Greiðslukortastarfsemi

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 17:51:56 (7091)

     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Það er mjög óvenjulegt að fulltrúar stjórnarflokka í nefnd leggi til að frv. sé vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég man ekki mörg dæmi um það og man satt að segja ekki eftir að það hafi komið upp. Hitt er svo annað mál að það er skynsamlegt að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar en ég sé ekki beint þörfina hjá fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna að vísa þessu máli til sinnar eigin ríkisstjórnar sem að sjálfsögðu getur lagt málið fram á næsta þingi betur undirbúið.
    Hins vegar á þetta við um mörg þau mál sem er verið að fjalla um hér á Alþingi þessa stundina. Það væri mjög skynsamlegt að vísa mörgum þeirra til ríkisstjórnarinnar og væri betur að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna hefðu tekið upp þessa nýbreytni í fleiri málum. ( ÓRG: Það mundi greiða fyrir þingstörfum.) Já, það mundi greiða fyrir þingstörfum, en ég er ekki aðallega að hugsa um það því það er aðalatriðið að það eigi sér stað skynsamleg lagasetning hér á Alþingi. Það verður að hafa það þó það taki einhvern tíma. En mörg af þeim málum sem hér eru til umfjöllunar ættu betur heima hjá ríkisstjórninni í sumar þannig að menn fengju tíma til að lagfæra þau, t.d. á það við um frv. til laga um skattskyldu innlánsstofnana. Þó þetta mál hér hafi á margan hátt verið gallað þá er hitt miklu verra. Það er mjög mikilvægt að Alþingi gæti samræmis í lagasetningu.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, hæstv. forseti. Ég féllst á að vera með í þessu nál. Ég skal játa að það kom nokkuð á óvart að formaður nefndarinnar skyldi leggja til þennan afgreiðslumáta en ég féllst á hann og taldi skynsamlegan eftir nokkra umhugsun en ég legg á það áherslu að ég tel að formaðurinn hefði betur lagt hann til í fleiri málum og er ég ekki frá að hann hafi látið sér detta það í hug, en ég á ekki von á því að það hefði vakið mikla hrifningu hjá hæstv. fjmrh. sem er hér í þinginu. En það vill svo vel til að hæstv. viðskrh. er ekki viðstaddur en mér er mjög til efs að hann hefði fallist á slíka meðferð á þessu máli að því væri vísað með þessum hætti til hans, en ég skora á hæstv. fjmrh. að fallast á sams konar lítillæti og hæstv. viðskrh. hefur greinilega tamið sér í þessu máli og e.t.v. fleiri málum.