Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Það hefur verið talið sjálfsagt og eðlilegt á Alþingi til þessa að ef fulltrúar flokka í stjórnum, nefndum eða ráðum hafa sagt af sér á kjörtímabilinu, sama hvaða ástæða liggur að baki þeirri afsögn, þá hefur þingið samþykkt það að viðkomandi flokkur gæti gert tillögur á Alþingi um menn í staðinn og fallist á að kjósa samkvæmt beiðnum viðkomandi flokks. Þetta er sú siðvenja sem hefur ríkt hér.
    Hv. alþýðubandalagsmenn boðuðu það hér fyrir nokkru síðan að þeir mundu veita þessari ríkisstjórn mjög harða, málefnalega andstöðu. Andstaðan er svona eins og hún hefur komið fram hér í dag. Ég held að það væri mjög ákjósanlegt að þeir hv. alþýðubandalagsmenn, sem hér hafa talað í þessari umræðu, haldi því áfram með þeim hætti sem þeir hafa gert.
    Ég vil aðeins minna á að það er ekkert ýkja langt síðan átti að ganga til kosninga hér á Alþingi um stjórn í annarri ekki síður mikilvægri stofnun en útvarpsráði. Það var í stjórn Seðlabanka Íslands. Einum sólarhring áður en ganga átti til þeirra kosninga sagði fulltrúi Alþb. í stjórn Seðlabankans, Þröstur Ólafsson, af sér vegna pólitísks ágreinings við formann Alþb. sem hér var að tala rétt áðan. Formaður Alþb. óskaði þá eftir því að kosningunni sem fyrirhugað var að fram færi daginn eftir yrði frestað svo að Alþb. gæfist kostur á að finna nýjan frambjóðanda. Á það var fallist og kosningunni var frestað í þrjár vikur á meðan formaður Alþb. leitaði að nýjum manni og engum datt í hug að hreyfa við því andmælum eða krefja formanninn sagna um það hvort hinn nýi fulltrúi Alþb. í stjórn Seðlabankans hefði traust formannsins sem Þröstur Ólafsson hafði ekki eða öllu heldur hafði formaðurinn ekki traust hans.
    Þetta er furðuleg umræða sem hér á sér stað og ég held að það væri mjög æskilegt fyrir ríkisstjórnina að hún héldi sem allra lengst áfram og að þeir sömu menn sem taka þátt í umræðunni af hálfu Alþb. haldi sinni þátttöku áfram. Ég er sérstaklega ánægður með það að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson skuli hafa kvatt sér hljóðs hér aftur.