Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 14:47:00 (394)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Með þeim samningum, sem hér eru til umræðu og efnislega lauk á ráðherrafundi EFTA og Evrópubandalagsins í Lúxemborg aðfaranótt þriðjudags, höfum við Íslendingar tryggt okkur stöðu í nýrri Evrópu. Við höfum tryggt okkur stjórnmálalega, við höfum tryggt okkur efnahagslega og við höfum tryggt okkur viðskiptalega. Það er því engum blöðum um það að fletta að hér eru til umræðu einhverjir viðamestu og þýðingarmestu samningar sem Íslendingar hafa gert. Það sem mestu máli skiptir er þó það að við höfum gert þessa samninga og tryggt stöðu Íslands í nýrri Evrópu á okkar eigin forsendum.

    Við erum sammála um það að aðild að Evrópubandalaginu komi ekki til greina þegar af þeirri ástæðu að sameiginleg sjávarútvegsstefna þess gengur gegn íslenskum hagsmunum. Með þeim samningum, sem hér er verið að fjalla um, erum við að tryggja aðild okkar að hinu nýja efnahags- og viðskiptasamstarfi Evrópu án þess að fórna þessum þjóðarhagsmunum. Fyrir þá sök erum við að tryggja stöðu okkar á okkar eigin forsendum, á íslenskum forsendum. Það er það mikilvæga í þessu máli.
    Hér er um að ræða gagnkvæma samninga. Við höfum rætt um fjórþætt frelsi. Við erum að ræða um frelsi í viðskiptum, á fjármagnsmarkaði og á vinnumarkaði. Vitaskuld hefur þetta miklar breytingar í för með sér og það felur í sér gagnkvæma hagsmuni allra þeirra sem hér eiga hlut að máli. Það er rétt að aðrar þjóðir öðlast hér réttindi til athafna sem þær hafa ekki haft áður. Við öðlumst sams konar rétt á vettvangi annarra þjóða og teljum okkur tryggja stöðu okkar betur með þeim hætti. Við ætlum með þessu að láta samkeppni knýja fram meiri vöxt og meiri verðmæti og tryggja á þann veg betri lífskjör fólksins í landinu. Við þurfum ekki síst á því að halda nú þegar við vitum að hráefnisauðlindin er takmörkuð og verður takmörkuð á næstu árum.
    Það er athyglisvert við lyktir þessara samninga sem hafa staðið um alllangan tíma að fjórir af fimm flokkum Alþingis hafa með beinum hætti tekið stjórnskipulega ábyrgð og pólitíska ábyrgð á framgangi þessara samninga þó að vitaskuld séu ekki aðrir pólitískt ábyrgir fyrir lokaniðurstöðunni en þeir flokkar sem standa að núverandi ríkisstjórn. Því hafa fjórir flokkar á Alþingi mótað þá stefnu að æskilegt sé að tengjast Evrópubandalaginu með þeim hætti sem Evrópska efnahagssvæðið gerir ráð fyrir þó að menn hafi vafalaust innan allra flokka ólíkar skoðanir um það sem gera hefði þurft fyrirvara um eða gera mætti fyrirvara um.
    Í heild hygg ég að ekki fari á milli mála að hér er um að ræða mikinn ávinning fyrir Ísland. En vitaskuld leiða allar breytingar af þessu tagi til þess að menn þurfa að horfast í augu við nýjar aðstæður. Allar breytingar kalla á endurmat og allar breytingar eru þess eðlis að menn verða að vega og meta kosti. Eftir sumu kunna menn að sjá, aðrar breytingar verða augljóslega til bóta og ný sóknartækifæri gefa okkur möguleika.
    Staða sjávarútvegsins er og hefur verið mikilverðust í þessum samningum og þýðingarmest út frá íslenskum hagsmunum fyrir þá sök að sjávarútvegurinn er meginauðsuppspretta Íslendinga og mun verða það um mörg ókomin ár. Hann er undirstaða gjaldeyristekna og verðmætasköpunar og velferðar í landinu.
