Greiðslur úr ríkissjóði

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 18:26:02 (6925)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að undirstrika það aftur að í umfjöllun efh.- og viðskn. og svarinu felst engin efnisleg afstaða. Þess vegna er ekki rétt að leggja þann skilning í svar efh.- og viðskn. að þar með sé ljóst að efh.- og viðskn. hafi engar alvarlegar athugasemdir haft fram að færa við frv. Ég er ekki að segja að svo hefði verið. Ég er ósköp einfaldlega að segja það, sem rétt er, að nefndin hafði ekki aðstöðu til þess að fara efnislega ofan í frv. þannig að í ljós kæmi hvort hún hefði við það athugasemdir að gera eða ekki. Menn mega þess vegna hvorki lesa meira né minna út úr svari efh.- og viðskn. en efni standa til. Vonandi er það skýrt.
    Varðandi það sem hv. þm. sagði að málið væri mönnum kunnugt er það að vísu rétt að það hefur verið flutt áður á þingi. Þó er rétt að minna á að þetta frv. er í nokkru breytt frá þeim sem áður hafa birst og reyndar er rétt að viðurkenna að í vissum atriðum hefur það verið lagfært. Ég hygg t.d. að flestir séu sammála um að þau ákvæði sem stóðu í eldra frv. og vörðuðu stöðu ríkisins, um það þegar gerðir væru nýir kjarasamningar, voru gölluð og naumast framkvæmanleg eins og þau voru a.m.k. sett fram í hinu fyrsta samningsuppkasti sem ég sá hér í þinginu. Þetta hefur nú verið lagfært og að sjálfsögðu er það til bóta. Að öðru leyti ætla ég að geyma mér efnislega umfjöllun um málið en ég vildi að þetta kæmi fram.