Fiskistofa

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 22:41:31 (6961)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það í ræðu hv. þm. að færa beri verkefni frá sjútvrn. og einkum vald en það styrkir mig engu að síður meira í þeirri trú að hér hafi verið farið einum of fljótt af stað í þessum efnum, það hefði þurft að ígrunda málið ögn nánar og ekki síst er ég sannfærð um að það er rétt, þar sem ég er fulltrúi Kvennalistans í sjávarútvegsumræðunni, áheyrnarfulltrúi í sjútvn., og við höfum sem kunnugt er lengi haft byggðakvóta á okkar stefnuskrá.
    Það eru líka mjög misvísandi upplýsingar sem koma fram í nefndarálitinu. Það er verið að byggja upp stofnun eftir ákveðnu lagafrv., það er hins vegar verið að benda á að sumt af þessari starfsemi ætti heima úti á landi. Ég hef tekið undir það og enn og aftur ítreka ég það. Mér finnst það einnig íhugunarefni eftir ræðu hv. þm. að einn nefndarmanna vilji fá umræðu milli 2. og 3. umr. í nefndinni vegna of óskýrra ákvæða varðandi Fiskifélagið en það var jú atriði sem ég gagnrýndi í minni ræðu. Ég held því að við séum mörg sem deilum þeirri skoðun að þetta mál, sem gæti á endanum orðið ljómandi gott, hafi verið unnið of hratt, óþarflega hratt og þurfi nánari skoðunar við.