Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 15:01:00 (474)

     Matthías Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Í sumar var gerð könnun á áhuga Hólmvíkinga á námi í öldungadeild. Undirtektirnar voru mjög góðar og bera vott um mikinn áhuga fólks á námi af þessu tagi. Alls lýstu 34 menn áhuga sínu á námi í öldungadeild auk þess sem 16 höfðu áhuga á að ná sér í 30 tonna skipstjórnarréttindi og 9 hugðu á vélavarðanám. Ætlunin var með stofnun þessarar öldungadeildar að skipuleggja hana með svipuðu sniði og var gert við öldungadeildina á Flateyri á síðasta vetri. Hver nemandi gat valið um hvaða greinar sem er, eina eða fleiri, og námið átti að aðlaga samræmdu áfangakerfi framhaldsskólanna í landinu og nýtist því nær öllum framhaldsskólum landsins. Nemendur í öldungadeild greiða skólagjöld og eru þau nokkuð mismunandi eftir skólum. Sem dæmi má nefna að nemendur í öldungadeildinni á Flateyri greiddu 4.250 kr. fyrir önnina ef þeir stunduðu nám í aðeins einni grein. Þeir sem stunduðu nám í fleiri en einni grein greiddu 8.500 kr.
    Þessari beiðni Strandamanna að starfrækja öldungadeild í Hólmavík í tengslum við Menntaskólann á Ísafirði var hafnað af menntmrn., en það var ætlunin að deildin tæki til starfa með haustinu. Þetta neikvæða svar ráðuneytisins vakti bæði vonbrigði og undrun. Hugmyndin um öldungadeild hafði verið rædd mikið í sambandi við stofnun framhaldsskóla Vestfjarða. Á síðasta skólaári var sams konar deildum komið á fót á Flateyri og Patreksfirði en deildin á Flateyri mun ekki starfa í vetur vegna þess að ekki voru nægilega margir þátttakendur.
    Eftir að afstaða ráðuneytisins lá fyrir var leitað eftir því að deildin yrði starfrækt innan fjárheimilda Menntaskólans á Ísafirði án sérstakrar fjárveitingar, enda er kostnaður við þessa deild mjög lágur, nokkuð innan við 200 þús. kr. á skólaári. Eftir að menntmrn. hafnaði þessari beiðni skrifuðu heimamenn bréf 23. sept. þar sem óskað er eftir því að þessi beiðni verði tekin upp eftir áramót og deildin starfrækt hálft skólaár.
    Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort ekki sé möguleiki á því að þetta stórmál fái nú afgreiðslu í menntmrn. því að ég tel að þó að það sé þröngt í búi hjá smáfuglunum, þá séu ábyggilega til molar þess