    Staða okkar Íslendinga í viðræðunum hefur að sumu leyti verið þrengri en annarra þjóða fyrir þá sök að sérstaða okkar hefur verið meiri en annarra. Við erum í fyrsta lagi fámennari en aðrir sem tekið hafa þátt í þessum samningum. Við byggjum atvinnu okkar á einhæfari grundvelli en aðrar þjóðir og við höfum byggt höfuðframleiðslu okkar og meginframleiðslu og meginútflutningsafurðir á sviði sjávarútvegs sem er ekki þáttur í hinu fjórþætta frelsi sem Evrópska efnahagssvæðið snýst um. Það hefur því verið vandaverk að tryggja stöðu okkar vegna þessara aðstæðna. Og vitaskuld gátu komið upp bollaleggingar um að við hefðum hugsanlega átt að fara með öðrum hætti í þessar viðræður til að tryggja íslenska hagsmuni en ég held að niðurstaðan sé ótvírætt sú að um það getur ekki orðið ágreiningur eftir á vegna þess að á þessu meginsviði höfum við náð meiri árangri en við gátum frekast vænst.
    Við byrjuðum þessar viðræður með sameiginlegri kröfu EFTA-landanna um fríverslun með fisk sem felur í sér afnám allra tolla og allra styrkja. Slík grundvallarákvörðun hafði áður verið tekin innan EFTA. Evrópubandalagið hafnaði því að semja við okkur á þessari forsendu vegna þess að það heldur enn við það að halda sjávarútvegi og landbúnaði utan þessarar grundvallarreglu í viðskiptum þjóða í milli. Þáv. ríkisstjórn tók þá ákvörðun að halda viðræðunum áfram og samningaumleitunum áfram á nýjum grundvelli þó svo að Evrópubandalagið hafi hafnað því að semja á þessari forsendu. Ég tel að það hafi verið skynsamlegt og eðlilegt, ekki síst í ljósi þeirrar niðurstöðu sem nú er fengin. Við erum því ekki með samningsniðurstöðu í höndum sem knýr Evrópubandalagið til þess að hætta öllum styrkjum. Við hefðum kosið að ná þeim árangri en fyrir lifandis löngu var það mál afgreitt út af borðinu og þáv. ríkisstjórn taldi það ekki ástæðu til þess að ljúka samningum eða ganga frá þeim.
    Sameiginleg sjávarútvegsstefna Evrópubandalagsins hefur líka gert það að verkum að við höfum mætt kröfu um einhliða aðgang að íslenskum auðlindum í skiptum fyrir tollaívilnanir. Það hefur verið breið og almenn samstaða um það meðal Íslendinga og allra flokka á Alþingi að hafna þessari kröfu og samningsniðurstaðan tryggir okkur að við getum gengið til nýja samstarfsins án þess að gefa eftir í þessu efni. Við höfum náð samningsmarkmiði okkar fram.
    Evrópubandalagið sótti einnig á um fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi og þó að við göngumst almennt í samningunum inn á þá meginreglu að gagnkvæmur réttur til fjárfestinga verði fyrir hendi þá hlutum við að setja fyrirvara að því er varðar íslenskan sjávarútveg vegna þess að ella hefðu ríki Evrópubandalagsins komist bakdyramegin inn í íslenska landhelgi með kaupum á fyrirtækjum sem hefðu rétt til útgerðar og fiskvinnslu. Það er mjög mikilsverður árangur í þessum samningum að hafa haldið þeim fyrirvara. Öllum er kunnugt um hversu hart var á þá sótt að við létum undan í þessu efni og um það stóð lokasnerran í samningunum hvort undan þessu yrði látið eða ekki og það var mjög ánægjulegt að ná þessari niðurstöðu tollamegin án þessað þurfa að gefa eftir á þessu sviði. Það er reyndar meginatriði af okkar hálfu.
    Fyrir íslenskan sjávarútveg verða miklar breytingar með samningunum. Sjávarútvegurinn hefur á grundvelli bókunar 6 notið mjög víðtæks tollfrelsis. Um 60% tollfrelsi hefur gilt á grundvelli bókunar 6. En við höfum greitt umtalsverðar upphæðir í tolla eða réttara sagt, mjög umtalsverðar upphæðir sem greiddar hafa verið í tolla hafa

skert og veikt samkeppnisstöðu okkar á þessum mörkuðum, hindrað sókn okkar inn á þá með nýjar vörur og skert samkeppnisstöðuna innbyrðis í íslenskum sjávarútvegi, en um 2100 millj. kr. hafa verið greiddar í tolla vegna innflutnings á íslenskum sjávarafurðum til Evrópu. Langstærstur hluti þessara tolla fellur niður við upphaf samningsins en þá má heita að við höfum fellt niður tolla af um 76% útflutningsframleiðslunnar til Evrópu. Í áföngum lækka svo tollarnir til viðbótar fram til 1. janúar 1997 og þá höfum við fellt niður um 90% af öllum tollgreiðslum eins og þær voru á árinu 1990. Þegar saman er lagt það aukna tollfrelsi sem við fáum í samningunum og það tollfrelsi sem við nutum samkvæmt bókun 6 þá munum við njóta að loknum aðlögunartímanum tollfrelsis að því er varðar 95--96% af útflutningi okkar til Evrópubandalagsríkjanna. Það verður að teljast mjög mikilsverður árangur og alveg ótvírætt skapar það sjávarútveginum nýja stöðu.
