Skýrsla um málefni og hag aldraðra

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 21:28:41 (6949)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins staðfesta það sem kom fram áðan að sem starfandi heilbrrh. er mér ljúft og skylt að ræða þá skýrslu sem hér hefur verið um fjallað. Það hefur verið gagnrýnt að tekið hafi nokkuð langan tíma að útbúa hana en ég hygg að ef menn skoða beiðnina og skoða síðan skýrsluna, sem lögð var fram fyrir allnokkrum vikum, þá sjái menn að það var töluvert verk að safna saman þeim upplýsingum sem um var spurt, enda þótt hv. 8. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, geri raunar lítið úr því að það hafi verið mikið verk. En allir sem skoða skýrsluna munu sjá að það er mikil vinna og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson veit það auðvitað mætavel að í ráðuneytum Stjórnarráðsins er ekki margt starfsfólk og vinna af þessu tagi þýðir yfirleitt aukaálag í ráðuneytunum og við því er ekkert að segja og við því er reynt að bregðast með þeim besta hætti sem unnt er. Rétt er allt sem sagt hefur verið um rétt þingmanna til að óska eftir skýrslum og að þær verði ræddar. Ekki skal gert lítið úr því, en engu að síður held ég, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, að okkur sé öllum hollt að hafa í huga að aðalverkefni Alþingis er að sinna löggjafarstarfinu.