Lífeyrissjóður sjómanna

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 23:25:03 (6969)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er með hreinum ólíkindum að hv. 16. þm. Reykv. og formaður Sjómannafélags Reykjavíkur skuli ekki enn skilja um hvað er verið að tala. Enginn hefur farið fram á örorku handa fullfrískum sjómönnum. Verið er að fara fram á að þeir haldi rétti sínum vegna þess orkutaps, sem þeir urðu fyrir, og orsakaði það að þeir geta ekki stundað sjómennsku lengur. Það er dálítill munur á því að vera skipverji á verksmiðjutogara við fulla heilsu og húsvörður í Reykjavík. Ef hv. þm. skilur þetta ekki þá get ég ekki rökrætt við hann. (Gripið fram í.) Örorkumat til almannatrygginga er metið þannig að maður sem getur aðeins unnið 1 / 4 af því sem hann vann áður og hafði menntun og uppeldi til eins og segir í lögunum er álitinn 75% öryrki. Það þýðir að maðurinn getur ekki unnið það starf sem hann kunni og hafði undirbúið sig til. Svo vill til að það er kunnátta að baki sjómennsku eins og öðrum störfum. En það er auðvitað ekkert eigandi við hv. 16. þm. Reykv. ef hann skilur þetta ekki. Síðan talar hann eins og ég en ekki hann sé félagi í Lífeyrissjóði alþingismanna. Ætli við sitjum þar ekki saman? Eða er ekki svo, hæstv. forseti? Nú veit ég ekki hvort hv. 16. þm. Reykv. er í einhverjum fleiri lífeyrissjóðum en það er ég alla vega ekki. En ég býst við að við sitjum bæði að kjötkötlunum í Lífeyrissjóði alþingismanna um þessar stundir.