með þátttöku sveitarfélaga. Í framhaldi af gerð kjarasamninga er ríkisstjórnin reiðubúin að stofna samstarfsnefnd um atvinnumál með þessum aðilum með það að leiðarljósi að treysta undirstöður hagvaxtar og atvinnuöryggis.`` --- Það er ekkert annað. Síðan segir: ,,Í þessum efnum verður hugað að stefnumörkun og aðgerðum er örvi framleiðslu og atvinnustarfsemi í landinu til lengri tíma litið. Fyrst í stað verður lög megináhersla á aðgerðir til að bæta atvinnuástand þegar á þessu ári. Ríkisstjórnin er reiðubúin að beita sér fyrir samstarfi allra aðila, þar á meðal í atvinnulífi og á fjármagnsmarkaði til þess að nefndin geti unnið markvisst að verkefnum sínum.``
    Þetta er yfirlýsing ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.
    Nú hlýt ég að spyrja: Hefur þetta mál verið tekið til umfjöllunar í þessari samstarfsnefnd eða hefur hún e.t.v. ekki verið stofnuð? En þessi samstarfsnefnd á að hafa að leiðarljósi að treysta undirstöður hagvaxtar og atvinnuöryggis. Nú býst ég við því að við getum verið um það sammála, ég og hæstv. fjmrh., að ein af undirstöðum hagvaxtar og atvinnuöryggis er öflugar fjármálastofnanir og heilbrigður fjármagnsmarkaður.
    Nú hefur hæstv. fjmrh. beitt sér fyrir því að trufla fjármagnsmarkaðinn með breytingum á reglum um arðgreiðslur sem treysti ekki undirstöður fjármagnsmarkaðarins. Nú er hæstv. fjmrh. að beita sér sérstaklega fyrir skattlagningu fjárfestingarlánasjóða og ég hlýt að spyrja: Samræmist það þessari yfirlýsingu að treysta undirstöður hagvaxtar og atvinnuöryggis? ( Forseti: Forseti vill minna hv. þm. á að það stendur til að fresta fundi klukkan hálftólf vegna þingflokksfunda.) Hæstv. forseti, ég ætlaði aðeins að koma inn á einn þátt til viðbótar, en síðan skal ég fresta máli mínu.
    Jafnframt segir í þessari yfirlýsingu að ríkisstjórnin sé reiðubúin til að beita sér fyrir samstarfi allra aðila, þar á meðal í atvinnulífi og á fjármagnsmarkaði til þess að nefndin geti unnið markvisst að verkefni sínu. Ég hlýt að spyrja í þessu sambandi: Hefur þetta samstarf átt sér stað að því er varðar þetta mál? Hefur það verið sérstaklega rætt við atvinnulífið og fjármagnsmarkaðinn? Er þetta mál til þess fallið að koma fram þeim markmiðum sem eru annars svo ágætlega orðuð í þessari yfirlýsingu, skynsamlega orðuð, að mikilvægt sé að treysta undirstöður hagvaxtar og atvinnuöryggis?
    Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá því síðast í apríl er því ekkert annað en greinargerð, góð greinargerð og ætti ekki að þurfa að hafa um það fleiri orð. En það er svo undarlegt að ekki er nóg að ríkisstjórnin gefi út loforð og yfirlýsingar að lítið á að fara eftir þeim.
    En vegna þess sem áður var sagt, hæstv. forseti, þá mun ég nú gera hlé á máli mínu, ég á ekki mjög mikið eftir af minni ræðu, en ég mun þá ljúka henni síðar til þess að hægt sé að halda þingflokksfundi nú klukkan hálf tólf ef hæstv. forseti fellst á það.