Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 17:05:00 (226)

     Össur Skarphéðinsson :
     Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er væntanlega eitt af þeim mikilvægustu sem koma til kasta þessa þings. Hér er um að ræða einn mikilvægasta viðskiptasamning sem gerður er af Íslendingum frá því lýðveldið var stofnað. Það er auðvitað ljóst að við stöndum í mjög erfiðri og viðkvæmri stöðu í dag. Það er erfitt að meta þann árangur sem kann að nást og það er erfitt að meta það núna hvort við munum yfir höfuð ná þeim samningum sem þetta þing telur viðunandi og sem hægt er að sætta sig við fyrir hönd þessarar þjóðar. En þessi umræða hefur verið að mestu leyti mjög málefnaleg og ég fagna henni og tel að hún hljóti auðvitað að vera mjög mikilvægt veganesti fyrir utanrrh. og samningamenn íslenska ríkisins þegar þeir halda utan til lokahrinunnar.
    Það hefur komið fram hér í máli, til að mynda Steingríms Hermannssonar, hv. þm. Reykn., að hann hefur vissar spurningar um fyrirvara við þennan samning. Mér var þó ekki ljóst á máli hans hver er raunverulega afstaða hans og hans flokks til þessa samnings. Ég vænti þess að þegar hann kemur upp hér á eftir muni hann gera það örlítið ljósara fyrir þingheimi.
    Kristín Einarsdóttir, sem því miður er ekki lengur í salnum, kom hér upp og drap talsvert á þau rök sem menn hafa fært gegn Evrópska efnahagssvæðinu. Ég verð að segja að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með verulegan hluta þeirrar ræðu. Kristín drap t.d. á að hún teldi að Alþfl. styddi samninga um Evrópskt efnahagssvæði og sagði, með leyfi hæstv. forseta: ,,nánast án fyrirvara.``
    Þetta er auðvitað alrangt og þetta er skrýtið í ljósi þeirra yfirlýsinga sem komu fram hjá hæstv. utanrrh. skömmu áður en hv. þm. tók til máls. Það er t.d. alveg ljóst að fyrirvarar eru um það að hér verða aldrei einhliða veiðiheimildir settar í staðinn fyrir tollfrelsi. Og það er alveg ljóst að það er ófrávíkjanlegt af hálfu þessarar ríkisstjórnar, af hálfu þessa utanrrh., af hálfu Alþfl., að útlendingum verður ekki hleypt inn með fjárfestingar. Þannig að þetta stenst einfaldlega ekki hjá hv. þm. Kristínu Einarsdóttur.
    Kristín notaði jafnframt gamalkunnug rök sem oft heyrast hjá andstæðingum Evrópsks efnahagssvæðis, sem sagt að menn ættu ekki að vera að binda allan þennan tíma, allt þetta atgervi og alla þessa fjármuni sem hafa farið til samninga um Evrópskt efnahagssvæði, til þess eins að njörva Íslendinga á eitt markaðssvæði. Þessi rök skil ég ekki. Hér er um að ræða misskilning hjá hv. þm. á eðli EES annars vegar og Efnahagsbandalagsins hins vegar, vegna þess að það er auðvitað alveg ljóst að í viðræðum um Evrópskt efnahagssvæði hefur frá upphafi ekki verið stefnt að sameiginlegri viðskiptastefnu, þannig að munurinn á EES og EB er m.a. sá að EES er ekki tollabandalag. Það er því ekkert sem segir að þó að Íslendingar gerist aðilar að Evrópsku efnahagssvæði geti þeir ekki gert sérstaka fríverslunarsamninga við önnur ríki. Það er auðvitað verið að vinna að því núna í utanrrn. að ná góðum samningum um viðskiptasambönd við Asíuríki, við ýmis ríki í Austur-Evrópu, jafnvel Bandaríkin. Sá misskilningur veður að vísu mikið uppi hjá ýmsum hv. þm. stjórnarandstöðunnar að það skipti verulegu máli fyrir okkur að ná fríverslunarsamningi við Bandaríkin. Það er ekki svo. Meðaltollurinn til að mynda á íslenskum fiskafurðum til Bandaríkjanna er 1,2%. Ef við gerðum þennan samning yrðum við sennilega fyrir tekjutapi, við yrðum að fella niður tolla sem eru mun hærri á innflutningi frá Bandaríkjunum. Þannig að ég vísa þessum rökum andstæðinga Evrópsks efnahagssvæðis, um að það sé ekki hægt að binda okkur með þessum hætti við eitt markaðssvæði, algjörlega út í hafsauga.
