Þróun íslensks iðnaðar

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 02:19:33 (7002)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit það vel að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er að vinna sér einhver prik til þess að geta sagt það við hæstv. iðnrh. þegar hann kemur aftur til þings í ágúst að hann hafi hér staðið vaktina fyrir hann. Ég lái honum það ekkert. Hann þarf á slíkum prikum að halda, nægilega mörgum frumvörpum er hann búinn að slátra fyrir ráðherranum í vetur. Hins vegar er það nú þannig að þetta var nú frekar léttvæg vörn og ég nenni ekki að elta ólar við þessa sultusögu. Þetta er auðvitað ómerkilegur málflutningur. En það er þó kostur, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að þú ert enn að borða ýmsar nýjungar sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson beitti sér fyrir, en ég spyr: Hvað getum við borðað af því sem núv. hæstv. iðnrh. hefur beitt sér fyrir á síðustu fjórum árum?