virði sem þetta er til að leyfa fólki á þessum stað slíka fræðslu. Ég tel þetta svo smátt mál að það taki því varla að vera að vinna gegn því.
    Þá kem ég að hinu málinu. Ég hefði að mörgu leyti viljað ræða almennt um skólamál en þar sem þessi háttur er nú kominn á þessa umræðu, þá vil ég minna á það að þingmenn Vestf., að einum undanskildum sem ekki var á fundinum, hæstv. heilbrrh., samþykktu á fundi sem haldinn var 28. ágúst að krefjast þess að Héraðsskólinn í Reykjanesi verði starfræktur næsta skólaár, enda er fjárveiting til skólahaldsins út þetta ár á fjárlögum og nú þegar liggja fyrir 30 umsóknir um skólavist næsta vetur. Þingmenn átelja í þessu bréfi að rangar upplýsingar sem starfsmenn menntmrn. hafa lagt fram séu notaðar sem grundvöllur að þessari ákvörðun. Þingmenn Vestf. lýsa sig í þessu bréfi reiðubúna að taka þátt í endurskoðun á framtíðarstarfi Reykjanesskóla. Þá skora þingmenn Vestf. á menntmrh. að koma til fundar hið fyrsta í Reykjanesi ásamt þingmönnum, skólanefndum, sveitarstjórnarmönnum og héraðsbúum um framtíðarmálefni skólans. Undir þetta bréf skrifuðu fimm þingmenn Vestf. eða allir þingmennirnir nema Sighvatur Björgvinsson.
    Þessu bréfi var aldrei svarað. Hins vegar tekur menntmrh. þá ákvörðun að leggja kennslu niður í Reykjanesi í vetur. Aldrei hefur komið svar um það hvort menntmrh. er tilbúinn að koma til fundar við okkur til að ræða almennt um þessi skólamál og þessa ákvarðanatöku.
    Það er nú nokkuð langt gengið að þurfa á sjálfu Alþingi að óska eftir svari hæstv. ráðherra á þessu atriði. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra segi að það sé svo langt um liðið, enda hefur hann nú verið fjarverandi um alllangt skeið, að það sé tilgangslítið að vera að halda fund á svona fámennum stað, en það gæti hugsast að samkomulag næðist um einhvern annan stað en Reykjanesið, en umfram allt hefur áhuginn, a.m.k. ekki minn, ekki fallið niður við það að ræða þessa ákvarðanatöku.
    Það er ákaflega leiðinlegt hvernig að þessu Reykjanesskólamáli hefur verið staðið af menntmrn. og af sjálfum menntmrh. Það vissi enginn annað en að þarna yrði skólahald með eðlilegum hætti þennan vetur. Rekstur skólans í Reykjanesi er á fjárlögum til áramóta og það er vandlega þagað um þessi mál öll og 25. júlí, ef ég man rétt, er gengið frá ráðningu skólastjóra og kennara við Héraðsskólann í Reykjanesi.
    Það er kallað í suma þingmenn Vestf. á fund fyrri hluta ágústmánaðar í sjálft menntmrn. til þess að skýra þeim frá því að hugmyndir séu uppi um það að leggja niður starfrækslu Reykjanesskóla á þessum vetri. Tveir þingmenn Vestf. voru ekki á þessum fundi, ég sem er 1. þm. og Ólafur Þórðarson sem er 2. þm. Það náðist að vísu í hann en hann var þá búinn að ráðstafa sér annars staðar og í töluverðri fjarlægð við menntmrn., en í mig var aldrei hringt og ég var þó við síma og farsíma þessa daga. Ekki veit ég hvers vegna. Kannski segir menntmrh. frá því í sínu svari. En á þessum fundi var dreift gögnum sem ég sá ekki fyrr en 28. ágúst hjá öðrum þingmönnum sem voru á þessum fundi. Það var ekki heldur haft fyrir því að senda mér og ég held ekki heldur hv. 2. þm. Vestf. þessi gögn. Þetta finnst mér vera ákaflega illa að verki staðið. Og þegar ég frétti um það hvað til stæði, þá hringdi ég í menntmrh. sem tók mjög elskulega í það að skoða þetta mál af fullri sanngirni. Ég sagði honum það að mér væri það mjög í mun að skólahald í Reykjanesi yrði ekki lagt niður í vetur. Það væri komið að því að skólahald ætti að hefjast innan nokkurra vikna. Hins vegar gæti ég mjög vel fallist á það að nefnd yrði skipuð til þess að kanna hvað ætti að gera í framtíðinni við þennan skóla.
    Reykjanesskóli hefur starfað í rúmlega hálfa öld. Þar voru ágætir skólastjórar allan þennan tíma. Fyrsti skólastjórinn var einn af fremstu skólamönnum landsins, Aðalsteinn heitinn Eiríksson, sem var brautryðjandi skólans, stofnaði hann og var samnefnari fyrir heimabyggðina og ríkisvaldið, og það var lagður grundvöllur að uppbyggingu skólans sem stóð í mörg ár og miklu lengur heldur en hann var skólastjóri og lengur en Páll sonur hans, sem tók við af honum, var skólastjóri. Síðan komu ágætir skólamenn að skólanum og áfram hélt þessi uppbygging.
    Reykjanesskóli var upprunalega til fyrir það að heimamenn lögðu til lóð, lögðu til hlunnindin sem eru í Reykjanesi, heita vatnið sem skóli og heimavist eru hituð upp með. Það hefur töluvert að segja og ég hefði talið nauðsynlegt að ræða við sveitarfélögin við Djúp, við Fjórðungssamband Vestfirðinga og finna leið til samkomulags í aðgerðum í þessu máli. En í staðinn fyrir það fara ákveðnir menn í ráðuneytinu af stað og einn kemur fram í svæðisútvarpinu á Ísafirði. Hann talar eins og sá sem valdið hefur og telur að það eigi að leggja þennan skóla niður, en aðrir vita þetta ekki fyrr en nokkru seinna. Þá er komið að því að þingmennirnir fjórir eru kallaðir til, en ég vil nú bæta því við af því að hæstv. menntmrh. er búinn að vera þingmaður í allmörg ár að það eru óskráð lög hér í þinginu að þegar þarf að kalla saman þingmannafund, þá er 1. þm., alveg sama í hvaða kjördæmi það er, falið það að kalla saman fund. Ef hann er ekki viðstaddur, þá er það 2. þm. þess kjördæmis sem kallar saman fund og það eru þeir sem ákveða þá hvenær fundur er kallaður saman og reyna eftir bestu getu að hafa samstarf og samvinnu við aðra þingmenn. Þetta var ekki gert.
    Það voru gerð mörg mistök í sambandi við þetta mál. Það var látið í veðri vaka að kostnaður á nemanda í Reykjanesi væri jafnvel 1,5 millj. kr. en samkvæmt upplýsingum skólastjórans þar var rekstrarkostnaður fyrir árið 1990 19 millj. en fjöldi nemenda var um 33. Þýðir það að kostnaður á nemanda var 576 þús. en þessi tala var ekki raunhæf vegna þess að í henni eru ákveðnir kostnaðarliðir sem ekki eru fyrirsjáanlegir í framtíðinni. Fyrrv. skólastjórahjón voru á launum við skólann að hluta þetta ár með launatengdum gjöldum og námu þau um 1100 þús. Í öðru lagi voru laun starfsfólks við mötuneytið með launatengdum gjöldum u.þ.b. 1600 þús. en það er búið að leggja það niður og er ekki lengur á menntakerfinu. Ýmislegt viðhald sem löngu var tímabært féll einmitt á

rekstur þetta ár og það vegur þyngst á tólfta hundrað þúsund vegna lagfæringa á rafmagni á drengjavistum. Samtals var þetta um 1,5 millj. Ef þessir liðir eru taldir frá, sem ekki áttu heima skólaári á eftir, þá er kostnaður við nemanda kominn niður í u.þ.b. 448 þús.
    Ég verð að segja það að ég hef þekkt Ólaf Einarsson lengi og við höfum átt samvinnu og setið hér á Alþingi, ef ég man rétt í 20 ár síðan hann kom hér inn, og ég veit ekki annað en það hafi jafnan verið gott samstarf með okkur og mjög náið. Ég get ekki annað en látið það koma hér fram að mér finnst að það sé mikils virði þegar slíkar ákvarðanir eru teknar að hafa sem nánast samstarf við fólkið sem byggir þessi byggðarlög, við þingmennina sem eru fulltrúar fólksins hér á Alþingi. Jafnframt vil ég minna á að ráðherrar verða ekki ráðherrar nema hafa stuðningsmenn á bak við sig og því hefur það alltaf verið mikils virði fyrir ráðherra að reyna að hafa gott samstarf við stuðningsmenn sína sem og Alþingi í heild.