Fjárlög 1992

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 17:31:00 (374)

     Gunnlaugur Stefánsson :
     Frú forseti. Jafnan þegar fjárlagafrv. er lagt fram til 1. umr. spara stjórnarandstæðingar ekki stórar yfirlýsingar, stór orð og gagnrýna mikið. Reynslan hefur sýnt að svo hefur verið nú eins og áður. Það er einnig rétt að allar ríkisstjórnir sem hafa lagt fram sín fjárlagafrv., síðasta ríkisstjórn líka, hafa sett fram frómar óskir og góðar vonir. En það sem mestu skiptir er hvernig tekst með framkvæmdina á sjálfum fjárlögunum. Við erum ekki að leggja fram fjárlög. Við erum að leggja fram fjárlagafrv. til 1. umr. Þetta frv. á eftir að fara til fjárln. til umræðu og skoðunar og síðan lagt aftur fyrir þingið í tveimur umræðum. Reynslan hefur sýnt að fjárlagafrv. hefur jafnan tekið breytingum í meðförum þingsins, allt að 2--3% og jafnvel hærri tölu, og þannig á það að vera. Þetta er stjfrv. Þetta er frv. ríkisstjórnarinnar og það reynir á þingið hvernig það muni fara með frv. En það er alveg hárrétt að að baki þessu frv. standa tveir þingflokkar, Sjálfstfl. og Alþfl. Fjmrh. hefur gert grein fyrir innihaldi frv., þeim forsendum sem að baki liggja og þeirri framtíð sem blasir við.
    Það vakti athygli mína í ræðum stjórnarandstæðinga að þeir skyldu draga dul á það ástand sem við blasir í þjóðarbúinu um þessar mundir. Þjóðarframleiðsla fer minnkandi, viðskiptakjör eru að versna, hagvöxtur er að dragast saman og skuldsetning þjóðarinnar er að verða eitt allsherjarvandamál. Arfurinn úr fjármálaráðherratíð fyrrv. fjmrh. er ekki grunnur til þess að byggja á öðruvísi en tekið verði á ríkisfjármálunum með allt öðrum og gjörbreyttum vinnubrögðum.
    Síðustu ríkisstjórn tókst að ná verðbólgunni niður. Verðbólgan er enn á viðunandi stigi og allar líkur til þess að hún vaxi ekki ef tekst að ná fram mörgum þeim markmiðum sem fjárlagafrv. boðar. Það var gott verk hjá þeirri ríkisstjórn og þar náði hún sínum besta árangri, að ná niður verðbólgunni. En það verður að spyrja að því núna hvort það kunni að vera að lífskjörin í þessu landi byggi á fölskum grunni þegar skuldsetning þjóðarinnar er orðin slík og raun ber vitni. Ætlum við enn og aftur að afgreiða frómar óskir og góðar vonir með aukinni lántöku? Það er stóra spurningin og þar reynir á þingið. Þar reynir á ríkisstjórnina. Þar reynir á okkur öll.
    Frv. miðar að því að það verði afgreitt með 4 milljarða kr. halla og að heildarlánsfjárþörf opinberra aðila verði ekki meiri en 24 milljarðar. Hér er stigið skref í rétta átt í að draga úr þenslu ríkisins. Launþegar hafa staðið að þjóðarsátt um kjarasamninga sína síðustu ár. Það verður að spyrja hvort ríkisvaldið hafi sl. ár tekið yfir höfuð þátt í þeirri þjóðarsátt sem launþegar hafa tekið á sig. Ríkið hefur spennt bogann hátt, bæði með þenslu skrifstofubáknsins í Reykjavík og á suðvesturhorninu og með ýmsum aðgerðum sem hafa stuðlað að fólksflutningi af landsbyggðinni suður til Reykjavíkur undanfarin ár, ekki bara í tíð síðustu ríkisstjórnar heldur jafnvel síðustu 20 ár. Þetta hefur orðið til þess að þenslan hefur aukist. Spurningin er hvort við eigum að halda þessari þenslu áfram á grundvelli lána.
    Þenslan hefur líka haft þau áhrif að vextir eru hér hærri en í nokkru öðru nágrannalandi og eru að sliga atvinnulífið þannig að það verður of lamað innan tíðar til þess að borga mannsæmandi laun, til þess að standa við samningsborðið andspænis launþegum sem krefjast nú hærri launa. Og ég skil það vel. Ég skil það vel á meðan ríkisvald undanfarinna ára hefur haft forustu um að spenna bogann og taka sí og æ meiri hlut af kökunni til sín. Í raun og veru er ríkisvaldið orðið eins og fíkill á fjármagnsmarkaðinum í leit og eftirsókn eftir fjármagni til þess að fjármagna frómar óskir og góðar vonir án þess að eiga innstæðu fyrir því að greiða fyrir þessar frómu óskir og góðu vonir. Hér verður að staldra við.