    Menn hafa rætt nokkuð um gagnkvæmar veiðiheimildir og ég tók eftir því að hæstv. fyrrv. sjútvrh. hann tróð þar varlega slóðina. Hann hafnaði þeim alls ekki. Hann nefndi það að menn yrðu að vita með hvaða hætti væri þar um vélað. Ég er alveg sammála honum. Ég tel að ekki sé hægt að semja um gagnkvæmar veiðiheimildir eins og hver og einn vill. En með þeim hætti sem verið var að semja, til að mynda á hinum örlagaríka fundi hér í sumar, tel ég mjög vel ásættanlegt. Hvað var verið að ræða um þar? Það var verið að ræða um að við mundum skipta á annars vegar 30 þús. tonnum af loðnu og hins vegar langhala að ígildi 2.600 þorsktonnum. Þið hafið vafalaust aldrei séð langhala. Ég hef einu sinni borðað hann og hann er góður. En ég tel hins vegar að þó að lítið sé vitað um þessa fisktegund sé auðvitað alveg ljóst að þetta er tegund sem við erum ekki að nýta þannig að við erum þarna að fá eitthvað fyrir ekkert.
    Það er líka alveg ljóst að miðað við þær upplýsingar sem að vísu liggja ekki fyrir frá fiskifræðingum heldur frá sjómönnum úr kjördæmi hæstv. fyrrv. sjútvrh., þá hagar langhali sér þannig að á haustum gengur hann bersýnilega saman í torfum til hrygningar og það er auðvelt að veiða hann. En ég segi auðvitað gagnkvæmar veiðiheimildir, við skulum skoða það ef þarf en við skulum vera mjög ströng á þeim. Við mundum þá væntanlega skilgreina þau svæði sem mætti hleypa útlendingum á grundvelli gagnkvæmra heimilda inn í. Við mundum búa til hólf. Við mundum setja tilkynningaskyldu og við mundum að sjálfsögðu meina þessum útlendingum að veiða í þessu hólfi nema um borð væri íslenskur veiðieftirlitsmaður. Ég tel því fullásættanlegt að íhuga þetta mjög sterklega.
    Svo vil ég auðvitað minna á eitt þegar menn eru að tala um veiðiheimildir. Eru ekki útlendingar með einhliða veiðiheimildir í íslenskri landhelgi? Hvað með Færeyinga? Er það ekki af því örlæti sem frændsemin skýtur mönnum stundum í bringu að við höfum leyft þeim að veiða? Og hvað með Belga? Var það ekki líka af því örlæti sem við fylltumst af þegar þeir á sínum tíma veittu okkur nauðsynlega og dýrmæta aðstoð í erfiðri landhelgisdeilu að við gáfum þeim kvóta sem að vísu er bundinn við skip þannig að smám saman minnkar þessi kvóti. Menn skulu þess vegna aðeins staðnæmast og íhuga þetta mál áður en þeir halda því fram að hér sé, eins og hv. þm. Kristín Einarsdóttir orðaði það: Gagnkvæmar heimildir eru blekkingar. Þetta er alrangt og þetta er málflutningur sem er ekki sæmandi þessari tegund af umræðu.
