Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 18:00:00 (230)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja það að ég tel að þær umræður sem hér hafa farið fram í dag séu með mjög fáum undantekningum afar gagnlegar. Við stöndum bersýnilega á þröskuldi erfiðra og flókinna ákvarðana og það er í rauninni ekkert einfalt mál að fjalla um þessa hluti við þær aðstæður sem nú eru. Ég tel að það hafi raunar tekist allvel og menn hafi í öllum meginatriðum reynt að fara málefnalega í hlutina ef frá eru skildar örfáar athugasemdir sem komu fram fyrr í dag frá t.d. hæstv. umhvrh. sem sá ástæðu til að blanda sér í málið án þess að mikið hefði verið varpað á hann orði sérstaklega í umræðunum.
    Það hefur verið mjög athyglisvert t.d. að fylgjast með málflutningi talsmanna Sjálfstfl. þar sem augljóst mál er að menn tala með mismunandi áherslum. Ég tel ástæðu til þess að þakka hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni fyrir þá ræðu sem hann flutti hér í dag vegna þess að ég skildi hana þannig að þar væri verið að vara við, m.a. í ljósi þeirrar reynslu sem þjóðin hefur af alþjóðlegum samskiptum, ekki síst í hafréttar- og landhelgismálum á undanförnum áratugum. Og ég tel að það sé mjög mikilvægt að formaður utanrmn. geri grein fyrir málum með þeim hætti sem hv. þm. gerði fyrr í dag.
    Það kvað við talsvert annan tón hins vegar hjá öðrum talsmanni Sjálfstfl. hér í dag, hv. þm. Birni Bjarnasyni. Ég veit ekki hvor þeirra talaði fyrir Sjálfstfl. langsum og hvor

talaði fyrir Sjálfstfl. þversum en það var nokkuð ljóst í þessu máli að þeir töluðu sinn með hvorum hætti. Og það er alveg rétt sem einhver hv. þm. sagði í dag að í rauninni er hér um að ræða svo örlagaríkt mál að um það getur auðvitað verið ágreiningur, ekki aðeins á milli flokka heldur einnig innan flokka. Og það var reyndar hv. þm. Björn Bjarnason, man ég núna, sem komst þannig að orði sem mér finnst athyglisvert og bendir til þess að hann gerir sér grein fyrir því að innan Sjálfstfl. eru mjög mismunandi áherslur uppi í þessu máli.
    Ég vil einnig leyfa mér að andmæla því sem fram kom hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um það að í rauninni hafi þeir fyrirvarar sem gerðir voru í tíð fyrri ríkisstjórnar í þessu máli verið heldur veigalitlir. Ég tel að þeir hafi skipt mjög miklu máli eins og rakið var hér af hv. 7. þm. Reykn. Afstaða Alþb. var sú í þessu máli að það var rétt að okkar mati og ég tel það enn rétt að kanna hvað í þessum samningum gæti falist fyrir hagsmuni Íslands. Ég tel að í þessari afstöðu okkar alþýðubandalagsmanna felist engin einangrunarstefna eins og var verið að reyna að klína á okkur hér fyrr í dag, heldur þvert á móti. Við töldum að okkur væri skylt að líta til allra átta og fara vandlega yfir það. Eru í þessum málum einhverjir kostir sem geta styrkt stöðu Íslands í hinu alþjóðlega, almenna viðskiptasamstarfi?
    Núna hins vegar liggur fyrir má segja í grófum dráttum hvað er í boði þó að það sé ekki 100% ljóst. Þá er niðurstaðan í fyrsta lagi sú að maður hlýtur að spyrja sig þegar komið er að umræðum af þessu tagi: Hvað græðum við á þessu? Hvað höfum við upp úr þessu? Bætum við okkar lífskjör á því að gerast aðilar að samningunum um Evrópskt efnahagssvæði?
    Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar, Íslenskur þjóðhagsbúskapur og Evrópska efnahagssvæðið, er ítarleg athugun á þjóðhagslegum áhrifum hugsanlegrar aðildar að Evrópsku efnahagssvæði. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 86:
    ,,Höfuðniðurstaða þessarar athugunar er sú að mögulegur ávinningur af þátttöku Íslands í EES sé fyrir hendi.`` Þetta er nú ekki mjög hátimbrað orðalag. ,,Ekki er um mjög stórar fjárhæðir að ræða á hverju ári á þjóðhagslegan mælikvarða, en hér er um varanlegan ávinning að ræða``, segir hér. ,,Hver króna í varanlegum tekjuauka jafngildir um 18 kr. greiðslu``, hvorki meira né minna, 18 kr. greiðslu ,,í eitt skipti fyrir öll, sé miðað við 6% raunvexti. Þannig jafngildir varanleg aukning einkaneyslu um 0,7% um 24 þús. kr. á ári á hverja fjögurra manna fjölskyldu``, þ.e. 6 þús. kr. á ári á mannsbarn, en það er nú ekki sagt hér, ,,sem núvirt, miðað við 6% raunvexti, jafngildir um 425 þús. kr. eingreiðslu. Þetta er lægsta talan (eftir 8 ár) í töflum 2 og 3. Sé miðað við hæstu töluna, sem er 3,1% aukning einkaneyslu, fæst varanleg aukning um 107 þús. kr. á ári á hverja fjögurra manna fjölskyldu, sem jafngildir um 1 millj. 882 þús. kr. eingreiðslu.`` Nákvæmt skal það vera, enda eru þetta miklir vísindamenn sem skrifa, sem jafngildir 1 millj. 882 þús. kr. eingreiðslu. Svo segir orðrétt, með leyfi forseta enn á ný: ,,Þegar þessar tölur eru settar í slíkt samhengi öðlast þær nýja merkingu.``
    Fyrir mér öðlast þetta þá nýju merkingu, sem er svo sem engin frétt fyrir mig en kannski einhverja, að það sé frekar lítið á þessu að græða og það sé ástæðulaust að glúpna eða kikna í hnjáliðunum frammi fyrir stærðum af þessu tagi og um þetta eru í rauninni allir sammála. Það er sáralítið á þessu beint að græða. Auk þess er það þannig, eins og hv. 7. þm. Reykn. benti hér á fyrr, að við getum auðvitað með einhliða ákvörðunum af ýmsu tagi tryggt okkur það hagræði sem felst í samstarfinu um Evrópskt efnahagssvæði án þess í rauninni að gerast aðilar að því. Með öðrum orðum er það ávinningur sem skilar sér til okkar hvort eð er vegna hinna almennu, alþjóðlegu viðskipta, séstaklega auðvitað við Evrópu, sem við komum til með að eiga. Þegar upp er staðið verður því hagnaðurinn af þessu í peningum, jafnvel þó að Þjóðhagsstofnun telji sig geta reiknað það upp á 18 kr. á mann með 6% raunvöxtum, orðinn svo smár að það er væntanlega ekki það sem dregur menn. Hvað er það þá?
    Það er a.m.k. þannig að það er viðurkennt að við högnumst ekki á þeim ákvæðum samninganna um Evrópskt efnahagssvæði, ef af verður, sem snerta landið eða fjárfestingu útlendinga eða atvinnumálin. Það er viðurkennt af utanrrh. að í öllu þessu felist í raun og veru stórkostleg áhætta og hann er búinn að sveitast við það lengi, bæði þegar hann var í ríkisstjórn með mér og þar áður og svo í þessari, að finna aðferðir til þess að losa þjóðina við þessa áhættu. Það viðurkenna allir að þetta er stórfelld áhætta fyrir Ísland að því er varðar landið sérstaklega, fjárfestingu útlendinga og atvinnumálin á landinu í heild. Það viðurkenna það allir, líka hæstv. utanrrh. Og þá spyr ég: Er það skynsamlegt í ljósi þessa litla hagnaðar, sem menn viðurkenna líka, að menn séu að taka svo stóra áhættu með sjálfstæði lands og þjóðar, þ.e. möguleika okkar til að ráða yfir landinu sjálfu? Er það réttlætanlegt, ég spyr, að taka áhættu andspænis afar litlum hugsanlegum ávinningi?
    Það liggur einnig fyrir að það eru mörg spurningarmerki og margar hættur á veginum í sambandi við dómstólinn eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson rakti áðan. Sömuleiðis er mörgum spurningum ósvarað varðandi möguleika hinna samningsþjóðanna á gagnráðstöfunum gegn okkur. Við vitum ekki í raun og veru hversu langt er hægt að ganga í þeim efnum, hvort um er að ræða gagnráðstafanir á sama sviði eða hvort menn geta í raun og veru hefnt fyrir ákvarðanir sem við kunnum að taka á einu sviði með hverju sem er, að menn geti í raun og veru brugðið fyrir sig gersamlega ólíkum vopnum til að berja til baka eitthvað sem við kunnum að ákveða og menn telja í blóra við samninginn. Það er þess vegna alveg augljóst mál að mörgum spurningum er ósvarað. Menn eru þarna á mjög þunnum ís og ég bið menn í fullri vinsemd að fara yfir þetta málefnalega og skoða hug sinn, hver og einn, vegna þess að hér er auðvitað ekki um það að ræða að menn geti leyft sér að taka afstöðu út frá neinu öðru en sinni eigin samvisku gagnvart landi og þjóð og þeim kjósendum sem hafa kosið menn hér inn í þessa virðulegu stofnun.
