Málefni héraðsskólanna

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:47:00 (269)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka fyrir það að þessi fsp. skuli vera komin fram og vil taka undir það sem kom fram í máli hæstv. starfandi menntmrh. að heildarstefna í þessum málum hvað varðar héraðsskólana hefur alls ekki verið mótuð. Það er orðið mjög brýnt að setja á stofn nefnd sem mundi fjalla virkilega um það hvað á að gera við húsnæði héraðsskólanna sem ríkið á úti um allt land. Málefni Reykjanesskólans er málefni alveg sérstaks eðlis því að þar er sú leið farin að leggja niður skólann án nokkurs fyrirvara, án þess að skoða þau mál nokkuð fyrst. Hvað varðar Reykholt er þó starfandi nefnd og skólinn starfar þar í vetur þannig að það er þó frekar hægt að hugsa sér að það verði búið að finna leið til þess að halda honum áfram gangandi á næsta ári en það var ekki fyrir hendi þegar Reykjanesskólinn var fyrirvaralaust lagður niður. Og mótmæli við þá ráðstöfun hafa reyndar komið fram frá öllum þingmönnum Vestfjarða. Þar hafa verið inni nemendur sem hvergi eiga athvarf í öðrum skólum og ekki hvað síst héðan af höfuðborgarsvæðinu og það er tími til kominn að þau mál séu skoðuð í samhengi við skólastefnu yfirvalda.