Skattskylda innlánsstofnana

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 03:52:31 (7023)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Þar sem til stóð að ljúka 2. umr. í kvöld þá kýs ég að segja nokkur orð. Ekki síst vegna orða síðasta hv. ræðumanns. Ég hef þegar talað nokkrum sinnum í þessu máli í andsvari og hef komið . . .  ( ÓRG: Ef menn stytta ræður sínar til að ljúka umræðum hér þá . . .  að svara hérna núna. Þú varst beðinn um að gera það á morgun eða við upphaf 3. umr.) Hef ég orðið eða . . .  ? ( Forseti: Hæstv. fjmrh. hefur orðið.) Ég skal endurtaka það sem ég sagði. Mér hefur skilist að gert hafi verið samkomulag um að ljúka 2. umr. í kvöld þannig að mér er ókleift að taka til máls á morgun í lok 2. umr. Og af því að ég hef skilið hv. þm. á þá leið að það væri til bóta að ég talaði í 2. umr. þá hélt ég kannski að mér fyrirgæfist að taka til máls hér og nú jafnvel þótt klukkan sé langt gengin í fjögur og að í samkomulaginu hafi verið gert ráð fyrir því að umræðunni lyki klukkan þrjú.

    Ég skal fara hratt yfir sögu og ef það nægir . . .   (Gripið fram í.) ( ÓRG: Þá er það við upphaf 3. umr.) Það er allt í lagi með það ef menn vilja það heldur. En ég bið samt þingmenn að huga að því hvað sagt var hér í ræðu áðan. Það var sagt við lok 2. eða við upphaf 3. umr. og ég hélt kannski að það væri til bóta. En ef ég skil hv. þm. rétt og ég beini nú orðum mínum til hans þá er það hans vilji að ég geymi þá ræðu mína til upphafs 3. umr. á morgun. Skal ég að sjálfsögðu verða við því því mér gengur ekkert annað til en að greiða fyrir því að þetta mál geti orðið að lögum.