    Þetta fjárlagafrv. er tilraun til þess að staldra við. Það er tilraun til þess að við horfum í eigin barm og reynum að skoða hvort við eigum innstæður fyrir þeim framkvæmdum og þjónustu og því velferðarkerfi sem við viljum verja í þessu landi. Það er kjarni málsins, að verja velferðarkerfið í þessu landi þrátt fyrir minnkandi þjóðarframleiðslu, versnandi viðskiptakjör, minnkandi hagvöxt og skuldsetningu þjóðarinnar. En um leið að treysta hag ríkissjóðs þannig að hann megi takast á við aukin verkefni.
    Hér hefur ekki mikið verið rætt um að frv. gerir ráð fyrir að gera nýtt átak í samgöngumálum með því að auka framlög til þeirra. Það er framlag til eflingar byggðastefnu í landinu. Það hefur verið minnst á að málefni fatlaðra fái sérstaka umfjöllun og þar er um aukin framlög að ræða? Lítið hefur verið rætt um að það eigi að halda áfram uppbyggingu félagslegra íbúða í landinu með því að framlag til þess liðar á fjárlögum lækkar ekki heldur er að rauntölu það sama og var síðast sem tryggir það að nú getum við byggt a.m.k. 500--600 íbúðir til viðbótar. Það er líka byggðastefna gagnvart þeim sem áhuga hafa á þeim málum. Og það var gott að heyra þingmann Kvennalistans fagna lækkun húshitunarkostnaðar sem ríkisstjórnin hafði forgöngu um. Það var raunverulega fyrsta verkefni þessarar ríkisstjórnar, sem hún samþykkti í upphafi ferils síns, að lækka húshitunarkostnaðinn um 11% á hinum köldu svæðum á landsbyggðinni og er ekki vanþörf á. Er hér einungis um að ræða fyrsta áfanga af þremur til þess að lækka húshitunarkostnað enn frekar. Hér er í raun og veru um eitt brýnasta lífkjarajöfnunarmál að ræða fyrir fólkið á landsbyggðinni.
    Í fjórða lagi vildi ég nefna að það er ásetningur þessarar ríkisstjórnar að flytja ríkisstofnanir út á land eins og aðstæður frekast leyfa. Því hefur verið lýst yfir að Byggðastofnun eigi að flytja norður á land og ég veit að í athugun er flutningur á fleiri ríkisstofnunum. Það er raunhæft skref til byggðajöfnunar og það er líka raunhæft skref til lífskjarajöfnunar í þessu landi.
    En það er líka mergurinn málsins hvernig okkur tekst að tryggja og jafna lífskjörin í landinu þrátt fyrir að við verðum að draga saman seglin í ríkisfjárfestingum og ríkisútgjöldum. Það er hárrétt hjá þingmanni Framsfl., Guðmundi Bjarnasyni, að ekki var samstaða um öll atriði fjárlagafrv. í þingflokki Alþfl. Er það óeðlilegt? Í ríkisstjórninni starfa saman tveir ólíkir flokkar og þar er tekist á um ólík sjónarhorn og ólík viðhorf í mörgum málum. Þar verður að ná málamiðlun og þannig gengur það fyrir sig og hefur gengið fyrir sig í ríkisstjórnum þar sem tveir eða fleiri flokkar starfa saman allt til þessa.
    Um eitt atriði tókst ekki samstaða. Það var í sambandi við skólagjöld sem mikið hafa verið til umræðu allt fram að þessu. Fjórir þingmenn í þingflokki Alþfl. hafa lýst því yfir að þeir muni ekki styðja aukin skólagjöld, eins og fyrir þeim er gerð grein í fjárlagafrv. Það kann einnig að vera, eins og ég hef sagt áður, að í meðförum þingsins eigi einstök atriði eftir að taka nokkrum breytingum eins og reynslan hefur jafnan sýnt í umræðum um fjárlagafrv. á Alþingi.
    Það verður að halda fullri atvinnu í landinu þrátt fyrir að á móti blási. Það gerum við með því að treysta atvinnulífið eins og við frekast getum. Það verður að halda verðbólgustiginu lágu og þar með vinna gegn því að vextirnir hækki, heldur lækki. Og það verður að treysta búsetuna í landinu og jafna lífskjörin. Þessi markmið verður að hafa að leiðarljósi í umræðum á Alþingi og líka við afgreiðslu fjárlagafrv. er þau verða að lögum.
    Frú forseti. Um þetta má hafa mörg orð. En mikilvægast er að þjóðarsátt takist um stefnuna í ríkisfjármálunum, að þjóðarsátt takist um kjaramálin í komandi kjarasamningum og þjóðarsátt takist um búsetuna í landinu. Ég held að þjóðarsátt eigi víðar við en við samningaborð um kaup og kjör. Þjóðarsátt á við á flestum sviðum og aldrei frekar en nú.