    Ef við lítum í hnotskurn á þá þætti sem hér koma við sögu þá er fyrst að geta þeirrar vöru sem kemur til tollaniðurfellingar þegar við upphaf samninganna. Þar er um að ræða saltaðan þorsk og öll söltuð flök en tollar af þessum vörum voru tæplega 1 milljarður kr. vegna útflutnings á árinu 1990 eða um helmingur af öllum tollgreiðslum vegna íslenskra afurða inn á þennan markað. Þá falla einnig niður tollar af ferskum þorski, ýsu og ufsaflökum en umtalsverðar tollgreiðslur hafa verið á þessum vörum. Það sem mestu máli skiptir í þessu sambandi er þó það að hér gefast okkur tækifæri til nýrrar vöruþróunar og nýrrar sóknar inn á þennan markað. Það á einnig við um söltuðu síldarflökin, en þar hafa orðið mjög breyttar aðstæður eftir að Rússlandsmarkaðurinn brotnaði saman. Við þurfum nú að hasla okkur völl á nýjum mörkuðum og með nýrri vöruþróun að því er varðar síldina og það skiptir því mjög miklu máli að hafa með ótvíræðum hætti tryggt að tollur fellur niður af söltuðum síldarflökum. Það á einnig við um skreið, svo og tolla af ferskri og frosinni lúðu, grálúðu og flökum af þessum tegundum. Síðan tekur við fjögurra ára aðlögun sem stendur frá upphafi samninganna frá ársbyrjun 1993 til ársbyrjunar 1997. Á þeim tíma lækka tollar á velflestum öðrum vörum um 70%. Eftir stendur að tollar lækka ekki á humri og laxi. Í heild má segja að öllum tollmúrum hafi verið rutt úr vegi þó að óverulegir tollar standi eftir á takmörkuðum framleiðsluvörum. En kjarni málsins er sá að hér hafa verið skapaðar nýjar aðstæður til sóknar fyrir íslenskan sjávarútveg.
    Ég hef áður vikið að þeim þætti sem lýtur að fjárfestingu í sjávarútvegi. Við tryggjum það að núgildandi löggjöf í því efni stendur og þar með girðum við fyrir það að útlendingar komist bakdyramegin inn í landhelgina. Menn hafa verið að spyrja: Er ekki hægt að fara á bak við þessa samninga ef eitt fyrirtæki á í öðru og því þriðja og það kaupir svo aftur í útgerðarfyrirtæki? Ég ætla ekki að segja neitt til um það. Kjarni málsins er þó sá að í því efni er engin breyting frá núverandi stöðu. Ef þetta er hægt í dag, þá getur vel verið að það verði líka hægt eftir þessa samninga, en það verður ekkert frekar hægt eftir að þeir eru um garð gengnir heldur en núna því að fjárfestingarfyrirvarinn er þess eðlis að við megum halda löggjöf okkar eins og hún er. Sé vandamálið til í dag þá getur það verið til eftir þessa samninga og það er í raun og veru kjarni málsins. Samningarnir breyta engu þarna um.
    Við höfum verið í viðræðum við Evrópubandalagið árum saman allt frá því að bókun 6 var gerð um gagnkvæman samning á sjávarútvegssviðinu. Það mál hefur verið tekið upp af flestum ríkisstjórnum og lýtur fyrst og fremst að því að gera samning um gagnkvæma samvinnu á sviði vísinda og rannsókna en jafnframt um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum innan tiltekinna marka. Og í tengslum við samningana er ákveðið að ljúka slíkri samningsgerð sem lengi hefur verið á döfinni og leiðir í sjálfu sér beint af bókun 6 á sínum tíma. Það er þess vegna ráð fyrir því gert að gera samning um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum að hámarki 3000 karfaígildi sem Evrópubandalagið fengi að veiða innan lögsögu okkar á móti því sem við fengjum u.þ.b 30 þúsund lestir af loðnu í grænlenskri lögsögu af kvóta sem Evrópubandalagið mundi kaupa af Grænlendingum. Hér er um gagnkvæm skipti að ræða, slétt skipti, sem geta þjónað hagsmunum beggja.
