Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 19:31:55 (6936)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfáar spurningar. Ég held að hér sé töluvert mikilvægt mál á dagskrá sem full ástæða er til að fara að með varúð því að hér er verið að fara með mikið fé. Það er kannski ekki tími til að fara út í það hvort hér er í raun og veru um heimilaða eignaupptöku að ræða. Ég hef persónulega um það miklar efasemdir en ég mun ekki beita mér í þessu máli. Ég held að vænstu menn telji að hér sé ekki illa farið með fé. Að vísu vantar mig alltaf í allar svona aðgerðir reikninga fyrirtækjanna. Það er nefnilega hægt að segja okkur allt mögulegt um afkomu sjávarútvegsins en það er nú einu sinni svo að það skiptir dálitlu máli hvernig með það fé sem inn kemur er farið. En ég skal ekki eyða tíma í það hér.
    Hér vakna spurningar vegna þess að rætt hefur verið um frv. til laga sem mér sýnist nú vera að koma úr nefnd þrátt fyrir allhörð mótmæli mín og jafnvel annarra en það er frv. til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna. Að vísu er búið að gera þar smábragarbót. Það verður sem sagt ekki ráðist á þá sem þegar eru með örorkubætur, eins og til stóð, heldur fá þeir að hafa fimm ára aðlögunartíma. En þess vegna tala ég um þetta mál að málin eru nátengd. Hér er verið að taka úr Verðjöfnunarsjóði og leggja í lífeyrissjóðina, m.a. í Lífeyrissjóð sjómanna, en hlutur hans er um 65% af lífeyrissjóðum sem sjómenn greiða í. Í greinargerð er talað um að til skipta komi til lífeyrissjóðanna 228 millj. kr., þá skulum við segja að 65% af því fari í Lífeyrissjóð sjómanna. Svo eru aðrir lífeyrissjóðir, þeir eru fjórir eða fimm ef ég man rétt. ( Gripið fram í: Sjö.) Sjö, og það sem ég átta mig ekki alveg á er að þeir eru allir blandaðir lífeyrissjóðir. Það greiða því fleiri en sjómenn í þá sjóði. Ég átta mig ekki á því hvernig þau mál hanga saman og skal fúslega viðurkenna að það er hreinlega fákunnátta mín. Mér þætti gott að heyra ráðherra útskýra það fyrir mér á eftir hvernig það fólk fer út úr þessu.
    Það snýst eitthvað við í mér þegar talað er um í athugasemdum um 1. gr., með leyfi hæstv. forseta: ,,Samtals verða það því um 2.241 millj. kr. sem til greina koma til ráðstöfunar upp í skuldir framleiðenda samkvæmt þessari grein en um það bil 228 millj. kr. munu ganga til lífeyrissjóða sjómanna eins og nánar er kveðið á um í 5. gr.``
    Það er spurning mín hvernig þetta er réttlætt varðandi blönduðu sjóðina og síðan hefði ég viljað lýsa furðu minni á því hversu mikil áhersla er lögð á að á sama tíma og verið er að bæta stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna er verið að skerða stórlega rétt sjómanna til síns eigin lífeyrissjóðs. Það hefði verið fróðlegt að vita hvað það er sem sparast í Lífeyrissjóði sjómanna.
    Við hv. 16. þm. Reykv. höfum átt allhörð orðaskipti en ég verð að upplýsa það að á sunnudagsmorguninn hafði ég samband við formann Sjómannasambands Íslands. Hann hafði ekki hugmynd um að frv. var í þinginu þannig að hér er ýmislegt skrítilegt gert og ekki mikið samráð haft við þá sem málið varðar. Hann lofaði mér raunar að senda, eins og hann orðaði það, sína menn til að kanna þetta mál.
    Ég bið hæstv. ráðherra að útskýra það fyrir mér hverju þessi 65% af 228 millj. bjarga um framtíð Lífeyrissjóðs sjómanna og hversu há upphæð er talin sparast með þeirri skerðingu á réttindum sjómanna til síns eigin lífeyrissjóðs. Þessum spurningum vildi ég gjarnan fá svarað þegar umræðan heldur áfram.