Sjávarútvegsmál

10. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 16:14:00 (302)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
     Frú forseti. Ræður hv. þm. fara í nokkra hringi. Hér fyrr í umræðunni kvartaði hann yfir því að gengið hefði ekki verið lækkað 1988. Þegar það var rekið ofan í hann hvernig að þeim málum var staðið þá kemur hann núna og segir: Að sjálfsögðu átti ekki að lækka gengið 1988. Þá átti að fara þá leið að lækka alla launataxta í landinu um 10% og hann segir að ég hafi einn allra Íslendinga staðið gegn því haustið 1988 að lækka með lögum alla launataxta um 10%. Það er nú býsna fróðlegt og væri gaman að heyra hér aðra forustumenn Alþb. hvort þeir voru á þeim tíma þeirrar skoðunar að það hefði átt að lækka með lögum alla launataxta um 10% eða er það kannski þeirra tillaga nú að það eigi að byrja á því að lækka alla launataxta um 10%? Ég gat ekki skilið hv. þm. betur en hann væri að vísa til tillagna af því tagi og teldi að það hefði átt að fara þá leið 1988 og það mátti kannski skilja af orðum hans að það væri heppilegast að ganga þannig að verki nú. Þeir snúast í býsna marga hringi hv. þm. Alþb. nú um stundir.