Kosning í menntamálaráð

154. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 02:34:07 (7185)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ef það mætti eitthvað hjálpa hinu háa Alþingi þá þykir mér rétt undir þessari þingskapaumræðu að vitna í grein í Morgunblaðinu frá 16. maí sl. sem ber yfirskriftina Moldviðri um Menningarsjóð og er eftir Sigurð Líndal prófessor í lögum við Háskóla Íslands. Ég tel að sú grein geti hjálpað þingheimi að hugsa sinn gang. Hér er örstuttur kafli, sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta. Hann heitir: Getur Alþingi kosið nýjan aðalmann í stjórn eða ráð þegar sá sem fyrir er fellur frá eða biðst lausnar eða tekur varamaður sæti hans? Prófessorinn segir:

    ,,Um þetta eru ekki neinar afdráttarlausar almennar reglur. Næst liggur að líta til þeirra reglna sem gilda um alþingismenn sjálfa. Í 130. gr. laga nr. 80/1987, um kosningar til Alþingis, er svo mælt að varamaður taki sæti þingmanns sem deyr eða segir af sér þingmennsku. Eðlilegt er að líta á þetta sem aðalreglu og taki hún einnig til þeirra sem Alþingi kýs listakosningu til trúnaðarstarfa í ráð og nefndir, enda séu varamenn kosnir.
    Frá þessari aðalreglu má svo gera ráð fyrir tveim undantekningum: að lög mæli á annan veg eða föst venja sé fyrir öðru. Dæmi eru um sérstök lagafyrirmæli en ekki er ástæða til að fjölyrða um þau enda ekkert slíkt ákvæði í lögum um menntamálaráð.
    Venja er vandmeðfarnari en sett lög þar sem oft er örðugt að slá föstu hver hún er . . .   Með nokkurri eftirgrennslan hef ég fundið mörg dæmi um að Alþingi hefur fyllt skörð í nefndir og ráð við afsögn eða fráfall með því að kjósa nýja aðalmenn þótt varamaður væri tiltækur, en einnig eru dæmi um að varamaður hafi tekið sæti aðalmanns. Því verður ekkert fullyrt um fasta venju.
    Þessi niðurstaða styrkist þegar haft er í huga að ekki verður annað séð en ætlunin hafi verið að Ragnheiður Davíðsdóttir tæki sæti án kosningar sem aðalmaður í menntamálaráði við fráfall Helgu Kristínar Möller.``
     Síðan segir prófessorinn og mætti það kannski vera íhugunarefni og lík ég þá tilvitnun minni. ,,Á kosningu aðalmanns var fyrst minnst þegar Ragnheiður hafnaði því að styðja ólöglegar aðgerðir.`` Frú forseti, þetta er þungur áfellisdómur eins virtasta prófessors í lögum við Háskóla Íslands ef hann ber það á Alþingi Íslendinga að hér standi til að fara að kjósa aðalmann þó að sitjandi varamaður sé tilbúinn til að taka starfann að sér en henni sé hafnað vegna þess að hún styður ekki ólöglegar aðgerðir.