Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:19:05 (6977)

     Frsm. sjútvn. (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 887 um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum.
    Nefndin hefur fjallað um ítarlega um þetta mál. Á hennar fund komu ýmsir aðilar til viðræðu um efni frv. Þeir Benedikt Valsson og Harald Holsvík komu frá Farmanna- og fiskimannasambandinu. Áður en frv. var lagt fram, virðulegur forseti, hafði nefndin leitað eftir áliti um þessa breytingu hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Alþýðusambandi Austfjarða og Alþýðusambandi Vestfjarða.
    Nefndin mælir með samþykkt frv. Þess ber að geta að Guðmundur Hallvarðsson tók ekki þátt í afgreiðslu málsins og Matthías Bjarnason og Steingrímur J. Sigfússon voru fjarstaddir er málið var afgreitt úr nefndinni. Þá er þess einnig að geta að Anna Ólafsdóttir Björnsson, fulltrúi Samtaka um kvennalista, sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltúi og er samþykk áliti þessu.
    Undir nál. skrifa Össur Skarphéðinsson, Árni R. Árnason, Halldór Ásgrímsson, Stefán Guðmundsson, Jóhann Ársælsson og Tómas Ingi Olrich.
    Frv. er flutt að beiðni Vélstjórafélags Íslands og breytingin sem lögð er til í því felur í sér að fé af greiðslumiðlunarreikningi fiskiskipa, sem rennur til Farmanna- og fiskimannasambands Íslands skv. 9. gr. laganna nr. 24/1986, mundi einnig renna til Vélstjórafélags Íslands þar sem félagið á ekki lengur aðild að Farmanna- og fiskimannasambandinu. Í frv. er m.a. lagt til að sjútvrh. setji reglur um skiptingu þessa fjár milli samtakanna sem getið er um í frv. Eins og fyrr segir, virðulegi forseti, mælir nefndin með samþykkt frv.