Vernd barna og ungmenna

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:00:30 (6974)

     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt þegar verið er að afgreiða mál sem þetta, viðkvæma málaflokka úr nefnd, að samstaða sé í nefndinni. Því fannst mér það skipta mjög miklu máli að hv. 10. þm. Reykv. var með í afgreiðslu málsins á þann hátt sem það var gert þrátt fyrir þær efasemdir sem þingmaðurinn hefur einmitt sett fram og sem eru eflaust réttmætar og hún hefði gjarnan viljað skoða nánar í nefnd. Vegna orða hennar vil ég gjarnan að það komi fram hver niðurstaða þeirrar nefndar, sem samdi frv., var varðandi þessi mál. Nefndin segir:
    ,,Til álita þykir koma að ákvörðun um þvingunaraðgerðir þurfi að bera undir hina almennu dómstóla svo sem tíðkast víða á Vesturlöndum. Dómstólameðferð þykja þó fylgja ýmsir ókostir og er hætta á að sú leið yrði ekki nægjanlega skilvirk. Tryggja þarf sérþekkingu dómara og er það að nokkru leyti unnt með því að dómari kalli til sérfróða meðdómsmenn við úrlausn þessara mála, sbr. 37. A. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 85/1936, en dómsformaður þyrfti einnig að hafa nokkra sérþekkingu. Einnig er dómstólameðferðin dýr og seinleg.``
    Það kemur einnig fram í niðurstöðunni að þótt ætla megi að dómstólaleiðin tryggi rétt foreldra best telji nefndin ekki ljóst að hið sama gildi um öryggi og velferð barnsins þegar mál eru rekin fyrir dómstólum. Það er ýmislegt fleira sem kemur fram í niðurstöðu nefndarinnar, þetta er á bls. 18, og þess vegna taldi nefndin varðandi niðurstöðu sína að best færi á því að barnaverndarnefndir fari áfram með úrskurðarvald eins og nú háttar til. Í sambandi við það vil ég gjarnan láta það koma fram varðandi skipan barnaverndarráðs, hlutverk og starfshætti að þar er bæði verið að leggja til að ráðsmönnum verði fækkað og hlutverki ráðsins breytt þannig að það hafi eingöngu með höndum fullnaðarúrskurðarvald í barnaverndarmálum sem skotið er til ráðsins en leiðbeiningarskylda barnaverndarráðs og eftirlit með störfum barnaverndarnefnda flyst til ráðuneytisins. Þetta þýðir að hið tvíþætta hlutverk barnaverndarráðs er lagt af og þessi verkaskipting sett á og skiptir miklu máli varðandi það sem hv. 10. þm. Reykv. benti á.