Heilbrigðisþjónusta

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 14:32:00 (319)

     Finnur Ingólfsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil aðeins stíga hér í stól til þess að taka undir með hv. flm. það ágæta mál sem hér er á ferðinni og þakka hv. þm. fyrir sína framsögu. Áður en sú breyting var gerð fyrir rúmum tveimur árum að afnema endurgjald á heimsóknir á heilsugæslustöðvar var þessi þáttur þjónustunnar fólki að kostnaðarlausu. Í raun og veru má segja, hvernig sem menn líta á, að í gegnum árin hefur verið talið að hann ætti að vera það og það rökstutt með þeim hætti að heilsugæslulæknar, sem yfirleitt fá greitt sérstaklega fyrir hvert einasta verk sem þeir vinna inni á heilsugæslustöðvunum, fá ekki sérstaklega greitt fyrir þau verk sem lúta að ungbarnaeftirliti og

mæðravernd. Það er talið að þetta eigi að vera inni í þeirri þjónustu sem þeir eiga að veita á stöðvunum. Til að undirstrika það að þessi þjónusta á að fara fram á heilsugæslustöðvunum er í samningi við sérfræðinga um sérfræðilæknishjálp tekið fyrir að þessi þjónusta sé veitt af sérfræðingum. Auðvitað geta sérfræðingar veitt slíka þjónustu en þeir fá hana ekki endurgreidda frá tryggingunum. Það er því mjög mikilvægt þegar sú breyting verður um áramót að þetta gjald verður tekið upp og lögin um Heilsuverndarstöð Reykjavíkur falla úr gildi sé það klárt að þessi þjónusta eigi áfram að vera þeim að kostnaðarlausu sem á henni þurfa að halda.
    Hins vegar velti ég því svolítið fyrir mér hvort þetta sé rétti staðurinn í heilbrigðisþjónustulögunum til að bæta þessari grein við og ég held að það sé rétt að þingnefndin taki það til umfjöllunar og skoði. Það er svo að heilbrigðisþjónustulögin eru fyrst og fremst lög um skipulag þjónustunnar en taka ekki til þess hversu mikið eða lítið á að greiða, það eru almannatryggingalögin. Því fyndist mér rétt að skoðað yrði gaumgæfilega hvort ekki væri eðlilegra að þessum þætti yrði frekar komið fyrir í almannatryggingalögunum en heilbrigðisþjónustulögunum, vegna þess að ég held að það sé rétt hjá mér að það sé hvergi í heilbrigðisþjónustulögunum getið um greiðslur sem snúa að heilbrigðisþjónustunni. Það eru fyrst og fremst almannatryggingalögin.
    Um leið og þetta yrði skoðað af þingnefnd er annar þáttur sem ég í mínu fyrra starfi varð nokkuð var við og þyrfti að skoða. Námsmenn og aðrir þeir sem dvelja tímabundið erlendis og þurfa á þessari þjónustu að halda hjá erlendum læknum hafa auðvitað þurft að greiða fyrir þá þjónustu en Tryggingastofnun ríkisins hefur hins vegar neitað að endurgreiða þá reikninga hafi þeir verið sendir hingað heim. Það er því eðlilegt að skýrt verði kveðið á um það í lögum, hvort sem það verður í heilbrigðisþjónustulögunum eða lögum um almannatryggingar, að þeir sem dvelja tímabundið erlendis og njóta læknisþjónustu þar eigi rétt á endurgreiðslu frá tryggingunum.