Umferð kjarnorkuknúinna herskipa um íslenska lögsögu

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 10:49:00 (244)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 10 þm. Reykv. fyrir að taka þessa fsp. fyrir á hinu háa Alþingi. Ég tek undir með henni að ég vildi að ég væri eins sannfærð og hæstv. utanrrh. um það að hér hafi ekki komið herskip með kjarnavopn innan borðs.
    En ég leyfi mér að ítreka spurningu til hæstv. utanrrh. Hér liggur fyrir beiðni um skriflegt svar frá hv. 10. þm. Reykv. um herskipakomur í íslenskar hafnir og íslenska lögsögu. Þegar hefur komið svar við henni og þar fylgir mikil upptalning af herskipum af öllu tagi. Ég leyfi mér að biðja hæstv. utanrrh. að segja það hér og nú svo það sé skráð. Er það alveg öruggt að ekkert af þessum skipum hefur borið kjarnavopn?
    ( Forseti: Fleiri hafa ekki kvatt sér hljóðs.) Ég var að spyrja hæstv. ráðherra. ( Forseti: Það hafa ekki fleiri kvatt sér hljóðs. (Gripið fram í.) Má ég gera athugasemd, hæstv. forseti? ( Forseti: Hv. þm. hefur nú þegar gert athugasemd.)