Málefni fatlaðra

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 13:46:00 (7064)

     Frsm. meiri hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 1024 frá félmn. um frv. til laga um málefni fatlaðra.
    Nefndin kom saman að nýju að lokinni 2. umr. til að fjalla frekar um frv. og hún fékk á sinn fund til viðræðna um málið Ástu B. Þorsteinsdóttur frá Þroskahjálp, Arnþór Helgason frá Öryrkjabandalaginu, Tryggva Friðjónsson frá Sjálfsbjörg, Birgi Finnsson, Gyðu Vigfúsdóttur og Knút Birgisson frá Tjaldanesheimilinu, Önnu Kristínu Gunnlaugsdóttur og Kristján Þorgeirsson frá Skálatúnsheimilinu og Pétur Jónsson, framkvæmdastjóra Ríkisspítalana.
    Að gefnu tilefni vil ég að það komi fram hér að á fundi félmn. var það staðfest af hálfu fulltrúa Sjálfsbjargar, Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagsins að formaður félmn. hefur ekki synjað samtökunum um að fá að koma á fund nefndarinnar. Þau tjáðu sig um frumvarpið eins og það nú liggur fyrir og brtt. sem nefndin flytur og lýstu þau stuðningi sínum við hvort tveggja.
    Félmn. varð sammála um að flytja fimm viðbótarbreytingartillögur við frv. sem, eins og áður segir, eru birtar á sérstöku þskj. Tvær brtt. eru til að lagfæra misfellur í frv. eins og það er að lokinni 2. umr.

Í fyrsta lagi er lagt til að brott falli orðin ,,fimm manna`` í 1. mgr. 6. gr. þar sem kveðið er á um fjölda stjórnarmanna í svæðisráðum, sbr. 3. mgr.
    Í öðru lagi er lagt til að bráðabirgðaákvæði II falli brott þar sem það er óþarft eftir samþykkt laga um umönnunarbætur og nýútgefna reglugerð þar að lútandi.
    Þriðja brtt. lýtur að því að í 14. gr. er lagt til að félmrh. fái heimild til að gera sérstaka þjónustusamninga við félagasamtök og sjálfseignarstofnanir.
    Fjórða brtt. er við 15. gr. og gerir ráð fyrir að auk svæðisráðs geti stjórnarnefnd gert tillögu til félmrh. um að svipta rekstraraðila stofnana og heimila fyrir fatlaða starfsleyfi hafi hann ekki uppfyllt kröfur þeirra eða ráðuneytis um það sem talið er ábótavant í rekstri innan ákveðinna tímamarka. Þar er sem sagt áhersla á að stjórnarnefnd komi einnig að því máli.
    Fimmta brtt. er orðalagsbreyting við 49. gr. og er til að taka af öll tvímæli um efni greinarinnar og leyfi ég mér að lesa hana hér:
    ,,Við 49. gr. Greinin orðist svo:
    Tekjur sem falla til vegna þeirrar atvinnustarfsemi stofnana sem nýtur framlaga á fjárlögum skulu koma til frádráttar rekstrarkostnaði þeirra.``
    Þetta er til að gera það alveg ljóst að þær tekjur sem koma til frádráttar eru vegna atvinnustarfsemi sem nýtur framlaga á fjárlögum.