Framtíðarsýn forsætisráðherra

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 13:56:00 (352)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Frú forseti. Ég ætla að spyrja hér um viðhorf. Í rauninni ætla ég að spyrja um svolítið meira. Ég ætla að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann sjái lengra en nef hans nær. Ég ætla nefnilega að spyrja um framtíðarsýn forsrh. Hann sagði í sjónvarpinu í dag og hann hefur sagt það áður að samningur um Evrópskt efnahagssvæði mundi minnka þann þrýsting á íslenskum stjórnvöldum að sækja um inngöngu í Evrópubandalagið. Nú liggur fyrir að það hefur aukið á þrýstinginn í Sviss. Svisslendingar ætla að sækja um aðild eftir að þessi samningur var gerður. Því hefur verið lýst yfir að samningurinn muni auðvelda Norðmönnum að sækja um aðild. Svíar hafa sótt um aðild, Austurríkismenn hafa sótt um aðild þannig að ásóknin inn í Evrópubandalagið eykst fremur en minnkar eftir þennan samning.
    Og nú vil ég spyrja forsrh. hvernig hann sjái fyrir sér framtíð Íslands og framtíð Evrópska efnahagssvæðisins þegar og ef þessi ríki ganga inn í Evrópubandalagið. Ég vil taka það fram strax að það þýðir ekki að segja mér að þá breytist þessi samningur um Evrópska efnahagssvæðið einfaldlega í tvíhliða samning vegna þess að það svarar ekki spurningunni um það hvað eigi að verða um eftirlitsstofnun EFTA, hvað eigi að verða um sérfræðiþjónustu EFTA, hvað eigi að verða um EES-dómstólinn og fleira sem okkur er sagt núna að sé svo mikilvægt, ekki bara til að gæta hagsmuna Evrópubandalagsins, nei, til að gæta hagsmuna okkar. Þarf þá ekki þessar stofnanir allar áfram til að gæta okkar hagsmuna? Og ég vil þess vegna spyrja um framtíðarsýn forsrh.