Skattskylda innlánsstofnana

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 15:33:15 (6895)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég skil hæstv. landbrh. þannig að hann telji að þau framlög sem Stofnlánadeildin fær verði ekki talin til tekna í reikningum Stofnlánadeildarinnar. Á að skilja það svo að þessar tekjur, sem eru mjög stór hluti af tekjum Stofnlánadeildarinnar, eigi að færast í gegnum höfuðstól og Stofnlánadeildin að gerast upp með hundruð millj. kr. tapi á hverju ári?
    Ég fæ ekki skilið að þetta sé nægilega skýrt þótt það standi ,,sem og lögbundnar tekjur þeirra aðrar teljast ekki til tekjuskattsstofns viðkomandi sjóðs.`` Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, hæstv. landbrh., að auðvitað eru allar tekjur sem innheimtar eru í ríkissjóð til tekjuöflunar til að bæta stöðu hans. En það sem ég vil fyrst og fremst fá að vita af hálfu hæstv. ráðherra er hvort hann telji stöðu Stofnlánadeildarinnar vera með þeim hætti að það sé ástæða til að gera það. Hvort hann meti stöðu Stofnlánadeildarinnar betri en stöðu ríkissjóðs og hvort ekki sé of langt gengið í þessum efnum. Þá skil ég það svo að reiknað sé með því að eingöngu sé reiknaður eignarskattur af Stofnlánadeildinni en þar er sá vandi, hæstv. landbrh., að þar er mikil áhætta og líkur á verulega töpuðum útlánum en reglur um það í frv. eru afar óskýrar og eingöngu gert ráð fyrir að hægt sé að afskrifa um 1% af útlánum stofnunarinnar.