Ráðning erlendra sjómanna á íslensk kaupskip

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 10:43:00 (412)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að taka þetta mál hér upp. Ég hef reifað þetta á Alþingi nokkrum sinnum, m.a. á árunum 1986--1988 með ýmsum hætti, bæði í formi fyrirspurna og þingsályktunartillagna. Ég vil einnig þakka hæstv. samgrh. fyrir það sem fram kom í hans máli þar sem greinilegt er að samgrn. er að reyna að taka á þessu máli af veikum mætti. Í raun og veru hefur ráðuneytið átt afar erfiða stöðu í máli af þessu tagi.
    En ég kom hingað líka upp, virðulegi forseti, til að vekja athygli á því að þetta er fyrsta dagskrármálið sem tekið er fyrir hér á hv. Alþingi eftir að fram fer allsherjarumræða um EES. Í þeirri umræðu er fjallað um það að galopna í raun og veru þennan markað fyrir erlendum aðilum, bæði í rekstri og starfi þannig að sá málflutningur sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hafði hér uppi áðan bendir eindregið til þess að í verkalýðshreyfingunni a.m.k. séu menn sem hafa áhyggjur af þeirri þróun sem hlýtur að ganga hér yfir verði Íslendingar aðilar að EES. Af þeim ástæðum tel ég sérstaka ástæðu einnig til að þakka hv. þm. fyrir skörulegan málflutning hans hér.