Flóttamenn á Íslandi

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:02:00 (250)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Herra forseti. Sem svar við 1. og 2. lið fsp. er það að segja að flóttamenn, samkvæmt sérstakri ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að taka á móti flóttamönnum frá Suðaustur--Asíu, hafa frá 1986 og fram til 1. okt. á þessu ári verið 83. Að auki hefur 33 verið veitt landvistarleyfi. Það eru aðilar sem ekki falla með skýrum hætti undir skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna en hefur af mannúðarástæðum verið veitt landvistarleyfi hér.
    Sem svar við þriðju spurningunni er það að segja að erfitt er að afla gagna í þessu efni með skjótum hætti vegna þess að eldri gögnum hefur verið komið fyrir í geymslum en óhætt er að benda á að hér hafa verið veittar á árunum 1986 til 1990 10.115 vegabréfsáritanir til landsins. Árlega er nokkrum tugum synjað um vegabréfsáritun til Íslands. Ýmsar ástæður liggja að baki synjunum um áritun, t.d. ófullnægjandi skilríki, grunur um að viðkomandi sé í atvinnuleit og margir hafa fengið brottvísun frá einhverju hinna Norðurlandanna. Í mörgum tilfellum undanfarið hefur fólki frá Túnis, Alsír og Marokkó verið synjað um áritun. Ástæðan fyrir því er sú að upp komst að um skipulagðan innflutning á fólki var að ræða frá þessum ríkjum. Einnig var talsvert synjað frá ríkjum fyrir botni Miðjarðarhafs á meðan Persaflóadeilan stóð yfir af ótta við hryðjuverk.
    Sem svar við 4. lið fsp. er það að segja að á síðasta ári var 40 mönnum vísað frá Íslandi á landamærunum. Það sem af er þessu ári 15, en samtals frá árinu 1987 og það sem af er þessu ári hefur 150 aðilum verið vísað frá Íslandi á landamærunum.
    Sem svar við 5. lið fsp. er aðeins það að segja að það svar er nei. Sú vitneskja er ekki fyrir hendi.