Skattskylda innlánsstofnana

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 16:54:01 (6901)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að svara efnislega þeim atriðum sem komu hér fram heldur eingöngu tala um eitt atriði sem ég tel nauðsynlegt að sé skýrt við þessa umræðu. Það varðar skattlagninguna og um það hvort verið sé að samræma reglur eða ekki.
    Það má auðvitað sífellt færa rök fyrir því að atvinnugreinarnar séu svo illa staddar að það sé ekki hægt að leggja skatta á þær. Maður hlýtur þess vegna að spyrja sjálfan sig: Á að skattleggja þessa sjóði? Á að skattleggja bankana? Bankarnir veita atvinnugreinum sem standa illa lán. Á að skattleggja fyrirtækin? Svona má halda áfram að spyrja. Aðalatriði málsins er að okkur vantar peninga til að standa undir velferðarkerfinu. Hver á að borga þá peninga? Við verðum að finna tekjur í ríkissjóð. Við stöndum núna frammi fyrir því að þurfa að efna kjarasamninga. Það vantar fjármuni til þess. Ef þeir finnast ekki með því að ná í skatta sem samsvara fjárlagafrv. þá myndast meiri halli á fjárlögum. Þá peninga verður að sækja til bankanna og til annarra og það hlýtur að hækka vextina og þrengja að öðrum.
    Ég vil taka undir það sem sagt hefur verið að auðvitað stendur atvinnulífið illa. Þetta frv. hefur hins vegar verið lagað heilmikið í meðförum nefndar og fyrir það er ég þakklátur. En ef menn vilja ekki leggja á skatta verða menn líka að segja hvar þeir vilja skera.
    Loks um það, virðulegi forseti, sem snýr að því ekki sé samræmi í þessum málum vegna þess, sem hér hefur verið bent á, að hlutafélagafyrirtækin, hlutafélagabankarnir, geti dregið hlutafé frá. Það er rétt. Þá megum við ekki gleyma því að hlutafé er eign annarra sem þá eru skattlagðir. Þetta eru eignir þeirra sem fá þá tekjur í formi arðs svo það er verið að reyna að nálgast það sem við getum kallað fullt samræmi í þessum málum. Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að kæmi hér fram því þetta gengur aftur og aftur í þessari umræðu. Ég vonast til að hv. þm. kynni sér málið betur en maður gæti ætlað að þeir hafi gert þegar maður hlustar á ræður þeirra.