Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 13:26:12 (7059)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Eyjólfur Konráð Jónsson) :
    Herra forseti. Þetta mál lætur kannski ekki mjög mikið yfir sér en engu að síðar er það búið að vera til meðferðar alllengi, bæði í utanrmn. og oft verið á dagskrá líka án þess að það kæmi til umræðu.
    Ég skal reyna að lengja ekki umræðuna í þessum önnum heldur aðeins geta þess að talið er að grundvöllur þessarar tillögu sé sú staðreynd að vörum frá EFTA-ríkjum og EB-ríkjum sé mismunað á tyrkneska markaðnum, vörum frá EB-ríkjum í hag, eins og það er orðað í áliti meiri hluta utanrmn. sem ég er talsmaður fyrir en nál. er dags. 13. apríl.
    Í nefndinni var mikið rætt um möguleika á því að staðfesta samninginn en svo vildi til að einmitt um sama leyti og við vorum að fjalla um málið gengu þau ósköp yfir sem ég þarf ekki að rekja, aðfarir Tyrkja gagnvart Kúrdum. Þá varð til bókun, sem meiri hlutinn stendur að og í henni segir, með leyfi forseta:
    ,,Um leið og meiri hltuti utanrmn. fordæmir hvers kyns hryðjuverkastarfsemi vekur hann athygli á þeim skuldbindingum sem tyrknesk stjórnvöld hafa gengist undir á sviði mannréttinda og koma m.a. fram í samþykktum Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu (RÖSE) sem og Evrópuráðsins.
    Meiri hluti utanrmn. beinir því til utanrrh. að sérstök áhersla verði á það lögð af Íslands hálfu á vettvangi RÖSE, og á hverjum þeim öðrum vettvangi sem til þess gefst tækifæri að Tyrkir sem og aðrir þjóðir standi við alþjóðlegar skuldbindingar á sviði mannréttinda.``
    Það er sem sagt meiri hlutinn sem beinir því til utanrrh. og raunar er vilji okkar allra nefndarmanna að halda áfram vökunni í þessu efni.
    Minni hlutinn flytur dagskrártillögu á þskj. 810 og mun væntanlega gera grein fyrir henni.