    Það er einnig viðurkennt, og það er ekki nokkur leið að neita því, að með því að gerast aðilar að þessum samningsdrögum eða samningum eins og þeir hugsanlega verða erum við að þrengja okkar löggjafargetu. Í sjálfu sér er ekki rétt að taka þannig til orða að við séum að afsala okkur löggjafarvaldi, heldur erum við auðvitað um leið og við samþykkjum aðild að Evrópsku efnahagssvæði að samþykkja mjög viðamikla lagabálka sem útiloka það í raun og veru að við getum breytt lögum á því sviði. Við erum að þrengja okkar löggjafargetu. Það er ekki hægt að neita því.
    Það er auðvitað fullkomlega rangt hjá hæstv. umhvrh. þegar hann segir að rökin gegn þessu, eða spurningarnar sem bornar eru fram, séu nákvæmlega þau sömu og í EFTA-málinu á sínum tíma. Ég er sannfærður um að ef menn fletta þeim umræðum er um að ræða talsvert aðrar áherslur. Við skulum gera okkur grein fyrir því að í EFTA-málinu á sínum tíma voru aðalrök þeirra sem héldu með EFTA þau að með því opnaðist markaður 100 milljón manna sem við ella fengjum ekki aðgang að. Og í töflum sem ég hef látið dreifa með þingskjali um íslenskan iðnað kemur fram að í rauninni höfum við ekki styrkt okkar útflutningsiðnað eða samkeppnisiðnað á þessum tíma sem liðinn er í samræmi við þær spár og fyrirheit sem gefin voru varðandi aðildina að EFTA á sínum tíma. Ég held þess vegna að menn eigi ekki að vera að bregða sér ofan í fornar skotgrafir í þessu efni, heldur skoða þetta mál efnislega út frá þeim rökum sem liggja fyrir í augnablikinu.
    Ég mótmæli síðan sérstaklega því sem fram kom hjá hv. 17. þm. Reykv. Össuri Skarphéðinssyni, þeirri afstöðu sem kom fram í spurningunni: Hvað verður um Ísland? Ég vona satt að segja að þeir í Brussel frétti ekki af þessu. Það er vond samningsstaða fyrir hæstv. utanrrh. að hafa þetta á bakinu. Það er vond samningsstaða fyrir utanrrh. að hafa það á bakinu að formaður þingflokks Alþfl. telji að Ísland eigi engra annarra kosta völ en að ganga inn í þetta kerfi. Það er ekki svo. Í raun og veru er það þannig að Ísland á stórfellda þróunarmöguleika inn í framtíðina hvað svo sem samningum líður. Staðreyndin er sú að við erum hérna með einhverjar auðugustu orkulindir sem um getur. Við getum byggt upp lífskjör á Íslandi þegar fram í sækir og staðan á hinum alþjóðlega orkumarkaði breytist. Þá getum við byggt hér upp lífskjör á Íslandi sem eru með því besta sem nokkurs staðar gerist. Það er ekki nokkur vafi á því. Þess vegna er algjörlega fráleitt og stórhættulegt að setja sig í þær stellingar að við eiginlega neyðumst til að gera þennan samning um Evrópskt efnahagssvæði, annars séum við bara einangruð og eigum engra annarra kosta völ. Því fer víðs fjarri. Íslenska þjóðin á marga aðra kosti. Og í því að segja það eru menn ekki í raun og veru að taka undir neitt sem heitir einangrunarstefna heldur þvert á móti. Í þessari Evrópuumræðu er það þannig að þeir sem tala fyrir tengingunni við Evrópu eru í rauninni oft og tíðum mestu einangrunarsinnarnir af því að samningarnir um Evrópskt efnahagssvæði og við Evrópubandalagið og vinnubrögð Evrópubandalagsins ganga út á það að einangra Evrópu í lúxusklúbbi í heiminum, verja Evrópu gagnvart öðrum hlutum veraldarinnar. Það er sú ljóta einangrunarhyggja sem felst í þessum Evrópumálum.
    Að síðustu, virðulegi forseti, ítreka ég þá fyrirspurn sem kom fram fyrr í dag varðandi spurninguna um þjóðaratkvæði og það væri fróðlegt að heyra hvaða skoðun utanrrh. hefur á því máli. Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að það sé mjög vandmeðfarið hvernig svona mál yrði lagt fyrir þjóðina. Ég tel engu að síður að ef svo fer að samningar verða gerðir sé málið svo stórt, eins og hæstv. utanrrh. hefur aftur og aftur sagt, að okkur sé skylt að íhuga það hvort á að láta ganga um það þjóðaratkvæði. Mín niðurstaða um málið, að svo miklu leyti sem ég þekki það á þessu stigi, er sú að við tökum of mikla áhættu miðað við sára lítinn ávinning.