Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:34:14 (6983)

     Árni Johnsen (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hygg að það sé óumdeilt að vélstjórar sem starfa á sjó og eru í Vélstjórafélagi Íslands eigi fullan rétt til þess máls sem hér er fjallað um. Það er vandamálið sem um er að ræða. Ég vil taka undir orð hv. 1. þm. Austurl. um að nauðsynlegt sé að knýja til samkomulags í málinu. En þá vil ég draga fram þau atriði sem um hefur verið rætt að ætla sér að setja lög á Alþingi til að knýja fram samkomulag því að hv. þm. taldi líklegt að viðkomandi aðilar mundu og ættu að ná samkomulagi áður en til þess kæmi að hæstv. sjútvrh. setti reglugerð. Auðvitað á ekki lagasetning á Alþingi að leiða til einhverra slíkra þátta sem í sjálfu sér eru óþarfir. Það er auðvitað eðlilegast í ljósi þess að knýja á það fyrst áður en kemur til lagasetningar að þeir viðkomandi aðilar ræði saman og nái saman. Það eru öll rök til þess að það sé hægt með því að þeir skoði sín mál hvor í sínu lagi og geri sér sjálfir grein fyrir því hverjir séu eðlilegir rétthafar til þessarar skiptingar. Í því tilviki þarf Vélstjórafélag Íslands að gera greinarmun á vélstjórum sem annars vegar vinna á sjó og hins vegar á landi, hvort þeir eru félagar í Vélstjórafélaginu, hvort þeir eru félagar í Farmanna- og fiskimannasambandinu eða hvort þeir eru í Alþýðusambandi Íslands eða Sjómannasambandinu. Í slíkri úttekt þarf jafnframt að tryggja að menn séu ekki margtaldir í félögum til að njóta þessa réttar. Þannig að það eru full rök fyrir því að skoða málið ofan í kjölinn.