Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 14:37:00 (468)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Hér stöndum við auðvitað frammi fyrir tilteknu nýju ákvæði í þingsköpunum sem er dálítið erfitt að framkvæma. Það er auðvitað algjörlega óviðunandi fyrir hv. 5. þm. Vestf. að hans fyrirspurn sé ekki svarað eins og hann gat hér um áðan. Í þessum umræðum kemur það fram að í raun og veru er um að ræða of þröng tímamörk í utandagskrárumræðunni. Það er ósköp einfaldlega þannig. Bæði fyrir hæstv. ráðherra til að svara fyrirspurnum og eins til þess að þingmenn geti skipst á skoðunum með eðlilegum hætti. Ég tel að þau skólamál sem hér eru á dagskrá séu með þeim hætti að það sé algjörlega útilokað að gera þeim nein skil í 15 mínútna ræðum eins og gert er ráð fyrir að við sem ekki erum frummælendur og ekki erum svarendur eigum hér rétt á, (Gripið fram í.) m.a. vegna þess að um það er að ræða, a.m.k. að því er undirritaðan varðar, að nokkuð hefur verið sveigt að mínum störfum í svarræðu hæstv. ráðherra. Engu að síður mundi ég vilja stinga upp á því við hæstv. forseta hvort ekki sé hægt að leysa þetta mál þannig að hæstv. menntmrh. fái eins og 10 mínútur eða svo núna til að svara því með Héraðsskólann í Reykjanesi sem hv. 5. þm. Vestf. spurði um og hann fái þá svona liðlega 20 mínútur eftir atvikum þegar líður á umræðuna og hæstv. menntmrh. nýtir sér sinn seinni rétt. Auk þess getur hann náttúrlega notað andsvararéttinn. En þetta form kallar líka á það að við þingmenn notum andsvararéttinn líka við þær aðstæður sem nú eru uppi enda er ekkert sem útilokar það samkvæmt þeim ákvörðunum, sem hæstv. forseti tilkynnti hér á forsetastóli nú fyrir nokkrum sólarhringum, að þingmenn nýti sér andsvararéttinn í þessari tegund utandagskrárumræðna sem nú fer fram.