Notkun kjarnakljúfa á höfum úti

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 10:33:00 (237)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
     Frú forseti. Á undanförnum vikum hafa þeir gleðilegu atburðir gerst að Bandaríkjamenn, Bretar og Sovétmenn hafa einhliða lýst yfir fækkun kjarnaodda um borð í herskipum sínum. Þetta eru óneitanlega mikilvæg og þakkarverð skref í átt til afvopnunar, en þau duga þó ekki og draga auk þess hlutfallslega lítið úr þeirri vá sem öllu lífríki jarðar stafar af gífurlegri notkun kjarnorku á höfum úti. Nú er talið að um 570 kjarnaofnar séu um borð í skipum og kafbátum kjarnorkuveldanna fimm og þessi fljótandi kjarnorkuver sigla um auðug fiskimið og hrygningarstöðvar í Norður-Atlanshafi. Vegna andstöðu stjórnvalda í kjarnorkuríkjunum eru þessi skip ekki háð öryggisreglum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, enda er það í andstöðu við reglur þessarar stofnunar að starfrækja kjarnakljúfa við hlið vopna og annarra hættulegra efna sem vissulega eru um borð í herskipum.
    Kjarnorkuknúnir kafbátar eru kjarnorkuveldunum mjög mikilvægir vegna þess að þeir geta verið í kafi mánuðum saman en dísilknúnir kafbátar geta aðeins verið í kafi nokkra tíma í senn. Einmitt þess vegna þarf að halda mjög fast á málum gagnvart kjarnorkuveldunum ef á að takast að fá þau til að draga úr notkun kjarnakljúfa um borð í herskipum. Og það eigum við Íslendingar að gera og verðum að gera ef okkur er annt um lífsbjörgina okkar.
    Óhöpp eru tíð um borð í kafbátum. Á árunum 1954--1988 var tilkynnt um 200 óhöpp í kjarnorkuknúnum kafbátum. Sjö kjarnorkukafbátar hafa farist, þar af sex í Norður-Atlantshafi og a.m.k. fimm sitja enn á hafsbotni. Þessir kafbátar eru eins og vistfræðilegar tímasprengjur. Einn þessara kafbáta er sovéski kafbáturinn Komsomolets sem fórst fyrir utan Bjarnarey árið 1989. Óttast menn að öryggisskjöldurinn um bátinn gefi sig og ætla því að freista þess að ná flaki hans af hafsbotni. En það er ekki síður áhættusöm aðgerð. Berist geislavirk efni frá þessum kafbáti út í hafið er ekki endilega víst að þau hafi áhrif á fiskstofna okkar, en þau munu auðveldlega geta haft áhrif á markaðsmál okkar og það er til lítils að semja um tollfríðindi fyrir fiskinn okkar ef enginn vill kaupa hann.
    Það er sannfæring mín að afvopnun á höfunum og kjarnorkuafvæðing hafanna sé lífsspursmál fyrir okkur Íslendinga og þess vegna er eftirfarandi fsp. lögð fram til hæstv. utanrrh. á þskj. 7. Hún er svohljóðandi:
    ,,Hyggst ríkisstjórnin beita sér fyrir alþjóðlegri viðurkenningu á nauðsyn þess að draga nú þegar úr notkun kjarnakljúfa á höfum úti?``