    Það er ráð fyrir því gert að frá slíkum samningi yrði gengið einhvern tíma á næsta ári. En meginefni hans er takmörkun á gagnkvæmum skiptum veiðiréttinda. Við höfum lagt fram samningstilboð í þessu efni sem Evrópubandalagið hefur ekki mótmælt. Þar höfum við gert ráð fyrir því að meiri hluti aflans yrði langhali en minni hluti karfi. Evrópubandalagið hefur óskað eftir því að snúa þessum hlutföllum við. Það verður tekist á um það í þessum samningum. Við þurfum líka að framkvæma frekari rannsóknir á langhalastofninum.
    Þessi samningur mun fela í sér, eins og við höfum gert Evrópubandalaginu grein fyrir og það hefur ekki gert athugasemdir við, að hér yrði um mjög fá skip að ræða. Það yrðu ekki verksmiðjuskip. Þau fengju aðeins að koma hér eftir að hafa fengið leyfi hvert fyrir sig. Þau kæmu hér á takmörkuðum tíma, mundu veiða á takmörkuðum, fyrir fram afmörkuðum svæðum. Þau yrðu að tilkynna komu sína inn í íslenska landhelgi til Landhelgisgæslunnar og tilkynna brottför, og um borð í hverju skipi yrði á kostnað útgerðaraðila íslenskur veiðieftirlitsmaður. Þannig yrði eins tryggilega frá því gengið og kostur er að skipin mundu í einu og öllu virða þær umgengnisreglur um auðlindina sem við sjálfir setjum. Ég tel þess vegna að þessi samningur um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum, sem gerður er í tengslum við aðalsamninginn, yrði okkur til hagsbóta. Hér er um samning að ræða sem er gagnkvæmur. Ef það kemur upp að annar hvor aðilinn getur ekki efnt skyldur sínar þá leiðir það af sjálfu sér að gagnaðilinn er leystur undan sínum skyldum því að þessi samningur er innbyrðis gagnkvæmur og hefur aðeins áhrif á sínu sviði.
    Við gerum einnig ráð fyrir því, og það er hluti af þessum samningi, að á sama hátt og við höfum framkvæmt þá hluti gagnvart löndum Fríverslunarsamtakanna þá verði heimilaðar landanir á fiski frá þeim ríkjum sem eiga

aðild að samningnum, þó þannig að væri verulegur ágreiningur um skiptingu á einstökum veiðistofnum þá höfum við rétt til þess að banna landanir á þeim tegundum í íslenskum höfnum. Þetta er í meginatriðum sama regla og gildir gagnvart ríkjum Fríverslunarsamtakanna.
    Um þetta hefur stundum verið tekist á hér á Alþingi. Á síðasta kjörtímabili var meiri hluti neðri deildar þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að breyta íslenskri löggjöf að þessu leyti en efri deild á annarri skoðun. Ég held að hér sé um að ræða mjög eðlilega og sjálfsagða breytingu sem sé fyrst og fremst okkur Íslendingum til hagsbóta.
    Í heild, frú forseti, þá er alveg ótvírætt að hér er um ræða mjög mikilvægan samning fyrir Ísland sem gefur okkur ný tækifæri. Við getum ekki vænst þess að taka meira hráefni úr sjónum á næstu árum. Kjarni málsins er sá að við getum ekki vænst þess að auka verðmætasköpun í þjóðfélaginu með því að taka meira hráefni úr sjónum. Við þurfum þess vegna að einbeita okkur að því að þróa hér meiri fullvinnslu á afurðum, sækja meira fram á mörkuðunum og auka þannig verðmætasköpun þjóðarinnar og bæta lífskjörin. Þar eru sóknarmöguleikar þjóðarinnar. Og þessi samningur er forsenda þess að þessi dugmikla og athafnasama þjóð geti bætt lífskjör sín með þeim hætti. Það er kjarni málsins.