    Hvað er það þá sem er í húfi? Það er nefnilega miklu meira í húfi en menn gera sér grein fyrir. Ég lít svo á að það sem er í húfi sé uppbygging íslensks sjávarútvegs næstu tvo áratugi. Við búum við það í dag að Evrópubandalagið hefur komið upp mjög harðvítugri tollastefnu gagnvart okkur sem byggist á því að annars vegar er verið að hafa lága og jafnvel lækka tolla á hráefni og hins vegar er verið að halda uppi háum tollum á unninni vöru. Með öðrum orðum, það er verið að gera tvennt. Það er verið að flytja út virðisaukann og það er verið að flytja út atvinnu. Hvort tveggja þurfum við. Vitaskuld er það rétt að í dag höfum við markaði fyrir unnin ferskflök, t.d. í Bandaríkjunum. Við erum að fá þar allt upp í 520--550 kr. á kg meðan gamla frysta þorskblokkin er að gefa okkur 320--350 kr. Markaðurinn, eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði áðan, vaxtarbroddur markaðarins liggur í þessu og það verðum við að íhuga mjög vel og vandlega þegar við förum út í þessa samninga. Ingibjörg Sólrún sagði áðan að tollar á ferskum þorskflökum mundu ekki breytast. Það er nefnilega ekki rétt. Hafi ég skilið rétt, þá er þetta eitt af því sem tekist er á um. Og það skiptir mjög miklu máli. Ef það tekst að fá afnám tolla á þessari vöru, þá skiptir það einfaldlega geysilega miklu máli.
    Mér kom það nokkuð á óvart að heyra menn tala eins og þessi ríkisstjórn væri að falla frá öllum fyrirvörum. Ég veit ekki betur en þeir fyrirvarar sem í upphafi voru settir, t.d. um sjávarútveg, þeir halda, um nýtingu orkulinda, um sölu orku, þeir halda. Ólafur Ragnar Grímsson, hv. 8. þm. Reykn. talaði um jarðakaup. Það vildi svo til að ég var

á sínum tíma stuðningsmaður þeirrar ríkisstjórnar sem hann sat í. Þar var uppi mjög skýlaus og afdráttarlaus stefna í þessum málum sem hæstv. utanrrh. lýsti mjög vel áðan. Ég var því sammála að það væri hægt að setja girðingar í íslensk lög og hafa síðan ef í óefni stefndi sem neyðarúrræði hið almenna öryggisákvæði. Ég tel þetta rétta stefnu enn þá og ég vek athygli á því að öll EFTA-ríkin eru sömu skoðunar. Hæstv. umhvrh. spurði áðan: Hvað hefur breyst hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni? Hann er vafalaust maður til þess að svara fyrir sig, en ætli það sé ekki aðallega það að hann er ekki lengur í ríkisstjórn.
    Ég held líka að við verðum að íhuga stöðu Íslands og hugsa hina almennu pólitík sem felst í því að hafna þessum alþjóðlegu samningum. Hvað verður þá um Ísland? Ekki skal ég segja litla Ísland. Auðvitað getum við áfram staðið einir og óstuddir. ( SvG: Er búið að semja?) Það er nefnilega ekki búið að semja, ágæti þm. Svavar Gestsson, og ég tel einmitt að þessi umræða sé þörf og jákvæð og á henni sé mikið mikilvægi einmitt vegna þess að okkar menn eru að fara að ganga til lokahrinunnar. Það er þess vegna sem það er í anda þess lýðræðis sem við búum við að við tökum þessa umræðu og þess vegna er það mjög virðingarvert af stjórnarandstöðunni og hv. þm. Steingrími Hermannssyni að taka þetta upp á þessum tímapunkti vegna þess, eins og fram hefur komið hjá ræðumönnum í þessari pontu, að menn eru að reyna að ræða sig niður á það hvað er viðunandi.
    Ég verð að segja: Hvað verður um Ísland? Hvað verður um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi? Það var komið lítillega inn á það áðan. Danir eru komnir í Efnahagsbandalagið. Svíar munu verða þar innan nokkurra ára. Finnar, hvað verður síðan um Noreg? Hvað þýðir þetta þá? Við verðum einangraðir. EFTA verður að engu. Hvað með Norðurlandaráð? Eru ekki að verða miklar breytingar þar? Ég veit ekki betur en menn hafi verið að gera því skóna að mikilvægi Norðurlandaráðs mundi breytast allverulega. Er ekki að verða til nýr öxull landa Eystrasaltsríkjanna og Norðurlandanna? Er ekki talað um að þau muni beita sér sem ás gagnvart Evrópu, þá væntanlega á grundvelli hins Evrópska efnhagssvæðis? Hvað verður þá um okkur? Þetta eru líka hlutir sem skipta verulegu máli og við þurfum líka að hafa til hliðsjónar.